21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6509 í B-deild Alþingistíðinda. (6023)

101. mál, frestun byggingaframkvæmda við Seðlabanka Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hún er með endemum, vesalmennskan í þeim meiri hl. sem ræður nú ríkjum á Alþingi. Eftir alla þá mánuði sem hæstv. ráðh. og talsmenn stjórnarliðsins á Alþingi hafa hvatt launafólk, það fólk í landinu sem minnst hefur úr að spila og getur nánast á engum þáttum sparað, til að herða sultaról og spara því að þjóðfélagið hefði hvorki efni á að borga því hærri laun né koma til móts við það á neinum sviðum mæla þeir með aukinni fjárfestingu, ég tala nú ekki um óarðbærri fjárfestingu. Ég held að það sé rétt að rifja upp í tengslum við þetta mál, hvort sem það verður nú í stuttu eða löngu máli, það verður að koma í ljós, hvernig þetta bar að.

Tiltölulega snemma á þessu þingi flutti hv. þm. Guðrún Helgadóttir þáltill. sem var efnislega í svipuðum dúr og það frv. sem hér nú liggur fyrir. Við umr. um það mál kvartaði hæstv. viðskrh. um að þarna dygði ekki þáltill., þarna yrði Alþingi að taka af skarið og til þess að það gæti gerst þyrfti að koma frv. Þetta frv. var flutt tiltölulega fljótt í kjölfar þáltill. og við umr. um þetta mál upplýsti hæstv. viðskrh. það álit sitt að hann teldi að hér væri komið fram alveg ótvírætt og skýrt frv. um það með hvaða hætti væri hægt að taka á þessu máli. Þannig má segja að hæstv. viðskrh. hafi nánast pantað frv. af þessu tagi til þess að hægt væri að taka á málinu með ótvíræðum vilja Alþingis í lagaformi en ekki í þáltill. formi.

Auk þess er rétt að minna á að einn af hv. stjórnarþm. hefur nýlega flutt þáltill. sem líka snýr að þessu máli. Ekki finnast mér líkur á, eins og mál standa nú og horfa, að sú till. fái neina afgreiðslu, enda trúlegast að leyfi fyrir flutningi þeirrar till. hafi fengist í ljósi þess að málið yrði aldrei afgreitt.

Ég held að ekki þurfi að rifja upp fyrir hv. þm. ummæli bæði hæstv. ráðh. og hv. stjórnarliða allra hér á Alþingi þess efnis að nú sé málum þannig komið í íslensku efnahagslífi að þjóðin verði að spara við sig, nú séu þeir tímar að ekki sé um að tala launahækkanir, nú verði að beita niðurskurðaraðferðinni til að stöðva hinar ýmsu framkvæmdir á vegum ríkisins. Annað sé ekki sæmandi þegar slíkt ástand sé ríkjandi í efnahagslífi þjóðarinnar. En á sama tíma og þessu tali er fram haldið treysta hv. stjórnarliðar sér ekki til þess í einu eða neinu formi að draga úr, ég tala nú ekki um að stöðva, byggingarframkvæmdir eins og hér um ræðir við Seðlabankahúsið sem eru auðvitað hneisa í því árferði sem við búum nú við, Íslendingar. Það er hreint hneyksli að byggingarframkvæmdir á borð við þær sem um er að ræða séu látnar halda áfram óhindrað á sama tíma og skorið er við nögl í ýmsum byggingaframkvæmdum á vegum hins opinbera, bæði að því er varðar heilbrigðisþáttinn, samgönguþáttinn og menntunarþáttinn svo eitthvað sé nefnt. Þetta er enn ein sönnun þess að hæstv. ríkisstj. vill ekki snúa sér að þeim aðilum í þjóðfélaginu um sparnað sem í raun og veru ætti að byrja á.

Mér finnst það alveg með eindæmum og nánast algert hneyksli ef þeir hv. þm. stjórnarliðsins hér á Alþingi sem teljast til dreifbýliskjördæmanna, sem niðurskurðurinn og samdrátturinn bitnar fyrst og fremst á, láta hafa sig í það að greiða atkv. með nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. um það að vísa þessu máli til ríkisstj., sem þýðir að það verður ekkert gert. Ríkisstj. þorir ekki að taka á þessu máli. Það er löngu augljóst. Hæstv. ráðh. eru með einum eða öðrum hætti þannig settir í þeirri peningalegu klípu sem ríkissjóður er í að á engan hátt virðist mega stugga við seðlabankavaldinu í landinu né

- öðru bankavaldi, enda er nú svo komið og hefur raunar verið um nokkurt skeið að það er nánast Seðlabankinn sem heldur ríkisstj. fljótandi. Kannske er það ástæðan fyrir því að hæstv. ráðh. virðast hafa bannað stjórnarliðum að taka jákvæða afstöðu til þessa máls, svo sjálfsagt sem það þó er miðað við allar kringumstæður í landinu.

Við umr. um þetta mál fyrr í vetur var ég búinn að gera grein fyrir því að ég teldi eðlilegt að í kjölfar lagasetningar um stöðvun á byggingarframkvæmdum við Seðlabankahúsið kæmi ákvörðun Alþingis um með hvaða hætti ætti að verja þeim fjármunum sem þarna spöruðust. Ætli það hefði ekki verið nægir til þess að taka við því fjármagni? Ætli hæstv. félmrh. hefði ekki þegið að fá eitthvað af því í húsnæðismálin? Ætli hæstv. samgrh. hefði ekki getað þegið það varðandi langtímaáætlun í vegamálum svo að hann þyrfti ekki að beita niðurskurði þar, en fengi sinn hlut til þess að geta staðið við gefin fyrirheit og samþykkta yfirlýsingu Alþingis um fjármögnun til vegaframkvæmda? Svona mætti halda áfram. Ætli hæstv. heilbr.- og trmrh. hefði ekki getað þegið nokkrar milljónir af þessu til að losna við að skera niður og skerða félagslega þjónustu í heilbrigðiskerfinu, eins og þessi ríkisstj. hefur gert? Í alla þessa þætti hefði mátt láta fjármagn, hefðu menn kjark í sér til að taka af skarið og stöðva framkvæmdir Seðlabankans með eðlilegum hætti. En sá kjarkur virðist ekki vera fyrir hendi. Kemur mér það undarlega fyrir sjónir þegar ég virði fyrir mér þá einstaklinga sem sitja í ráðherrastólum nú.

Það hefði mátt segja mér það tvisvar að hæstv. núv. iðnrh. hefði ekki kjark til að taka á þessu máli þrátt fyrir að Seðlabankinn ætti í hlut. En hans kjarkur hefur greinilega dvínað frá því sem hann var stjórnarandstæðingur. Hæstv. heilbr.- og trmrh. sat hér fyrir örskammri stundu en er nú farinn. Ég hefði látið segja mér það tvisvar að hann hefði ekki kjark til þess að skerða hár á höfði seðlabankavaldsins í landinu á sama tíma og hann sker niður miskunnarlaust félagslega þjónustu í heilbrigðiskerfinu til almennings. Hæstv. fjmrh. hefur einnig verið talinn kjarkmaður. Auðvitað er ekki útséð um það enn og um það skal ekkert fullyrt hvort þessir hæstv. ráðh. greiða atkv. með till. um að vísa frv. til þeirra sjálfra, en hugur minn segir mér þó að sú afgreiðsla sem meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til sé í fullu samráði við hæstv. ráðh. Þar með hefur, að mínu viti, minnkað mjög kjarkur hæstv. fjmrh. til þess að takast á við þetta vald.

Svona væri hægt að halda áfram upp að telja þó að ég hafi byrjað á þeim sem ég taldi þó kjarkmesta. Þegar þeir eru frá horfnir er lítil ástæða til að halda áfram niður á við því ekki tel ég að kjarkurinn sé meiri hjá hæstv. ráðh. sem eftir eru, nema hlutföll öll hafi þá snúist við. En þetta lýsir einmitt vesalmennskunni, vægast sagt, hjá hæstv. ráðh., hjá hv. stjórnarliðum hér á Alþingi. Ætli þeir að telja almenningi í landinu trú um að hjá því verði ekki komist að skerða enn frekar launakjör hjá hinum almenna launamanni vegna erfiðrar stöðu þjóðarbúsins á sama tíma og slíkt hneyksli eins og Seðlabankabyggingin blasir við við þær kringumstæður sem eru í landinu, þá trúir enginn launamaður slíku tali.

Það er fullt af stórbyggingum í landinu sem ætti að byrja á að stöðva og taka þá peninga beinlínis með illu ef ekki góðu og ráðstafa þeim til þeirra þátta í uppbyggingunni og hinni félagslegu þjónustu sem á engan hátt er verjandi að skerða. En það er ekki að sjá að hæstv. ráðh. eða stjórnarliðar hér á Alþingi hafi uppburði í sér til að hafa skoðun í þá átt.

Ég ítreka að gengisfall hefur mikið orðið í mínum augum á hæstv. ráðh. Hæstv. ríkisstj. hefur margoft státað af því að halda gengi ísl. krónunnar sem stöðugustu, en á þessu sviði hefur gengisfellingin verið mikil. Kjarkleysi hæstv. ráðh. í þessu máli og hv. stjórnarliða hér á Alþingi sýnir svo ekki verður um villst að þeim er ekki treystandi eða trúandi til þess að taka á málum þegar í hlut eiga þeir aðilar í þjóðfélaginu sem peningunum ráða. Þá lyppast þessir hæstv. ráðh. og hv. þm. niður og leggja blessun sína yfir nánast hvaða hneyksli í þessum málum sem er.

Það er augljóst, þó að atkvgr. hafi ekki farið fram um þetta mál, að hverju stefnir. Úr einhverri átt hefur komið fyrirskipun til þeirra sem hér ráða ferðinni um að stíga ekki þetta skref. Hversu líklega sem hæstv. viðskrh. lét og talaði þegar þetta mál var til umr., svo og þáltill. sem ég vitnaði til hér fyrr, er greinilegt að það er enginn kjarkur, spurning hvort nokkur vilji er, hjá þessum aðilum til að koma til móts við það sjónarmið hjá almenningi að það eigi að byrja á að spara og draga saman þar sem það er hvað líklegast ef ekki fullyrt að mestum árangri sé að ná til þess að hægt sé með einhverjum hætti að hafa stjórn á fjárfestingarmálunum í landinu.

En þetta kjarkleysi hæstv. ráðh. og stjórnarliða hér á Alþingi á ekki bara við Seðlabankann. Nýlega var verið að opna á vegum Landsbankans útibú, enn eitt. Tugum milljóna er á hverju einasta ári varið í uppbyggingu og stofnsetningu nýrra bankaútibúa, sem eru nánast hallir, án þess að hæstv. ráðh. ríkisstj., stjórnvöld í landinu, telji nokkra ástæðu til að grípa í tauma eða halda aftur af þessu peningavaldi í landinu sem er að reisa hér hallir fyrir starfsemina. Það væri fróðlegt að spyrja hæstv. viðskrh., hefði hann verið hér, eða þann hæstv. ráðh. sem gegnir starfi í hans stað hvað líði svari bankavaldsins við bréfi hæstv. ráðh. sem hann boðaði við 1. umr. um þetta mál í haust að hann mundi skrifa, hvað liði svari bankavaldsins við þeirri góðfúslegu beiðni, eins og ég held að hæstv. ráðh. hafi orðið það, að menn gáðu að sér, drægju saman seglin, ykju ekki útþensluna, stæðu á bremsunni. Ég hygg að það sé hæstv. iðnrh. sem gegnir fyrir hæstv. bankamálaráðh. Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann hafi í höndum svar bankanna við tilteknu bréfi frá hæstv. viðskrh., sem hann boðaði í umr. fyrr í vetur, og vil gjarnan fá að heyra upp lesið, sé það til, svar bankanna við beiðni ráðh. Sé það ekki fyrir hendi sýnir það enn frekar vesaldóm og sýndarmennsku hæstv. ríkisstj. í þessu máli.

Það er nánast móðgun við allt launafólk í þessu landi, móðgun frá hæstv. ríkisstj. og stjórnarliðum hér á Alþingi, að taka sér þau orð í munn að þessir aðilar herði sultarólina og spari á sama tíma og hæstv. ríkisstj. stendur fyrir eyðslu eins og hér um ræðir í sambandi við byggingu Seðlabankahússins — ég tala nú ekki um, sé það rétt sem hæstv. forsrh. sagði einhvern tíma í umr. í vetur, ef byggingin er með þeim hætti að hún er öll á floti. Hæstv. forsrh. upplýsti að það væri á engan hátt hægt að hætta við þessa byggingu fyrr en upp væri komin vegna þess að hún væri öll á floti og nánast spurning um það hvenær hún þá flyti burt. Til þess að koma í veg fyrir það virtist engu líkara, í máli hæstv. forsrh., en að það yrði að klára hana svo hún þyngdist, þá væru minni líkur á því að hún flyti burt. Þetta sagði hæstv. ráðh.

Ég fullyrði, þó að ýmislegt hafi verið sagt um stjórnmálamenn á undangengnum árum að afstaða í líkingu við þá afstöðu sem hér er lögð til af meiri hl. fjh.- og viðskn. hefur aldrei verið tekin, jafnlítilmótleg afstaða, vesaldómur í sinni nöktustu mynd, vesaldómur sem er með þeim hætti að a. m. k. almenningur í landinu hlýtur að muna þeim þessa afgreiðslu sem að henni kunna að standa verði hún með þeim hætti sem meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til að verði. Kjarklausir menn eru berir að því að sitja í ráðherrastólum hér á Alþingi — kjarklausir í þeirri merkingu að þeir hafa ekki kjark til þess að snúa sér fyrst og fremst að því verkefni að stíga á bremsu og draga úr fjármagnsaustri til framkvæmda sem fyrst af öllum ættu að bíða miðað við það efnahagsástand sem þjóðin býr við. Slíkt er kjarkleysi núv. hæstv. ráðh. og þeirra hv. stjórnarþingmanna sem láta sér detta í hug að styðja meirihlutaálit fjh.- og viðskn. í þessu máli. Brennimerktir verða þeir sem standa að því að afgreiða mál af þessum toga með þeim hætti sem hér er lagt til af meiri hl. fjh.- og viðskn. Þetta eru stór orð, en við þau skal staðið. Það er a. m. k. í. mínum huga siðlaust að ætlast til þess að almenningur í þessu landi herði sultaról og á kjör hans sé gengið, bæði launakjör, almenn kjör og lýðréttindi, sem hann hefur áunnið sér í landinu. Það er siðlaust að ganga á þau réttindi á sama tíma og stjórnvöld haga sér með þeim hætti í fjárfestingaræði og þau leyfa Seðlabankanum að haga sér í þessari byggingu.