18.05.1984
Neðri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6249 í B-deild Alþingistíðinda. (5695)

136. mál, hafnalög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. 5. þm. Austurl., Hjörleifi Guttormssyni, að ég teldi mjög æskilegt að þessi brtt., eða efnislega það sem í henni felst, kæmi inn í þessa löggjöf.

Auðvitað er rétt að það er mjög knýjandi að þetta mál nái fram að ganga nú. Mér er óskiljanlegt hvaða rök liggja að baki því hjá þeim hv. þdm. í Ed. sem ætla sér að stöðva málið á því að þetta ákvæði, sem var upphaflega í frv. sem stjfrv., nái fram að ganga. Það væri fróðlegt a. m. k. að fá að vita hverra fulltrúar það eru í hv. Ed. sem vilja stöðva málið á þessu og hvaða rök eru að baki því. (HBl: Er ekki rétt að beygja sig fyrir því?) Nei, hv. skrifari. Það er ekki rétt að beygja sig fyrir ranglætinu. Þetta er réttlætismál, að mínu viti, og þó að hv. skrifari, þm. Halldór Blöndal, beygi sig í duftið fyrir ýmsu síðustu dagana er ekki æskilegt að það sé ert í þessu tilfelli.

Ég heyrði ekki annað en hæstv. samgrh. tæki undir þessa till., enda frv. flutt þannig úr garði gert af hans hálfu, og hæstv. félmrh. hefur einnig tekið mjög jákvætt undir það sjónarmið. Mér er því alveg óskiljanlegt hvaða fyrirstaða er í hv. Ed., en þar er hótað með því að málið verði stöðvað þar verði þessi breyting hér gerð. Ég óska eftir því við hv. formann samgn. Nd., geti hann gefið um það upplýsingar, að hann upplýsi hverra fulltrúar það eru í hv. Ed. sem ætla sér að beita neitunarvaldi, stöðvunarvaldi, til að koma í veg fyrir að þessi breyting nái fram að ganga og hver rökin eru fyrir því.