18.05.1984
Neðri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6277 í B-deild Alþingistíðinda. (5719)

155. mál, kosningar til Alþingis

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Bara nokkur orð. Mér er alveg ljóst að það er út af fyrir sig sama hvað er hér sagt, þetta mál fer fram. Menn eru lokaðir fyrir rökum á þessum stað. En vegna þess að það sem hér er sagt verður prentað vil ég aðeins segja það að ég skil á allt annan veg þá yfirlýsingu sem hæstv. forsrh. las áðan en hann gerir og vil að það komi fram í þingtíðindum. Ég vil taka það fram að þetta er greinargerð með frv. sem formenn flokkanna flytja. Sé sagt að þingflokkar Alþb., Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl., sem að frv. þessu standa, hafi auk þess orðið ásáttir um eftirfarandi o. s. frv. þýðir það í mínum huga að foringjarnir hafa flokkana á bak við sig í þessu máli. Þetta er þeirra grg. og þetta er þeirra yfirlýsing, sem þeir bera ábyrgð á og eiga að standa við allir hvort sem þeir eru nú í stjórn eða stjórnarandstöðu.