21.05.1984
Neðri deild: 103. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6523 í B-deild Alþingistíðinda. (6058)

252. mál, fjarskipti

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég vil taka það fram að samgn. kallaði póst- og símamálastjóra fyrir sig og spurði allítarlega út í þetta mál og einnig kom skólastjóri Stýrimannaskólans og ýmsir skipstjórar, þ. á m. tveir kennarar úr Stýrimannaskólanum, og þeir lögðu allir áherslu á að afgreiða þetta frv. (GHelg: Það er von, hann samdi það.) Ég var að tala um skipstjórana.

Það kom fram hjá póst- og símamálastjóra að það yrði engin breyting í sambandi við aðrar ríkisstofnanir. Hann vildi halda því fram að þetta frv. kæmi ekkert inn á það svið, það væri engin breyting frá því sem áður hefur verið. Ég vil líka taka það fram út af því sem hv. þm. Guðmundur Einarsson sagði hér áðan að auðvitað eru miklar framfarir í þessum málum, en það þýðir ekki að við verðum ekki að setja löggjöf eins og málin standa í dag, heldur þýðir það það að við verðum að endurskoða þessa löggjöf mjög fljótt vegna þeirra framfara sem eru á þessu sviði. Og þó ég viðurkenni að það er ekki hægt að bjóða nefndum upp á svona vinnubrögð, ég kem kannske að því síðar, þá held ég að það sé réttmætt miðað við allar aðstæður að samþykkja þetta frv.