14.11.1983
Efri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

88. mál, starfsmannaráðningar ríkisins

Flm. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Ég harma það að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera reiðubúinn til þess að styðja þetta frv., en undrast hins vegar að hann skuli ekki koma auga á þá vankanta sem eru á núverandi skipulagi. Það er ekki hægt að koma fram endurnýjun í störfum forstöðumanna ríkisstofnana í dag, þeir eru skipaðir mjög margir, líklega langflestir, ævilangt og verður ekki við þeim hróflað. Ég er mest undrandi á því að jafn ágætur maður og hæstv. fjmrh. sem kemur beint úr atvinnulífinu og er ekkert sérstaklega hrifinn af ríkisstofnunum þar sem stundum ríkir kannske viss doði eða drungi, að hann skuli ekki ganga í lið með mér til að reyna að tryggja að þessar stofnanir séu reknar í samræmi við það sem gildir á hinum almenna vinnumarkaði og að þeir sem eru forstöðumenn fyrir ríkisstofnanir hafi ekki sérréttindi fram yfir forstjóra einkafyrirtækja. Ætlar hæstv. fjmrh. virkilega að fara að verja þetta steinrunna kerfi ríkisins gagnvart alþjóð? Ég trúi því ekki, ég er viss um að þetta byggir á einhverjum misskilningi hjá hæstv. fjmrh. og hann á eftir að skoða hug sinn betur. Ég trúi því heldur ekki að þó að Alþb. hafi tekið upp þessa starfshætti hjá sér, að hafa endurnýjun í störfum helstu forustumanna flokksins sem meginreglu, að það þurfi að aftra hæstv. fjmrh. frá því að styðja þetta frumvarp. Vissulega er hann ekki samherji okkar í stjórnmálum, en hann getur hins vegar verið hlynntur góðum hugmyndum eftir sem áður og ég treysti honum til að endurskoða afstöðu sína í þessum efnum.