22.05.1984
Sameinað þing: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6568 í B-deild Alþingistíðinda. (6176)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Lögum samkvæmt hefur Framkvæmdastofnun ríkisins gefið út ársskýrslu sína fyrir árið 1983 og hefur henni verið dreift til þm. skv. venju. Störf Framkvæmdastofnunarinnar voru með svipuðu sniði og á árinu 1983 og áður og kemur það greinilega fram í skýrslunni.

Auk yfirlita yfir almenn störf Framkvæmdastofnunar birtir skýrslan reikninga sjóða þeirra sem í umsjá stofnunarinnar eru, þ. e. Framkvæmdasjóðs Íslands, Byggðasjóðs og Landflutningasjóðs.

Heildarútlán Framkvæmdasjóðs á liðnu ári námu 1116 millj. kr. Þar af lánaði sjóðurinn Fiskveiðasjóði 663 millj., 150 millj. til Iðnlánasjóðs, tæpar 137 millj. til Byggðasjóðs og 103 millj. til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Alls tók 31 aðili lán úr sjóðnum. Auk lánanna veitti sjóðurinn styrki samtals að upphæð rúmar 1.7 millj. kr.

Lánsfjár Framkvæmdasjóðs var að venju aflað með inniendum og erlendum lántökum. Í lánsfjáráætlun 1983 var gert ráð fyrir öflun fjár til opinberra framkvæmda og fjárfestingarlánasjóða með sölu verðbréfa til innlánsstofnana er miðuðust við 7% af innlánsaukningu ársins. Var hlutur Framkvæmdasjóðs 4% af innlánaaukningu viðskiptabankanna sem lánuðu sjóðnum 139.5 millj. kr.

Eins og kveðið er á um í lögum nr. 82/1977 og í samræmi við lánsfjáráætlun skulu lífeyrissjóðirnir verja a. m. k. 40% af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á skuldabréfum af þeim sjóðum sem lögin segja til um. Námu þessi kaup lífeyrissjóðanna alls 863 millj. kr. Þar af keyptu þeir af Framkvæmdasjóði skuldabréf að fjárhæð 145.8 millj. kr., en lánsfjáráætlun gerði þó ráð fyrir að kaupin yrðu 230 millj. þannig að 37% skortir á að fjáröflun þessi stæðist.

Framkvæmdasjóður tók þrjú erlend lán á árinu: 13 millj. vestur-þýskra marka hjá Viðreisnarsjóði Evrópu, 20 millj. dollara hjá Hambros Bank í London og 5 millj. yena hjá Sumitomo Bank í Tokyo.

Hreinar tekjur Framkvæmdasjóðs og Mótvirðissjóðs urðu 79 millj. 629 þús. samanborið við 25 millj. 927 þús. árið 1984, eins og glöggt kemur fram sundurliðað í þeirri ársskýrslu sem ég áður vitnaði til.

Framlag ríkissjóðs til Byggðasjóðs nam 69.8 millj. kr. á s. l. ári, en auk þess aflaði sjóðurinn fjár með lántöku úr Framkvæmdasjóði að fjárhæð 136.6 millj. kr. Úr Byggðasjóði voru samþykkt lán, framlög og styrkir samtals að fjárhæð 202.2 millj. kr. Skipting lánanna var í grófum dráttum þessi: 1. Til sveitarfélaga 58 millj. eða 29%. 2. Til fiskiskipa 44 millj. eða 22%. 3. Til iðnaðar 25 millj. eða 12%. 4. Til fiskvinnslu 19 millj. eða 9%. 5. Til landbúnaðar 16 millj. eða 8%. Önnur lán námu um 50% millj. kr., þar af 10 millj. til bættra hollustuhátta og aðbúnaðar á vinnustöðum, 9 millj. til Hafnabótasjóðs og 5 millj. til Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Úr Landflutningasjóði voru veitt níu lán til átta aðila samtals að fjárhæð 6.6 millj. kr.

Að venju er í ársskýrslu Framkvæmdastofnunar nákvæm sundurliðun á samþykktum lánum og styrkjum, auk ítarlegrar lýsingar á starfsemi áætlunardeildar og byggðadeildar stofnunarinnar, þar sem helstu verkefni eru skilgreind og grein gerð fyrir þátttöku deildanna í norrænu samstarfi.