15.11.1983
Sameinað þing: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

52. mál, vistunarvandi öryrkja

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka flm. þessarar þáltill. fyrir að flytja þetta mál hér inn í þingsali og ég vil taka undir efni þessarar þáltill. og lýsa eindregnum stuðningi mínum við úrbætur í málefnum þessa gjörfatlaða fólks sem hér um ræðir og að þau verði tekin föstum tökum og leyst á viðunandi hátt úr vistunarvandamálum þeirra. Þeir einstaklingar sem hér eiga í hlut, en talað er um 10–15 einstaklinga í þáltill. eru flestir ungt fólk sem lent hefur í umferðarslysum og fatlast mjög mikið líkamlega og oft andlega einnig.

Það vandamál sem hér verður að leysa er að í heilbrigðiskerfinu er hvergi gert ráð fyrir frambúðarvistun þessa fólks. Aðstandendur þessara ungmenna reka sig alls staðar á vegg í kerfinu þegar það hugar að hvar hægt sé að vista þessi fötluðu ungmenni til frambúðar og veita þeim viðunandi aðbúnað eins og frekast er kostur og þá endurhæfingu sem þessir einstaklingar þurfa á að halda. Það eru hreinar píslargöngur sem aðstandendur þessara einstaklinga þurfa flestir hverjir að ganga í gegnum í þessu sambandi. Það er sorgarsaga hvernig foreldrar þessara ungmenna koma oft að lokuðum dyrum í heilbrigðiskerfinu þegar þeir leita frambúðarvistunar fyrir þessa fötluðu einstaklinga.

Það vill svo til að ég hef einmitt á undanförnum vikum haft nokkur afskipti af málum ungrar stúlku sem fatlaðist mjög mikið í umferðarslysi. Ég þekki vel píslargöngu foreldra þessarar stúlku og baráttu þeirra við þetta kerfi sem á ekkert viðunandi vistunarpláss fyrir hana. Foreldrar hennar hafa alls staðar komið að lokuðum dyrum. Við státum okkur af góðu heilbrigðiskerfi í okkar landi, en samt getum við ekki á viðunandi hátt leyst vistunarvandamál þessa fólks eða búið sómasamlega að þeim 10–15 mjög svo fötluðu einstaklingum sem hér um ræðir. Þegar þetta fólk á enga framtíð fyrir sér, er oftast nánast ósjálfbjarga og örkumla er lágmark að okkar heilbrigðiskerfi geti tekið á móti því og gert því lífið eins bærilegt og kostur er. Nóg er samt lagt á það og aðstandendur þess. Þegar læknavísindin gera okkur kleift að bjarga lífi þessa fólks hlýtur að fylgja því sú skylda að geta búið að og vistað það við viðunandi aðstæður.

Það er óviðunandi með öllu, eins og t.d. hefur verið gripið til, að vista þessa einstaklinga inni á heilsuverndarstöðinni með mjög sjúku öldruðu fólki sem oft er líka mikið andlega skert og nánast út úr heiminum. Það mikið fatlaða unga fólk sem hér um ræðir þarf að vera í stöðugri endurhæfingu. En til að einhver minnsti árangur náist þarf ekki síst að vera vilji fyrir hendi hjá þessu unga fatlaða fólki sjálfu og ég óttast að það geti haft alvarlegar andlegar afleiðingar fyrir það ef því er búin framtíðaraðstaða við þær aðstæður sem t.d. eru á Heilsuverndarstöðinni og endurhæfing skili því ekki þeim árangri sem hún annars gæti gert. En sem betur fer hafa sumir þessara einstaklinga fengið inni í Sjálfsbjargarhúsinu. Úti á landi eru 3–4 þeirra vistaðir á sjúkrahúsum.

Ég tek undir að huga á að þeim möguleikum sem bent er á í till. að efla stuðning við hjúkrun í heimabyggð. Ég vil líka benda á annan möguleika sem ég tel þess virði að verði kannaður gaumgæfilega, en það er að við Borgarspítalann er allgóð endurhæfing sem verður að vera fyrir hendi þar sem þetta fattaða fólk vistast til frambúðar. Því tel ég að komið gæti til greina að athuga sérstaklega hvort ekki mætti búa þessu fólki stað, a.m.k. að því er höfuðborgarsvæðinu viðvíkur, í þeirri álmu sem nú er í byggingu við Borgarspítalann. Þegar hafa verið tekin í notkun um 30 rúm fyrir aldraða langlegusjúklinga, en þegar þessi álma er fullbúin verður þarna vistrými fyrir 200–300 manns. Ég vil því varpa því hér fram hvort ekki mætti gera þarna vistlega sérdeild með 8 eða 10 vistplássum fyrir þessa einstaklinga í líkingu við það sem nú er í Sjálfsbjargarhúsinu þar sem þessum fötluðu einstaklingum væri sköpuð eins bærileg aðstaða og kostur er í allri þjónustu og endurhæfingu.

Herra forseti. Ég vil ítreka stuðning minn við þetta brýna og mikilvæga málefni og vænti þess að þessi till. gangi greiðlega í gegnum Alþingi. Ég vænti þess að hún fari til umfjöllunar í þeirri nefnd sem ég á sæti í og vonast ég til að þar fái hún skjóta og greiða afgreiðslu. Það er von mín einnig þegar þessu máli hefur núverið hreyft á Alþingi taki hæstv. heilbrrh. þegar af skarið og geri nauðsynlegar ráðstafanir til að vistunarvandi þessara öryrkja verði leystur. Á hann raunar ekki að þurfa að bíða eftir samþykkt þessarar till. til að hefjast nú þegar handa, svo brýnt er orðið að leysa þetta mál.