15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

392. mál, Þormóður rammi

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Þessi spurning er um ýmislegt nokkuð óvenjuleg.

Í fyrsta lagi heyra málefni Þormóðs ramma undir fjmrn. en ekki forsrn.

Í öðru lagi kannast ég ekki við neinn þrýstihóp sem til mín hafi komið og óskað eftir því að sólundað yrði almannafé.

Í þriðja lagi, eins og reyndar kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, er fyrirtækið ekki á hausnum.

Þó skal ég gjarnan gera grein fyrir því sem í málinu hefur verið unnið. Hins vegar er þó rétt að spyrja hæstv. fjmrh. um það sem hann hann vinnur að nú.

Málið hefur komið fyrir ríkisstj. og þar var ákveðið að leita umsagnar Framkvæmdastofnunar ríkisins. Ég leitaði þeirrar umsagnar af því að Framkvæmdastofnun heyrir undir forsrh. Framkvæmdastofnun kemst að þeirri niðurstöðu, að skuldir fyrirtækisins væru tæpar 253 millj. kr., en þegar dregin er frá veltufjáreign eru skuldir fyrirtækisins taldar vera 172 millj. kr. Stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu, að eignirnar séu meiri en skuldirnar, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda. Hins vegar kemur líka fram, að hlutafé í Þormóði ramma er ákaflega lítið, aðeins tæpar 9 millj. kr., sem er af fjármálastofnunum talið allt of lítið þegar um slíkt fyrirtæki er að ræða. Það er sem sagt ekki nema innan við 4% af heildarskuldum fyrirtækisins.

Framkvæmdastofnun leggur til að þeim skuldum fyrirtækisins sem eru með ríkisábyrgð verði breytt í hlutafé, 65 millj. kr. um það bil. Jafnframt verði leitað til annarra hluthafa um aukningu hlutafjár í Þormóði ramma. samið verði við lánasjóði um lánveitingar vegna þeirra framkvæmda sem þarna hafa verið í gangi og ekki hafa notið fullrar lánafyrirgreiðslu. Og í þriðja lagi verði samið við lánardrottna um breytingu á lausa- og skammtímaskuldum í lengri lán.

Framkvæmdastofnun telur, ef þetta er gert, að Þormóður rammi eigi að geta staðið undir þeim skuldum sem eftir eru.

Þetta mál er nú til meðferðar hjá hæstv. fjmrh., sem hefur haldið fundi, veit ég, með þm. kjördæmisins og með heimamönnum og sömuleiðis með banka- og fjármálastofnunum, en hefur ekki lagt fyrir ríkisstj. till. sínar í þessu efni. Þar hefur því engin ákvörðun verið tekin.

Hins vegar mætti margt fleira um þetta mál segja. Ríkissjóður á 70% hlutafjárins í Þormóði ramma. Ég mæli alls ekki með slíkri hlutafjáreign ríkissjóðs í atvinnufyrirtækjum. Þarna er um undantekningu að ræða. Hún er orðin til vegna þess að þátttaka ríkissjóðs í atvinnulífi á Siglufirði hefur verið mjög mikil, eins og allir vita, í gegnum Síldarverksmiðjur ríkisins. Hygg ég að rekja megi mikla hlutafjáreign ríkissjóðs nokkuð til þess tíma. Þá vakna spurningar um það: Hverjar eru skyldur hluthafa? Hluthöfum í ýmsum fyrirtækjum sem eru í vandræðum hefur verið gert skylt að auka mjög hlutafé sitt í eigin fyrirtækjum. Ég gæti nefnt um það fjölmörg dæmi. Bankamenn tala gjarnan um að hlutafjáreign þurfi að vera a.m.k. 25% af heildarskuldum fyrirtækja. Hér fer því víðs fjarri að svo sé. Gilda þá ekki sömu reglur gagnvart ríkissjóði og öðrum hluthöfum? Er ekki ríkissjóður skyldugur til þess að sjá um að hlutafé í Þormóði ramma sé í eðlilegu hlutfalli við heildarskuldir fyrirtækisins?

Einnig vakna nú þær spurningar, af því að rætt var áðan um heimilin, hvort heimilin á Siglufirði séu ekki hér til umræðu. Væri heimilum á Siglufirði bætt afkoman með því að stöðva Þormóð ramma? Ber ekki ríkissjóði, sem á 70% í stærsta atvinnufyrirtækinu á Siglufirði, að skoða það líka?

Ríkissjóður er stærsti hluthafinn og ber ríka ábyrgð á því að þetta fyrirtæki sé vel rekið. Það hefur margt tekist miður á undanförnum árum. Fyrirtækið hefur verið með nýtt frystihús í byggingu í yfir 11 eða 12 ár og á sama tíma hafa fallið á fyrirtækið ómældir vextir vegna framkvæmdanna, og vissulega standa greiðsluerfiðleikar fyrirtækisins mjög í tengslum við það. Þessi stóri hluthafi, ríkissjóður, hefur satt að segja ekki staðið í stykkinu og ekki séð um að byggja hið nýja frystihús á sem stystum tíma, sem er nauðsynlegt þegar ráðist er í slíkar framkvæmdir.

Ég lít svo á, að ríkissjóður beri að verulegu leyti ábyrgð á því ástandi sem skapast hefur á Siglufirði. Það verður að gera sömu kröfur til ríkissjóðs í þessu sambandi og gerðar eru af hinum ýmsu fjármálastofnunum til hluthafa í fyrirtækjum. Það er á þessum grundvelli sem málið er nú í skoðun hjá fjmrh. Ég efast ekki um að hann gerir skynsamlegar till. til ríkisstj. um lausn þessa máls, þar sem bæði er tekið tillit til ábyrgðar ríkissjóðs og ábyrgðar ríkisins sem hluthafa í þessu stóra fyrirtæki og hvernig forðað verður almennu atvinnuleysi á staðnum og erfiðleikum fyrir heimilin þar, sem ég ber einnig fyrir brjósti.