21.05.1984
Neðri deild: 101. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6438 í B-deild Alþingistíðinda. (5969)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. nefndarformanni fyrir hans svör. Þau sýna svo að ekki verður um villst að öll þau mál, sem til þess gætu leitt að leiðrétta stöðu launafólks, eru ekki á forgangslista núv. hæstv. ríkisstj. til afgreiðslu. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvort hann uni slíkri meðferð að á mál af því tagi, sem hér um ræðir og vissulega er réttindamál og til leiðréttinga og hann lagði mikla áherslu á þegar hann mælti fyrir því hér 28. mars, sé lagst og að afgreiðslu þess verði ekki lokið á þessu þingi. Ég tel að ef það er meining þeirra hv. stjórnarliða sem ferðinni ráða t. d. í hv. félmn. eins og fyrrv. framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands þá gefi það vísbendingu um það hvað er að gerast að því er varðar hæstv. ríkisstj. og þá sem ráða ferðinni þar gagnvart launafólki til viðbótar því sem fram hefur komið af hálfu hæstv. ríkisstj. gagnvart launafólki á undanförnum mánuðum.