09.11.1983
Efri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

10. mál, verðlagsmál

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Það kemur hv. 2. þm. Austurl. á óvart þegar talað er um að ríkisstj. muni skilgreina sína stefnu í húshitunarmálum. Nú er það svo, að frumvörp og lög túlka stefnu hverrar og einnar ríkisstj. og eru nánari skilgreining og útfærsla á því sem stendur í stjórnarsáttmála. Lögin um jöfnun húshitunarkostnaðar hafa verið til endurskoðunar og það er að sjálfsögðu niðurstaða þeirrar endurskoðunar sem skýrir hver sé hin raunverulega stefna í þeim málum. Ég held að óþarfi sé að vera að snúa út úr í þessum efnum.

Það er svo rétt til viðbótar við þetta, sem kannske ætti að vera óþarft á þessum stað, sem ég vil undirstrika það, sem ég sagði áðan, að Rafmagnsveitur ríkisins voru reknar með verulegum halla bæði árið 1981 og 1982. Og það var með tilvitnuðu bréfi sem fyrrv. iðnrh. tók ákvörðun um með hvaða hætti ætti að mæta þeim halla. Þar hygg ég að standi: svo að jöfnuður næðist á þessu ári. Það skyldi gert með þeim hætti að láta raforkuverðið hækka í takt við almennt verðlag í landinu og þó raunar meira til þess að hægt væri að vinna upp rekstrarhalla tveggja síðustu ára. Þetta liggur allt bréflega fyrir og er óþarft að hafa fleiri orð um það hér. Það er þetta sem skiptir máli sé rætt um verðlagsþróun á raforkuverði í landinu og svo hitt til viðbótar, með hvaða hætti var brugðist við. Það þótti ekki þörf á að láta verðlagshækkunina vera jafnmikla og búið var að stilla gjaldskrár inn á. Það er þetta sem skiptir máli í þessum efnum.