17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6209 í B-deild Alþingistíðinda. (5620)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það var gott að fá þær upplýsingar sem hæstv. forseti veitti hér. Ég vissi raunar fyrir að af hálfu Alþfl. var óskað eftir því sérstaklega að ekki yrði kvöldfundur í kvöld í ljósi þess sem hér hefur verið greint og formaður flokksins gat um áðan. En komið hefur í ljós skv. upplýsingum forseta að þrír þingflokksformenn a. m. k. hafi óskað eftir þessum fundi. Ég lít svo á að það hljóti þá að vera þingflokksformenn Alþb., Framsóknar og Sjálfstfl. (Forseti: Það er rétt.) Enginn þessara þingflokksformanna, sem óska eftir því að þm. og starfsfólk sitji hér við vinnu eða standi eða rölti, hefur gert svo lítið að vera viðstaddur þessa umr. og tiltölulega fáir af þeim mönnum, sem bera ábyrgð á þessu máli og flytja það, hafa verið viðstaddir þessa umr. Það er lágmarkskrafa, a. m. k. siðferðisleg, að þeir, sem krefjast þess að fólk vinni hér að næturlagi kvöld eftir kvöld, séu sjálfir viðstaddir þá vinnu.

Hvað því viðkemur að hæstv. forseti hafi borið starfsþrek starfsfólks í þinginu undir skrifstofustjóra er ekkert nema gott um það að segja. Mér dettur ekki í hug að neinn af því ágæta starfsfólki sem hér er neitaði að vinna. En álagið getur eigi að síður verið orðið of mikið undir þeim kringumstæðum sem hér hafa ríkt undangengin kvöld og nætur.

Þá upplýsti hæstv. forseti að ákveðið hefði verið eftir því óskað við sig að ljúka þingi á laugardag. Ég vil gjarnan fá þær upplýsingar frá hæstv. forseta hver það er sem borið hefur fram svo ákveðnar óskir um það að ljúka starfi þingsins á laugardag að hér verði að halda fólki að vinnu nótt eftir nótt vegna þeirrar óskar einnar. Þetta held ég sé nauðsynlegt að fá fram og ég ítreka mótmæli við því að haldið sé áfram fundi í nótt. Það er greinilegt ef forseti ætlar að verða við þessu, að mínu mati fáránlegu, kröfu þremenninganna og þeirra sem óskað hafa eftir að þingi ljúki á laugardag þá verður fundur hér talsvert langt fram eftir nóttu og trúlega ekki bara í nótt heldur næstu nætur.

Ég get mér þess til af ummætum víða að að ástæða fyrir þessari ósk sé sú að æði margir hæstv. ráðherrar þurfi að bregða sér bæjarleið í næstu viku. En mér kemur á óvart að eindregin ósk um fundarhöld, eins og hér hefur komið fram, komi frá óbreyttum þm. þó þingflokksformenn séu eða formenn stjórnmálaflokks. Það er Alþingi ekki sæmandi og ekki nein rök fyrir vinnubrögðum þeim sem hér hafa verið viðhöfð, ekki bara núna heldur oft áður, að ráðherrar þurfi að fara úr landi einhvern tiltekinn dag og miða verði starfstíma þingsins við það. Slíkt er hneisa. Það hefur komið fyrir æðioft að ráðherrar hafi farið úr landi og þingi hefur verið haldið áfram. Það er engin ný bóla þó að slíkt gerðist nú enn einu sinni og væri það þó skömminni til skárra og meiri sómi þingsins að halda áfram störfum þó svo ráðherrarnir væru ekki viðstaddir.

Ég ítreka svo að lokum þessa spurningu mína til hæstv. félmrh.: Hvaða álit hefur hann á því sem hér hefur verið að gerast og er að gerast, að mínu viti augljóslega broti á lögum um hvíldartíma? Hvaða álit hefur hæstv. félmrh., sem yfirmaður þess málaflokks í landinu, á slíku? Ég krefst þess að hæstv. ráðh. segi sitt álit um þetta hér því að það getur ekki verið ætlan ráðh. eða stjórnvalda að skikka aðra til þess að hlíta þessum reglum en leggja sjálfir blessun sína yfir það að þær séu brotnar þar sem þeir geta ráðið því. slíkt er ekki sæmandi. Þetta hefur að vísu komið fyrir, að ég held, nokkrum sinnum áður og verið harðlega gagnrýnt en ekki verið tillit til þess tekið. En hver veit nema núv. hæstv. félmrh. sé öðruvísi þenkjandi en aðrir þeir sem á undan honum hafa verið eftir að lögin tóku gildi. Nú eru þau tiltölulega ný að ég best man. (Gripið fram í.) Já. En ég vil gjarnan og raunar óska þess eindregið að hæstv. félmrh. segi okkur, þeim fáu hræðum sem hér eru enn, sitt álit á þessari meðferð mála og ég ítreka kröfu mína um það til forseta að þessum fundi verði ekki fram haldið.