10.11.1983
Sameinað þing: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

Umræða utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Þó að freistandi væri að ræða um allmikið af því sem fram hefur komið í þessari umr. skal ég ekki vera langorður, tel raunar að það sem við hér ræðum nú sé þess eðlis að það þurfi frekar eða kannske miklu frekar á öðru að halda en karpi og deilum manna á meðal hér í þinginu.

Hér erum við að ræða um þá spurningu hvort mannlíf verður á Íslandi á næstu árum eða ekki. Ég a.m.k. get ekki hugsað þá hugsun til enda, hvað upp úr því kann að koma ef ekki verður hægt að veiða nema 200 þús. tn. af þorski á næsta ári. Við erum hér að ræða grundvöllinn að öllu mannlífi á Íslandi. Við erum hér að ræða um fjöregg þjóðarinnar í náinni framtíð. Ég hygg að það yrði Alþingi hvorki til sóma né aukinnar virðingar meðal almennings í landinu ef menn stæðu á þessum tímamótum þráttandi um hvað hefði verið gert á liðnum tíma. Í mínum huga er það númer eitt að menn taki af fullum heilindum þátt í því að bjarga því sem bjargað verður úr því sem komið er.

Menn hafa hér spurt: Á að fara eftir tillögum fiskifræðinga? Nú hygg ég að þm. öllum sé ljóst að ég er enginn ofsatrúarmaður á vísindi eða fræðinga, alls ekki. Ég hygg raunar að reynslan hafi sýnt að ýmsar gloppur séu í vísindunum, bæði þessum sem og öðrum. En auðvitað verður að hafa hliðsjón af því sem vísindamenn, í þessu tilfelli fiskifræðingar, leggja á borð fyrir menn. Í þessu máli eru örugglega ýmsir óvissuþættir sem ekki verða fyrir séðir og frávik frá því sem við nú höfum frá fiskifræðinganna hendi.

Ég hef ekki heyrt í þessari umr. hvað menn telja að verði ef á árinu 1984 verður ekki leyft að veiða nema 200 þús. tn. af þorski. Menn hafa séð fyrir sér ástandið í þjóðfélaginu í ár með talsvert miklu meira aflamagn veiðanlegt en nú er útlit fyrir að leyft verði. Ef það verður svo, að staðnæmst verður við 200 þús. tn. veiði af þorski á árinu 1984 sé ég ekki betur en Íslendingar séu að sigla inn í einhverja mestu kreppu undangenginna áratuga og nokkuð margra. Og það er vissulega ástæða til þess, ekki síst fyrir þm., að leggja til hliðar alla áráttu til að kenna hinum eða þessum um það sem liðið er þegar menn standa frammi fyrir svo hrikalegu vandamáli sem hér er um að ræða, fari fram sem horfir. Við breytum ekki því sem liðið er, en við getum hugsanlega, ef menn á annað borð vilja það af heilindum, haft áhrif á það til hins betra hvernig framtíðin verður í þessu landi.

Ég held að ekki sé ástæða til á þessu stigi máls að halda uppi löngum umr. hér nú og skal ekki verða til þess. En ég vildi gjarnan vita, í ljósi þeirra yfirlýsinga sem hæstv. sjútvrh. gaf hér um að setja á fót samstarfsnefnd til að skoða þetta mál, leiða saman hagsmunaaðila í landinu, sem um þetta kunna að fjalla, hvernig það verður með t.d. stjórnarandstöðuna hér á Alþingi, hvort eða með hvaða hætti hún fær að fylgjast með þróun þessa máls. Ég tel alls ekki nóg að stjórnarandstaðan fái um þetta vitneskju á lokastigi. Ef menn vilja á annað borð a.m.k. reyna að hnýta saman sem mesta samstöðu um þetta mál þarf stjórnarandstaðan a.m.k. að fá að vera inni í myndinni frá upphafi. Mér er ekki kunnugt um hvaða hugmyndir hæstv. ráðh. hefur í þessu, en vildi gjarnan fá um það vitneskju með hvaða hætti stjórnarandstöðunni verður gert kleift að fylgjast með framgangi þessa máls.

Ég verð að segja að mér finnst það alveg með eindæmum hvernig sumir hv. þm. Alþb. tala hér í þessum umr. Það er eins og og mennirnir hafi ekki komið nálægt stjórn þjóðmála á undanförnum árum, vitandi þó að ásamt öðrum hafa þeir haldið um stjórnvölinn undangengin ár. En ég ætla ekki að fara út í þær umr. vegna þess að ég tel að það þjóni ekki tilgangi að rifja slíkt upp ekki á þessu stigi umr. a.m.k. Það kann að gefast og gefst ábyggilega til þess tækifæri síðar að rifja það upp.

Ég get þó ekki stillt mig um að vísa á bug því sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lét í skina að því er varðaði Vestfirðinga í þessu máli. Hann spurði hvort þjóðin hefði efni á að taka tillit til hagsmuna einstakra landshluta í þessum efnum. (ÓÞÞ: Við ræðum það fyrir vestan, Karvel.) Við ræðum það ekki fyrir vestan við Hjörleifur Guttormsson, því hann er sjaldan vestra, nema þá að hv. þm. Ólafur Þórðarson ætli að taka upp hans málflutning þar. Þá get ég rætt það við hann fyrir vestan. (ÓÞÞ: Við málsvara hans fyrir vestan.) — En ég vísa því á bug að Vestfirðingar hafi einhver annarleg sjónarmið í þessu máli. Ég minni á að eina stóriðjan sem Vestfirðingar eygja að geti orðið í þeim landshluta er fiskveiðar og fiskvinnsla. Stjórnvöld, hver sem þau eru og á hvaða tíma sem er, verða að taka tillit til slíks þegar verið er að ræða um uppbyggingu og aukin atvinnutækifæri á hinum ýmsu stöðum.

Ég held sem sagt að menn ættu í þessu tilfelli að leggja til hliðar, a.m.k. að sinni, allt karp og deilur um hverjum það kunni að vera að kenna hvernig ástand er nú orðið, en ættu jafnframt að minnast þeirra aðvörunarorða sem Alþfl. hefur látið frá sér fara í nokkuð mörg ár um til hvers kynni að leiða ef haldið yrði á braut þeirrar stefnu í fiskveiðum og stjórn fiskveiða og fiskvinnslu sem því miður hefur verið haldið uppi. Ég er sannfærður um að hefði verið tekið tillit til þeirra varnaðarorða væri málum ekki komið eins og mér sýnist og raunar öllum ber saman um að sé orðið í dag, þ.e. í það horf að við horfum kannske fram á hrun íslensks þjóðfélags á næsta ári eða næstu árum ef myndin verður jafndökk og hún er nú dregin upp af fiskifræðingum. Ég vona svo sannarlega að þeim hafi missýnst í talningunni, eins og einhver hv. þm. orðaði það áðan, þeim hafi mistalist, og það séu í raun og veru miklu fleiri fiskar í sjónum en niðurstöður þeirra benda til að séu eftir því sem málin standa í dag. (HG: Hvað segja aflabrögðin okkur?) Hvað segja þau? Ég hygg að hv. þm. sé það kunnugt, verandi ráðh. á þeim tíma sem þau hafa verið að minnka, þannig að hann ætti ekki að þurfa að spyrja.

En að lokum þetta: Ég ítreka að nú er fyrst og fremst nauðsyn á samstöðu þm., þjóðarinnar allrar, um að vinna sig út úr þeim erfiðleikum sem eru þegar orðnir og kannske eru fyrir dyrum ef ástandið er á þann veg sem því er lýst. Og númer eitt: Við ættum að sýna það, þm., hvar í flokki sem menn eru, að þegar á reynir og mikils þarf við ættum við a.m.k. að geta staðið saman og lagt til hliðar karp og deilur um liðna tíð.