19.05.1984
Neðri deild: 100. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6342 í B-deild Alþingistíðinda. (5839)

304. mál, selveiðar

Frsm. meiri hl. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir nál. um frv. til l. um selveiðar við Ísland. Það hefur komið fram í ræðu hæstv. sjútvrh. þegar hann talaði hér fyrir þessu frv. að um selveiðar væru í reynd engin lög og nauðsynlegt hefði verið talið að setja löggjöf um setveiðar. Frv. þetta var undirbúið af nefnd sem skipuð var í ágúst árið 1982 og er í megindráttum samhljóða tillögum þeirrar nefndar nema hvað varðar 3. gr. frv. Þar var gert ráð fyrir að ráðh. skipaði 5 manna nefnd til tveggja ára í senn sem leitað yrði tillagna hjá um reglur um það er selveiðar varðar. Í því frv. sem nú liggur fyrir er þetta þannig orðað í 3. gr.:

Sjútvrn. skal hafa samráð við eftirtalda aðila um stjórn og skipulagningu selveiða eftir því sem við á hverju sinni: Náttúruverndarráð, Hafrannsóknastofnun, Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands.“

Ég held að ég geti fullyrt að þetta atriði varð til þess að sjútvn. stendur ekki einhuga að afgreiðslu þessa máls. Hv. þm. Guðmundur Einarsson skrifaði ekki undir nál. en allir aðrir nm. kusu að 3. gr. frv. héldist óbreytt. Ég sé ástæðu til að vekja sérstaklega athygli á því sem segir í 2. gr. frv.:

„Hafrannsóknastofnunin annast rannsóknir á selum við Ísland. Feli sjútvrn. tilteknum aðilum utan Hafrannsóknastofnunar ákveðnar rannsóknir á selum skal Hafrannsóknastofnuninni ávallt gert kleift að fylgjast með gangi og niðurstöðum þeirra rannsókna.“

Umsagnir um þetta frv. bárust okkur eins og eðlilegt var frá Náttúruverndarráði. Náttúruverndarráð segist fagna því frv. til laga um selveiðar við Ísland sem hér liggi fyrir og fagnar því að það skuli nú loks vera lagt hér fram. Á öðrum stað segir í þessari umsögn:

„Náttúruverndarþing tetur því aðkallandi að hraðað verði setningu laga um selveiðar hér við land. Varðandi frv. það, sem lagt hefur verið fram á Alþingi, leggur þingið eindregið til að 3. gr. frv. verði breytt.“

Þeir leggja sem sé til að 3. gr. hljóði þannig:

„Til aðstoðar sjútvrn. um stjórnun og skipulagningu selveiða skipi ráðh. nefnd til tveggja ára í senn og skal hún skipuð 5 mönnum.“

Segja má að þetta sé kannske einn meginþátturinn í þeim ágreiningsatriðum sem valda því, eins og ég sagði áðan, að nefndin varð ekki alveg sammála í þessu máli. En í niðurlagsorðum þessara aðila segir:

„Náttúruverndarráð leggur eindregið til að 3. gr. frv. verði færð í fyrra horf og er þá samþykkt frv., en nái sú breyting ekki fram að ganga tetur ráðið að endurskoða verði ýmsar greinar þess, t. d. 6. og 8. gr.

Búnaðarfélag Íslands segir um þetta mál:

„Með því að málefni er varða selveiðar hafa verið undir stjórn landbrn. og athugasemdir hafa ekki verið við það gerðar þá getur stjórn Búnaðarfélags Íslands ekki fallist á þá breytingu sem 1. gr. frv. fjallar um. Þá er það álit stjórnarinnar að heppilegra sé að til staðar sé ráðgefandi nefnd sem fjalli um mál er varða selveiðar, svo sem lagt er til í 3. gr. frv. þess er hin stjórnskipaða nefnd samdi.“

Með þessari umsögn fylgdi einnig ljósrit af bréfi frá Árna Péturssyni sem starfaði í þessari nefnd fyrir Búnaðarfélagið. Niðurlag þessa bréfs er þannig:

Nm. voru allir sammála um að þörf gæti verið á opinberri íhlutun varðandi stjórnun selveiða við Ísland, en slíkt ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum. Að öðru leyti er í frv. hvergi gengið á rétt bænda og landeigenda varðandi selveiðar umfram það sem er að finna í lögum.“

Við fengum fleiri umsagnir, t. d. frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sem er því samþykk að frv. nái fram að ganga. Félag Sambandsfiskframleiðenda segir í umsögn sinni:

„Þar sem ekkert er í frv. þessu sem þarf að hafa bein áhrif á að draga úr þeirri viðleitni sjáum við enga ástæðu til þess að hafa uppi andmæli gegn því.“

Fiskifélag Íslands segir m. a. í umsögn sinni: „Stjórn Fiskifélags Íslands er einróma samþykk frv. þessu og hvetur til þess að það fái framgang sem allra fyrst.“

Ég hef hér aðeins stiklað á stóru en á borðum þm. eru ljósrit af þessum umsögnum sem eru prentuð á þskj. sem hv. þm. Guðmundur Einarsson hefur lagt fram og menn geta glöggvað sig þar betur á.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta mál að sinni. Það var ítarlega rætt við 1. umr. málsins og ég held að öllum sé ljóst að hér er um viðkvæmt vandamál að fást, vandamál sem ekki er hægt að hlaupast frá að afgreiða nú á þessu þingi. Meiri hl. sjútvn. leggur því til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það liggur hér fyrir. Undir þetta nál. skrifa Stefán Guðmundsson, Garðar Sigurðsson, Halldór Blöndal, Gunnar G. Schram, Ingvar Gíslason og Friðrik Sophusson.