19.05.1984
Neðri deild: 100. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6346 í B-deild Alþingistíðinda. (5850)

Um þingsköp

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. samgn. Nd. var að fá þrjú stórmál áðan til meðferðar sem óskað var eftir að reynt yrði að koma áfram. Þess vegna væri æskilegt að fyrir lægi nú hvernig fundum verður háttað áfram og hvaða tíma nefndin hefur til umráða til að fjalla um svona mál. Ég hef t. d. boðað fund á morgun og aftur á mánudagsmorgun, en það liggur ekkert fyrir um hvort fundur verður í þingdeildum á mánudagsmorgni fyrir hádegi. Til þess að vita það, þar sem maður þarf að kalla í menn utan úr bæ í sambandi við þessi frv., vil ég vita um það nú hvenær eða hvort hægt er að frétta hvernig fundum verður háttað.

Í nótt þegar ég fór út úr þinginu var mér sagt að fundur yrði í Sþ. kl. 2 og ég var ekki látinn vita um þann fund sem var hér kl. 10 í morgun. Samgn. kom saman áðan og það voru tveir aðrir í þeirri nefnd sem vissu ekki um fundinn kl. 10 í morgun. Ég vil að það komist til skila hvers vegna ég var ekki hér mættur. En þm. verða náttúrlega að fá að vita það helst áður en fundurinn er búinn hvenær fundur á að hefjast næst.