19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6377 í B-deild Alþingistíðinda. (5896)

106. mál, landnýtingaráætlun

Frsm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Allshn. Sþ. hefur haft til umfjöllunar till. til þál. um landnýtingaráætlun. N. hefur fjallað um málið og farið yfir eldri umsagnir. Þetta mál hefur fyrr legið fyrir Alþingi. Einnig hefur n. fengið nú umsögn fjárlaga- og hagsýslustofnunar um þetta mál. Ljóst er að hér er um þarft og nauðsynlegt verkefni að ræða en það er einnig ljóst að þetta mun hafa töluvert mikinn kostnað í för með sér. Þá hlið málsins ræddi n. töluvert. Í umsögn fjárlaga- og hagsýslustofnunar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur borist til umsagnar till. til þál. um landnýtingaráætlun. Hér er um áskorun til ríkisstj. að ræða um að hafinn verði undirbúningur á landnýtingaráætlun og skuli drög liggja fyrir í árslok 1985. Á þessu stigi er útilokað að setja fram kostnaðarumsögn en það er hlutverk fjárlaga- og hagsýslustofnunar varðandi lagafrv. Vísast því hér til síðustu setningar í þáttill. um að áhersla verði lögð á hagkvæmni og að nákvæmt kostnaðarmat verði gert þegar áætlun ásamt nauðsynlegum upplýsingum liggur fyrir.“

Í ljósi þess að hér er um kostnaðarsamt verkefni að ræða lagði n. til breytingu á þeirri till. til þál. sem kemur fram á þskj. 128. Brtt. n. hljóðar svo:

„Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast nú þegar til um að undirbúningi og vinnu við landnýtingaráætlun verði hraðað. Við gerð slíkrar áætlunar verði lögð áhersla á sem hagkvæmasta nýtingu og varðveislu landgæða.

Gerð verði kostnaðaráætlun um landnýtingarskipulag sem taki til allra meginþátta landnýtingar. Áætlunin verði lögð fyrir Alþingi og á grundvelli hennar verði tekin ákvörðun um framkvæmdahraða.“

Allshn. Sþ. mælir með samþykkt till. með þeirri brtt. sem ég hef hér lýst.