19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6368 í B-deild Alþingistíðinda. (5878)

91. mál, fiskeldi og rannsóknir á klaki sjávar- og vatnadýra

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Það er aðeins um formið. Hvað eru þáltill. og hvers konar afgreiðslu fá þær? Það eru yfirleitt ekki nema eins og þrjár aðferðir við að afgreiða þáltill. Í fyrsta lagi að afgreiða þær með því að samþykkja þær eða synja þeim. Ef hvorugt þetta er gert er algengasta aðferðin að leyfa þeim að liggja í n. og sú sem eftir er er að vísa þeim til ríkisstj. Það er ekki jákvæð afgreiðsla máls, það er afar svipað og að láta till. liggja kyrra, og ég undrast ef flutningsmenn eru ánægðir með þá afgreiðslu. Við sitjum hér 60 í þessari stofnun, hinu háa Alþingi, og þessir 60 skiptast í 50+10 eins og stendur þar sem um er að ræða 50 venjulega alþm. og 10 ráðherra. Og hverjir eiga svo að flytja frv. til laga? Ég hélt að allur þingheimur ætti að gera það og semja slík frv. Þróunin hefur orðið sú, a. m. k. um alllangt skeið, að þm. taka sig minna og minna fram um að semja frv. sjálfir, heldur láta ríkisstj. um og bæði virðist það vera í þessari ríkisstj. og undanförnum ríkisstjórnum að mikið vald er fært ríkisstj. og hinir 50 hafa verið eins og til þess að koma málum í gegn með því að lyfta upp hendinni öðru hverju. Frumkvæði þingsins verður sífellt minna. Ég tel að þetta sé slæm þróun. Ég tel að t. d. í þessu tilfelli séu menn bæði fróðir og fúsir til að berjast fyrir einhverju málefni af þessu tagi, en þá eiga þeir kannske ekki fyrst og fremst að fara að ala fisk, heldur að snúa sér að því sjálfir að setja saman lagafrv. í sínum áhugamálum. Ég efast ekki um að áhugi a. m. k. eins flm. er mikill í þessum efnum. Í stað þess er samin þáltill. þar-sem Alþingi ályktar að fela ríkisstj. eða skora á ríkisstj. að gera þetta og hitt. Ég segi fyrir mig að ég hef ekki það traust á ríkisstj. sem hér situr að ég vilji flytja þáltill. þar sem ríkisstj. er síðan falin framkvæmdin. Aðrir hafa greinilega mikið og lifandi og vakandi traust á ríkisstj. (Gripið fram í: Þær koma nú og fara.) Já, en þær fara sumar ekki nógu fljótt.

Ég verð að segja það að ég hef heldur ekki trú á Rannsóknaráði ríkisins. Ég hef slæma reynslu af því fyrirtæki, ég verð að segja það. Þaðan hafa verið teknir menn til að ráðleggja ríkisstj. hvar eigi að setja niður hin og þessi fyrirtæki með mjög slæmri reynslu. Ég ætla ekki að fara að rekja hvað t. d. staðarvalsnefnd hefur gert hér á undanförnum árum o. s. frv. Það er búið mál því miður, og um það mætti margt segja.

1. flm. till., hv. 5. þm. Austurl., sagði í sinni stuttu tölu að hann legði þann skilning í þessa till. að hún ætti jöfnum höndum við eldi sjávar- og vatnadýra. Þarna greinir okkur á og það er kjarni málsins. Í grg. með till. er talað um það og það er beinlínis fullyrt á bls. 2 á þskj. 100 að mestu framtíðarmöguleikarnir fyrir þjóðarbúið í fiskeldi gætu verið fólgnir í eldi sjávarfiska. Þetta er mikil og merkileg fullyrðing. Á því er þessi till. byggð að hluta til. Þetta er útskýringin við þá till. sem verið er að leggja fram. Menn hafa reynt þetta í Skotlandi, Bretlandi, Danmörku og Noregi, svo ég telji upp nokkur lönd á Vesturlöndum. Og í Noregi hefur þeim tekist að framleiða þorsk við „Austurvöll“ í Noregi. Við stöndum líka við „Austurvöll í Noregi“ þar sem fiskeldi er rætt en ekki framkvæmt. Þorskeldi við „Austurvöll“ í Noregi byggist á norska jólamarkaðinum fyrir þorsk. Þar er söluverð á hvert kíló að meðaltali 110 krónur. Þessi tala er miðuð við nokkuð aldrað gengi, en sem betur fer hefur það nú ekki hreyfst eins hratt og stundum fyrr þannig að skekkjan er varla marktæk, en væri hún það yrði kílóverðið enn hærra. Hvert er fiskverðið hér á landi? 15 kr. Ef við færum út í slíkt eldi fengjum við 15 kr. fyrir kílóið, kannske 20 í besta falli, en yrðum að borga kannske 80 kr. fyrir kílóið. Það er ekki nóg að hafa einhverja slíka vinnslu í gangi ef söluverðið er 20 og kostnaðarverðið 80. Það er ekki skynsamlegur atvinnuvegur að mínum dómi. Þó er þetta líklega dýrasta tegundin sem hægt er að ala með einhverju skynsamlegu og þokkalegu lagi hér af þessum fisktegundum yfirleitt.

En hér er einnig talað um að afla ungfisks úr sjó. Það er bara ekki hægt vegna þess að fiskur drepst mjög fljótt jafnvel þó hann sé geymdur í einhverjum körum nema þá með miklum og dýrum erfiðismunum. Hér er t. d. fisktegundin ufsi nefndur. Kannast menn ekki við ufsa? Það er fiskur sem við Íslendingar veiðum mikið af, stundum með litlum tilkostnaði. En þó tilkostnaðurinn við ufsaveiðar geti stundum verið afar lítill er sjaldan hagur af því að veiða hann vegna þess að hann selst við svo lágu verði. Ætli 1. flokks ufsi af stærstu gerð við bestu skilyrði og á réttum árstíma sé ekki um 8 kr. kílóið? En það kostar 80 kr. að framleiða hvert kíló með eldi. Menn verða að horfast í augu við þetta. Þetta tel ég ekki skynsamlegt. Þess vegna get ég ekki mælt með því. Ég er ekki á móti þessu vegna þess að ég vilji endilega vera á móti hlutunum. Ég er kannske sá maður úr Alþb. sem minnst leggur sig fram um að vera á móti öllum sköpuðum hlutum af hvaða ástæðum sem er. Ég hef gert mér það að skyldu að taka afstöðu til mála eftir því hvort mér finnst þau skynsamleg eða ekki, hverjum sem líkar betur eða verr.

Um þetta mætti auðvitað margt segja, en ég ræddi um það við hæstv. forseta að eyða ekki löngum tíma og mun ekki gera það. En í þessu máli, málsmeðferðinni, aðferðinni, er um prinsipatriði að ræða. Hugmyndin að baki þessari þáltill. er að hluta til mjög góð þar sem við eigum von á arðbærri starfsemi, en að sama skapi vond þegar litið er til hins gífurlega taps sem hlyti óhjákvæmilega að verða af eldi sjávardýra.