17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6215 í B-deild Alþingistíðinda. (5629)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. greindi svo frá áðan, að ég skildi, að samkomulag væri milli þingflokka um að ljúka þingi n. k. laugardag. Ég kannast ekki við að hafa staðið að slíku samkomulagi í þingflokki Alþfl., samkomulagi um að ljúka þingi n. k. laugardag. Hitt skal fram tekið, og ætti raunar öllum að vera ljóst, að þingflokkur Alþfl. hefur nú sem fyrr leitast við að sýna tillitssemi, lipurð og góðvild í þingstörfum til að létta undir með hæstv. ríkisstj. í þeim mörgu tilfellum sem þess hefur þurft með til að koma málum hér áfram. En það ber ekki að líta á það sem samþykki þingflokks Alþfl. við því að ljúka þingi n. k. laugardag. Formaður þingflokksins, hv. þm. Eiður Guðnason, og formaður flokksins, hv. þm. Kjartan Jóhannsson, hafa báðir ítrekað það oftar en einu sinni að Alþfl. líti svo á að þing eigi að sitja þann tíma sem það telur sig þurfa til að ljúka málum með eðlilegum hætti. Það kallast ekki, að mati þingflokks Alþfl., að afgreiða má1 með eðlilegum hætti, sem hér liggja fyrir til afgreiðslu, að slíta þingi á n. k. laugardag. Ég kannast ekki við þetta, hæstv. forsrh.

Það má vel vera að hæstv. forsrh. hafi „boðið upp á það“, eins og hann orðaði það, að hafa mánudaginn upp á að hlaupa. Það er naumast að það þarf að hraða þingslitum. Það getur hlaupið á einum starfssólarhring. Svo sagði hæstv. forsrh. að hann hefði haldið þrjá til fjóra fundi með formönnum þingflokka og dreg ég ekki í efa að það sé rétt, en mér vitanlega, og tek ég þá undir það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. varaforseti deildarinnar, sagði hér áðan, hefur ekki komið frá hæstv. ríkisstj., eins og kannske oftast áður, ákveðinn listi með þeim málum sem hæstv. ríkisstj. teldi að þyrfti að afgreiða áður en þingi lýkur. Sá listi hefur ekki enn, það ég best veit a. m. k., verið birtur þingflokki Alþfl. endanlega. Menn fengu á sínum tíma lista með nokkrum tugum, kannske allt upp í hundrað málum, en auðvitað var það ekkert endanlegt.

Svo segir hæstv. forsrh.: Auðvitað tekst ekki að ljúka þingi á laugardag ef þm. setja hér á langar tölur og virða ekki samkomulag. Það er alger óhæfa, hæstv. forsrh., að tala með þessum hætti. Það er auðvitað lágmarkskrafa óbreyttra þm., ég tala nú ekki um þeirra sem lítt eða ekkert hafa fylgst með því máli sem hér er nú á dagskrá og til umr., að þeir fái tíma til að ræða málið með eðlilegum hætti, burtséð frá þeim skoðunum sem þeir á því hafa, það er allt annað mál. Meira að segja ég, sem a. m. k. hef fengið að fylgjast nokkuð með málinu þó að ég sé ekki samstíga þeim sem vilja keyra málið hér áfram, síður en svo, tel mig þurfa tíma, og ætla að taka mér tíma, til að ræða þetta mál.

Það er auðvitað enginn vandi, eins og hv. þm. Ólafur G. Einarsson sagði hér áðan, að ljúka öllum störfum þingsins á morgun ef menn fá ekkert að tala og þingið á að vera afgreiðslustofnun fyrir hæstv. ríkisstj. (ÓE: Ég sagði það ekki, þm. góður.) Hv. þm. sagði að það væri enginn vandi og óskaði eftir samkomulagi um að ljúka nú þessari umr. Umr. sjálf er búin að standa í rúma tvo klukkutíma um þetta stórmál sem þeir sem að því standa telja það vera. Hann bætti svo við: menn taki sér hóflegan tíma við 3. umr. svo henni geti lokið innan tiltölulega stutts tíma. — Ég tel það gersamlega útilokað og nánast óhæfu að ætlast til þess af þm. að þeir nánast þegi í máli sem þessu, gersamlega útilokað og ástæðulaust. Kannske þeir, sem að þessu máli standa hér, hafi gert ráð fyrir því að málið færi fljótlega í gegnum umr. af því að þeir sem hvað mest hafa nú talað hér í þinginu undanfarna fundi hafa ekki látið í sér heyra. Kannske það hafi verið ástæðan fyrir því að menn töldu að málið gengi fljótt hér í gegnum umr.hv. þm. Svavar Gestsson, sem hvað mest hefur látið í sér heyra undanfarin kvöld, hefur ekki opnað munn í þessu máli í kvöld og meira segja láta þeir sem mest keyra á þetta mál og kvöldfundi og næturfundi ekki sjá sig innan þingdeildarinnar.

Menn skulu ekki reikna með því að þetta mál verði keyrt hér í gegn svo til umræðulaust, enda víðs fjarri að nokkur ástæða sé til þess. Ég tek undir með hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, og erum við þó ekki oft sammála, að ég held að menn séu fastir í gamalli hefð og telji sig nauðbeygða til þess að verða að komast heim fyrir sauðburð. (Iðnrh.: Þær eru löngu byrjaðar.) Það var ekkert sagt um að hann væri ekki byrjaður. Þeir telja sig þurfa að komast heim fyrir sauðburð, hæstv. iðnrh., það er allt annað mál að þeim hefur ekki tekist það enn.

Ég held að menn verði að krefjast þess af Alþingi, að minnsta kosti krefst almenningur í landinu þess, að það taki sér tíma til að ljúka með skikkanlegum hætti afgreiðslu þeirra mála sem hér liggja fyrir. Nógu langt hygg ég að almenningur telji sumarfrí alþm. þó að menn séu ekki næstum því upp á klukkutíma að fastsetja þann dag sem þingið á að sendast heim vegna annarlegra ástæðna að mínu viti. Því hefur ekki verið mótmælt hér af neinum, sem ég sagði áðan, að hin raunverulega ástæða er sú hversu margir hæstv. ráðh. þurfa að bregða sér bæjarleið í næstu viku. En það eru ekki gild rök og engar ástæður fyrir því að senda Alþingi heim, nema þá því aðeins að því hafi tekist að ljúka störfum með skikkanlegum hætti.

Enn ítreka ég þá ósk og raunar áskorun til hæstv. forseta að hann virði nú okkur vesalingana hina, sem ekki höfum spjótin á honum daglega og keyrum hann áfram, að hann virði okkar ósk og beiðni að þessu sinni og láti þá þremenninga sem hann upplýsti að hann hefði nánast á bakinu til þess að knýja þetta mál og keyra hér í gegn . . . (Gripið fram í: Hverjir voru það?) Það var upplýst áðan, hv. þm., og hefði þm. verið inni, sem hann ekki var og hefur ekki verið í kvöld, hefði hann heyrt það, en það er sjálfsagt að endurtaka það fyrir hv. þm. af því hann er farinn að geispa. Hæstv. forseti upplýsti það hér áðan að þingflokksformenn a. m. k. þriggja flokka hér á Alþingi ... (Gripið fram í.) Ég var ekki að segja það, hv. þm., og sem betur fer kannske í þessu tilfelli. Nógu er nú málið slæmt þó ekki bættist það við. Það voru þingflokksformenn Sjálfstfl., Alþb. og Framsfl. Væntanlega mótmælir hv. þm. Svavar Gestsson því, sé það ekki rétt. Ég met það svo að hv. þm. hafi ekkert lastað það þó að þessi krafa hafi verið gerð til forseta, en vonandi met ég þetta rangt og þá óska ég þess að hv. þm. Svavar Gestsson komi hingað upp og skýri frá því að hann leggi enga áherslu á að þetta mál verði afgreitt á þessu stigi. — En það eru þessir aðilar, hv. þm., sem forseti upplýsti að keyrðu á þetta mál með þessum hætti þannig að það er upplýst.

Enn óska ég eftir því að hæstv. félmrh. þegi ekki þunnu hljóði þriðja skiptið sem hann er um það beðinn að láta álit sitt í ljós um hvort honum finnist þessi vinnubrögð gagnvart starfsfólkinu, sleppum þm., gagnvart starfsfólki þingsins eðlileg miðað við lögin um lágmarkshvíldartíma. Nú er hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambandsins, sem átti stóran hlut að setningu þessarar löggjafar, kominn í salinn og vonandi væri að hann fengist þá upp úr stólnum til að segja sitt álit. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann mundi ekki vilja fresta ræðu sinni þar til forseti kallar saman fund að nýju eftir að hafa frestað honum um stund til að ræða þessi mál.) Að sjálfsögðu skal ég verða við því, hæstv. forseti. (Forseti: Forseti hefur ákveðið að fresta þessum fundi um stund þannig að mönnum gefist tækifæri til að ræða þessi mál.) (Iðnrh.: Leyfðu honum að ljúka ræðu sinni. Hann er alveg að verða búinn.)

Hæstv. forseti. Ég skal ljúka þessu með því að ítreka enn að ég óska eftir áliti hæstv. félmrh. á þeim vinnubrögðum sem hér er beitt gagnvart starfsfólkinu. (Iðnrh.: Hann er alveg samþykkur þeim.) Hafi hæstv. iðnrh. umboð hans í þessu efni sem og kannske fleirum ... (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort hann vildi ekki fresta ræðu sinni þar til að loknum frestinum.) (Iðnrh.: Hann er búinn. Hvers slags er þetta?) Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort ræðumanni sem hefur nú orðið sé ekki heimilt að svara frammíköllum hæstv. ráðh. Það væri lágmarkskurteisi við ræðumann að fá að svara frammíköllum hæstv. iðnrh. og fyrrv. hæstv. forseta Nd. (Iðnrh.: Þetta er rétt.) En ég heyri að hæstv. félmrh. er búinn að biðja um orðið, þannig að það hefur tekist að fá hann hingað upp.