17.05.1984
Efri deild: 104. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6169 í B-deild Alþingistíðinda. (5557)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Nú er þetta frv., sem nefnt hefur verið bandormur, komið hér til 2. umr. í seinni deild og því líður senn að því, ef fram fer sem horfir, að hann skríði héðan út úr þingsölum og leggist með þunga sínum yfir landsmenn alla. Hann mun að vísu leggjast misþungt á landsmenn og er hann að því leytinu til í samræmi við ýmis önnur sköpunarverk hæstv. ríkisstj. sem óneitanlega gerir sér stundum mannamun.

Álit mitt á atriðum þessa frv. kemur fram í nál. minni hl. fjh.- og viðskn. og ég ætla ekki að setja hér á langa ræðu, en ég vil gera 2. gr. frv. að sérstöku umræðuefni. 2. gr. frv. hljóðar upp á stórfelldan niðurskurð á lánum — ég endurtek: lánum, ekki styrkjum — til námsmanna. Við erum búin að horfa upp á það hér í vetur hvernig ríkisstj. skerðir á tvist og bast tekjustofna ríkissjóðs með því að lækka eða fella niður gjöld, ýmist af ferðamannagjaldeyri, bönkum eða einkarekstri hvers konar, þrátt fyrir gatið mikla og stóra. Með 2. gr. ætlar ríkisstj. síðan að höggva á þann tekjustofn landsins sem einna dýrmætastur er, menntun þessarar þjóðar. Samþykkt þessarar greinar mun hafa í för með sér að fjölmargir ungir Íslendingar — mér finnst stundum eins og menn gleymi því hér að námsmenn eru Íslendingar en ekki eitthvert óskilgreint annað fólk- að fjölmargir hæfileikaríkir ungir Íslendingar eiga þess ekki kost að mennta sig sjálfum sér og þessu landi til velfarnaðar í framtíðinni. Og mér kemur í hug: Hvar eru nú hugsjónir þeirrar stórhuga aldamótakynslóðar sem lagði drögin að því velferðarþjóðfélagi sem risið hefur hér á landi á þessari öld? Hvar heyrast nú þau orð, og þá á Alþingi Íslendinga, að mennt er máttur, máttur þessarar þjóðar um alla framtíð? Sú skammsýni og ég vil segja menntunarfyrirlitning sem ræður ferðinni hvað varðar 2. gr. er með ólíkindum og það ætti ekki að fara á milli mála hér í þingsölum að menntun og hugvit er okkar dýrmætasta auðlind og þessa auðlind forsmáir nú ríkisstj.

Mig langar líka til þess að spyrja hvort hæstv. fjmrh. geti ekki skoðað þessi mál í því ljósi að nám er fjárfesting. Nám er fjárfesting alveg eins og fjárfesting á sviði atvinnurekstrar. Með því að samþykkja 2. gr. frv. eru menn í raun og veru að koma í veg fyrir arðbæra fjárfestingu.

Fyrir utan það að höggva þar sem síst skyldi leiðir þessi grein af sér að það sem eitt sinn þótti mikils virði hér á landi, jafnrétti til náms, er úr sögunni. Efnahagur á ekki að skera úr um námsmöguleika nokkurs manns, heldur er það í verkahring skólamanna en ekki stjórnmálamanna eða fjmrh. að meta námshæfni hvers og eins. Verði greinin samþykkt mun stór hópur námsmanna verða að hverfa frá námi af fjárhagsástæðum og annar stór hópur mun ekki geta hafið nám af sömu ástæðum. Þar að auki mun þetta hafa í för með sér aukin vandræði í húsnæðis- og atvinnumálum. Og hvernig ætlar hæstv. ríkisstj. að leysa það? Ég bið um svar við því.

Ég mæli hér eindregið gegn því að umrædd 2. gr. verði samþykkt og ég skora á hv. þdm., sem hér sjá ástæðu til að vera við þessa umr., að fella hana út úr þessu frv.

Þá eru það erlendu lántökurnar sem þetta frv. hljóðar upp á. Um þær mætti tala lengi svo og fjárfestingarstefnu þessarar ríkisstj., en það hef ég oftsinnis þegar gert. En eitt vil ég segja hér, að það er víst að þessi erlendu lán, sem þar að auki eru eyðslulán en ekki fjárfestingarlán, munu reynast afkomendum okkar svo dýrkeypt að þeir gætu kiknað undan þeim. Mér er það stundum til efs að í þessum efnum hugsi ríkisstj. lengra en til næsta kvölds. Öðruvísi fæ ég ekki skilið ráðstafanir af þessu tagi.

Virðulegi forseti. Það mætti setja hér á langar tölur um allan sirkusinn í kringum þetta fjárlagagat, um það hvernig þessar tillögur til að fylla upp í gatið leysa í rauninni lítinn vanda, um það hvernig tölurnar í frv. eru ósundurliðaðar og standast ekki í mörgum tilfellum, um það hvaða hugmyndir og hvílík skammsýni liggur að baki þessu frv. En ég veit að þetta er hv. þdm. öllum fullkunnugt um — og ætli það sé ekki ástæðan fyrir því að hv. stjórnarþm. gera hér ekki tilraun til að fara í ræðustól og styðja þetta frv., þ. e. þeir sem hér eru viðstaddir? Þeir eru flestir fjarstaddir.

Virðulegi forseti. Ég hef þessi orð mín ekki fleiri, en ítreka andstöðu mína við meginefni þessa frv. og við þau sjónarmið sem það grundvallast á.