21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6475 í B-deild Alþingistíðinda. (6004)

306. mál, skattskylda innlánsstofnana

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég vil enn vekja athygli virðulegs forseta á því að mér finnst með ólíkindum hvernig mál eru hér tekin fyrir á dagskrá, ekki bara þessa fundar heldur og margra undangenginna funda. Á dagskrá í þessari hv. deild eru tvö mál sem eru búin að vera a. m. k. tvær vikur á dagskrá hvers einasta fundar þessarar hv. deildar og hafa ekki fengið umr., en hérna er hvert málið á fætur öðru, miklu seinna fram komið, tekið til umr., en hin látin bíða. Hér er um að ræða 9. mál á dagskrá þessa fundar, um tekjuskatt og eignarskatt, og 10. málið, sem er um byggingarframkvæmdir við Seðlabanka Íslands. Ég vil því spyrja virðulegan forseta, þó að mér sé vel ljóst að þetta er ekki af völdum núv. hæstv. forseta í forsetastól nema síður væri, það eru aðrir sem ráða þar ferðinni, hvort ekki sé hægt að stilla svo málum til að þessi frv. komi til umr. í deildinni en séu ekki hornreka fund eftir fund, viku eftir viku og önnur mál tekin fram yfir. Ég mótmæli því að fundum sé fram haldið með þessum hætti og krefst þess að þessi mál séu hér ekki látin vera hornreka í fundahaldinu á sama tíma og önnur mál miklu yngri eru hér tekin til umr. og til þeirra ætlaður alldrjúgur tími miðað við þau mál sem ég er hér um að ræða. — Ég sé nú að hæstv. aðalforseti gengur í salinn og líklega er best að beina fremur máli sínu til hans.

Ég var, virðulegi forseti, að gera aths. við það enn einu sinni að mál sem verið hafa á dagskrá Nd. svo vikum skiptir og ekki hafa fengið umr. séu látin sitja á hakanum en önnur miklum mun nýrri mál séu hér tekin til umr. og þau rædd. Ég minntist þar á 9. mál þessa fundar, um tekju- og eignarskatt, og síðan 10. málið, um byggingarframkvæmdir við Seðlabankann. Mér finnst óeðlilegt og raunar ótækt að með þeim hætti sé á málum haldið að mál stjórnarandstöðuþm. séu endalaust látin sitja á hakanum og reka lestina á sama tíma og frv. hæstv. ríkisstj., miklum mun yngri, eru tekin hér til meðferðar og sett á dagskrá til umr., en hin látin bíða. Ég vænti þess því að hæstv. forseti sjái ástæðu til að breyta nú um og gefa a. m. k. þessum tveimur málum, sem ég hef hér gert að umræðuefni, ég hygg að þau séu fleiri, tíma til umr. hér á eðlilegum fundatíma Nd. (Forseti: Þetta skal verða tekið til athugunar.)