16.05.1984
Efri deild: 100. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5989 í B-deild Alþingistíðinda. (5316)

252. mál, fjarskipti

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ekki er ástæða til þess að hafa mörg orð um þessa afgreiðslu samgn. Ed., enda er frsm. búinn að skýra sjónarmið n. Mér finnst ástæða til þess að vekja athygli á því að við afgreiðslu n. náðist sá árangur að n. varð í meginatriðum sammála. Ég hygg, eins og reyndar kom hér fram við fyrri umr., að menn hefðu út af fyrir sig kosið að geta gengið lengra í frjálsræðisátt, en þetta er þó tvímælalaust mikill áfangi. Ef þær ábendingar, sem koma fram í grg. með till. n., verða virtar væri hægt að sníða af ýmsa agnúa og þá sérstaklega þá sem eru uppi í samskiptum milli þeirra starfshópa sem vinna við verkefni Pósts og síma og eins hinna sem hafa réttindi til að sinna þessum störfum eftir að þær breytingar koma í framkvæmd sem frv. gerir ráð fyrir.

Vegna tillöguflutnings hv. þm. Kolbrúnar Jónsdóttur er eðlilegt að benda á að ef Pósti og síma væri bannað að versla með notendabúnað gæti orðið þröngt fyrir dyrum hjá einhverjum þeim aðilum sem eiga þau tæki sem Póstur og sími hefur flutt inn og hefur nú umboð fyrir því ef Póstur og sími má ekki versla með notendabúnað gæti hann að sjálfsögðu ekki staðið skil á nauðsynlegum varahlutum í þann margbreytilega búnað sem hann hefur flutt inn um langa tíð og verið einn um.

Þetta er í rauninni síðasta málið sem samgn. Ed. hefur unnið, en hún á væntanlega eftir að leggja fyrir hv. deild fleiri afgreiðslur. Mér finnst því full ástæða til þess að færa nm. í samgn. sérstakar þakkir fyrir störf þeirra núna á úthallandi þingi. Menn heyra gjarnan raddir um það að slælegt skipulag sé á störfum Alþingis og þess ekki gætt svo sem vera bæri að koma málum þar áfram. Þannig er með mál samgn. að þau bárust flest rétt fyrir páska og stutt er síðan þau komu úr umsögnum, sum hver.

Það er athyglisvert hversu mikið hefur verið unnið í þeirri n. núna á þessu þingi. Ég gerði það til gamans að telja saman fundafjölda í þeirri gjörðabók sem við höfum fært okkar fundargerðir í en hún nær allt aftur til ársins 1958. Við samanburð á milli ára kemur í ljós að á þessu tímabili hafa fyrir utan árið í ár flest verið haldnir 16 fundir. Aðeins þrisvar sinnum áður hafa fundirnir komist yfir einn tug.

Það er líka athyglisvert í þessu sambandi að nefndarfólkið sem á sæti í samgn. Ed. er nákvæmlega það sama og skipar sjútvn. þeirrar sömu deildar en þar hafa fundir verið æðimiklir í vetur, líklega komnir yfir 40. Fundir í þessum tveimur n. verða því eitthvað mjög nálægt því að vera 70 talsins. Þetta fólk hefur unnið í öðrum n., sumt af því á líka sæti í landbn. sem einnig er æðidrjúg með fundarhöld á þessum vetri. Það leiðir af sjálfu sér að svona störf geta ekki gengið áfram nema með mikilli og góðri samvinnu og vert er að benda á að í nefndum Ed. á ekki sæti nema einn maður frá hverjum stjórnarandstöðuflokkanna. Og ég vil undirstrika það að þeir þrír stjórnarandstöðuþingmenn, sem hafa unnið í samgn. Ed., hafa sýnt mikla stundvísi við störf n. því að mikið álag er á þeim í öðrum n. Einn nm. á heimili suður í Keflavík og hefur orðið að leggja á sig aukaferðir hingað í bæinn vegna þessara starfa.

Það má vel vera að samgn. fái sína dóma um það að hafa ekki lokið þessum málum fyrr, en ég fullyrði að ef ekki hefði verið jafnvel unnið og jafngóður andi til starfa í n. og raun ber vitni hefðu þessi mál ekki gengið áfram. Mér fannst ástæða til að geta þessa hér því að ekki er síður eðlilegt að draga það fram sem vel er gert og raunar stórvel gert eins og hér er raun á þegar menn verða vitni að þeirri umræðu, sem jafnan gerir nokkuð vart við sig, að slælega sé unnið að störfum á Alþingi.