22.05.1984
Efri deild: 113. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6552 í B-deild Alþingistíðinda. (6115)

67. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. landbn. um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 95 frá 1981, um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum. Mér finnst vert að taka það fram þegar í upphafi að nefndin varð sammála um afgreiðsluna. Allir nm. skrifa undir hana án aths. Til þess að skýra þetta í sem stystu máli ætla ég, virðulegi forseti, að lesa nál.

„Nefndin hefur rætt málið á fundum sínum og fengið umsagnir eftirfarandi aðila um málið: Búnaðarþings, Stéttarsambands bænda, Framleiðsluráðs landbúnaðarins, stjórnar Búnaðarfélags Íslands og Sambands eggjaframleiðenda.

Þessir aðilar leggja til að málið verði tekið til umfjöllunar í sambandi við þá endurskoðun sem nú á sér stað á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins, en Samband veitinga- og gistihúsa, Samband bakarameistara og Neytendasamtökin mæla með samþykkt frv.

Augljóst er að sjónarmið umsagnaraðila eru mjög ólík. Með vísan til þess að nú fer fram heildarendurskoðun á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins og í trausti þess að þar verði leitast við að ná fram breytingum sem samkomulag er um á milli hagsmunaaðila leg ur meiri hl. n. til að frv. verði vísað til ríkisstj.

Ég sé ekki ástæðu til þess, og allra síst þar sem mjög er nú að þrengjast um tíma þessarar virðulegu deildar, að hafa fleiri orð um þetta, forseti.