16.11.1983
Neðri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

11. mál, launamál

Frsm. 1. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að skila nál. á þskj. 104 ásamt brtt. á þskj. 105.

Það er augljóst mál að brbl. eru þess eðlis að ákvæði þeirra eru meira og minna komin til framkvæmda áður en þau koma til umfjöllunar á Alþingi. Sumir telja þetta kannske kost brbl. en þetta er nú einu sinni ein aðalmissmíðin á brbl. að í gildi geta verið lög sem Alþingi hefur aldrei um fjallað. Við höfum náttúrlega fengið að sjá það í umfjöllun ríkisstj. um þau brbl. sem hér er óskað staðfestingar á með lögum, að ríkisstj. hefur skipt um skoðun frá því að brbl. voru sett og þangað til núna, og flytur nú sjálf brtt. við sín eigin brbl.

Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa allir gagnrýnt þau brbl. sem hér um ræðir, en á hinn bóginn teljum við Alþfl.-menn að það sé nauðsynlegt að leita eftir föngum eftir því að fá fram endurbætur á lögunum, endurbætur sem miða að því að gera þau sanngjarnari og draga úr því misrétti sem í þeim felst, þó að eðli málsins samkvæmt geti slík ákvæði einungis tekið til framtíðarinnar, en ekki til hins liðna tíma, og vísa ég þá til þess sem ég sagði hér áður um að brbl. eru þess eðlis að þau hafa gilt um þó nokkurn tíma, og þessi um margra mánaða hríð, áður en þau koma hér til umfjöllunar í þinginu.

Ríkisstj. hefur sagt að hún vildi jafnan fá sem almennastan stuðning við hugmyndir sínar. Nú reynir á, að því er varðar afstöðu til þessara brtt. sem ég mun hér gera grein fyrir, hvort ríkisstj. hefur áhuga á að sníða af þessum lögum tvo verulega vankanta, sem yrði til þess að gera þau eftir á sanngjarnari en ella. Með því móti væri ríkisstj. að koma til móts við fólkið í landinu, með því væri ríkisstj. að sýna vilja sinn í verki um að það næðist víðtækari samstaða, víðtækari stuðningur, við þessi lög heldur en verið hefur til þessa. Þær brtt., sem hér um ræðir, eru tvær eins og ég gat um, og ákaflega einfaldar. Í fyrsta lagi er það svo í því lagafrv. sem hér er til umfjöllunar að bannað er að miða laun við vísitölu, eins og kunnugt er, en vísitölukerfið að öðru leyti er látið standa óhaggað. Þannig hefur t.d. ríkisvaldið sjálft nú sjálfvirkar heimildir til að hækka skatta og gjöld sem það leggur á fólkið í landinu, hefur sjálfvirkar heimildir til að hækka það með tilliti til vísitölu. Ríkið hefur þá heimildir til vísitöluhækkunar til þess að afla sér tekna, til að leggja gjöld á fólkið á sama tíma og það segir við launafólk: Nú megið þið ekki miða við vísitölu. Það er auðvitað sanngjarnt og rétt að ríkið sitji við sama borð og launþegar í þessum efnum. Gjöld, sem sérstaklega gildir um að það megi hækka með vísitölu samkvæmt þessu, eru t.d. bensíngjald, þungaskattur og flugvattaskattur. Það eru sérstök lagaákvæði um þetta. Og notkun ríkisins á þessum heimildum hefur m.a. birst í sífelldum hækkunum á bensíni að undanförnu sem hafa verið ákveðnar af fjmrh. með hliðsjón af vísitölu á sama tíma og launafólkinu leyfist ekki að miða kjör sín við vísitöluna.

Það er vitaskuld með öllu óeðlilegt og í fyllsta máta ósanngjarnt að þeir hlutar hins sjálfvirka vísitölukerfis, sem lúta að skattlagningu fólksins og tekjuöflun til ríkisins, séu í fullu sambandi en launafólki sé óheimilt að njóta dýrtíðarkvóta miðað við vísitölu. Þess vegna er lagt til á þskj. 105 að eitt skuli yfir alla ganga í þessum efnum og sjálfvirkar heimildir ríkisins til slíkra hækkana skuli verða afnumdar. Óski ríkisstj. engu að síður að breyta gjöldum af þessu tagi þá gæti hún gert það með því að flytja um það sérstök lagafrv. Þá heimild hefur ríkisstj. engu að síður en sjálfvirknin væri tekin úr sambandi.

Þetta kemur fram í brtt. sem er nr. 1 og hljóðar svo, fyrri hluti hennar: „Á sama hátt og á sama tíma er óheimilt að miða opinber gjöld af einu eða öðru tagi hvort sem er til ríkisins eða til sveitarfélaga, með einum eða öðrum hætti við vísitölu. Þrátt fyrir ákvæði í öðrum lögum um heimildir til hækkunar gjalda eða skatta með tilliti til breytinga á vísitölu skal slík hækkun óheimil frá og með gildistökudegi þessara laga.“

Þetta ákvæði er nú ekki lengra heldur en þetta, en í annan stað þá er ákvæði um fasteignagjald, fasteignaskatta og fasteignamat. Það er nefnilega svo að gjaldskrár, sem miðast við fasteignamat, eru í rauninni af sama toga. Fasteignamatið er hækkað samkv. ákvörðun Fasteignamatsnefndar ríkisins, og þá er heimil gjaldtaka samkv. lögum eins og þau eru núna miðað við hið nýja fasteignamat. Og þegar verðlag hækkar langt umfram launabreytingar felur þetta í sér óréttláta heimild til sjálfvirkrar gjaldtöku af þorra fólksins í landinu. Þessi sjálfvirkni er af sama toga og sú sjálfvirkni sem ég gat um hér áðan. Þetta er í rauninni þáttur af þessu vísitölukerfi sem við höfum búið við. Og eigi að ráðast að vísitölukerfinu þá er auðvitað nauðsynlegt að höggva einnig á þessa sjálfvirkni. Með hliðsjón af þessu er síðari hluti hinnar fyrri brtt. hér, sem er undir tölul. 1, svofelldur: „Hvarvetna þar sem í lögum segir, að gjöld eða skattar til ríkis og sveitarfélaga skuli reiknast sem ákveðinn hundraðshluti af fasteignamati fasteigna, þar með talið mat fasteigna til eignar vegna álagningar eignarskatts, skal lækka gjaldstofn álagningarinnar um 20% við álagningu 1984 fyrir gjöld, sem reiknast árlega, en frá og með 1. desember 1983 að því er önnur gjöld varðar. Jafnframt er óheimilt að hækka viðkomandi álagningarprósentur frá því sem í gildi var hinn 25. maí 1983.“

Hér er ekki lagt til að fasteignamatinu sjálfu sé breytt, heldur að sá gjaldstofn, sem verði notaður frá og með 1. des. n.k., verði lækkaður um 20%, og það gildir þá varðandi álagningu eignarskatts, það gildir varðandi álagningu á fasteignaskatti eða fasteignagjöldum til sveitarfélaga. Það mundi jafnframt gilda varðandi erfðafjárskatt og stimpilgjöld til ríkissjóðs.

Með því að samþykkja þessa brtt., sem felur í sér tvo efnisþætti, annars vegar afnám þessarar sjálfvirku heimildar ríkisins til að leggja á skatta og gjöld með tilliti til vísitölu, og hins vegar sérstakt ákvæði um með hvaða hætti skuli fara með álagningu gjalda sem lögð eru á fasteignir, þá sæti hið opinbera við sama eða svipað borð og launafólk að því er varðar afnám vísitöluviðmiðunar. Þetta bann við notkun vísitölu næði því ekki einungis til launamanna eins og frv. ríkisstj. gerir nú ráð fyrir.

Síðari brtt., sem er hér undir tölul. 2 á þskj. 105, fjallar um lágmarkstekjur. Það er svo að lágmarkstekjur nú samkvæmt gildandi lögum eru 10 961 kr. á mánuði. Ef hins vegar verðbætur hefðu verið reiknaðar samkvæmt ákvæðum kjarasamninga, væru þessar lágmarkstekjur, eins og kjarasamningarnir gerðu ráð fyrir því, um 15 þús. kr. á mánuði. Ég held að öllum hljóti að vera ljóst að fólk getur illa eða alls ekki framfleytt sjálfu sér hvað þá fjölskyldu af tekjum sem eru innan við 11 þús. kr. eins og þessar lágmarkstekjur eru núna. Það er talið að matarkaupin ein hjá vísitölufjölskyldu séu um 9 100 kr. á mánuði um þessar mundir og sjá þá allir hversu mikið er til skiptanna að þeim reikningi greiddum.

Okkur er auðvitað öllum ljóst að við mikla erfiðleika er að etja í þjóðfélaginu, en það hefur verið mikill skilningur á því á Íslandi að þegar gripið væri til efnahagsráðstafana bæri að hlífa þeim sem verst eru settir. Sá hópur, sem hefur 11, 12, 13 þús. kr. á mánuði, er mjög illa settur í okkar þjóðfélagi. Eins og staðið hefur verið að þessum efnahagsráðstöfunum hefur þessum hópi, sem hefur tekjur á bilinu,10 930 til 15 þús. kr., ekki verið hlíft við því að bera byrðar. Hann ber nú byrðar sem nemur þessari skerðingu þrátt fyrir margvíslegar yfirlýsingar um að vernda sérstaklega kjör þeirra sem verst eru settir.

Til þess að bæta hér úr er flutt hér till. um að lágmarksheildarlaun að meðtöldum hvers kyns álagsgreiðslum skuli vera 15 þús. kr. á mánuði fyrir fulla dagvinnu og tilsvarandi fyrir hlutastörf. Til heildarlauna teljast þá hvers kyns álögur aðrar en orlof sem á taxtalaunin koma. Það er sagt hér í gr. sjálfri að hvers kyns álögur skuli þar með reiknaðar. Þannig nytu einungis þeir, sem ekki hafa náð þessum tekjum, hér góðs af. Þessi ákvæði hefðu þannig þau áhrif að engum yrðu greidd lægri laun í heild að meðtöldum öllum álagsgreiðslum en 15 þús. kr., en það næði einungis til launafólks sem hefur lægri heildarlaun, en ekki til þeirra sem ná þessari upphæð eða hærri upphæð með álagsgreiðslum hverju nafni svo sem þær nefnast. Þetta er því sannarlega sá hópur launafólks sem hefur allægstar tekjurnar. Auðvitað er það neyðarúrræði að löggjafinn sé að skipta sér af samningum, eins og margoft hefur komið hér fram og m.a. hér áðan hjá hv. síðasta ræðumanni, 1. þm. Suðurl. En allur sá lagabálkur, sem við erum hér með milli handanna, er náttúrlega ein allsherjar afskipti af samningum.

Nú hafa mál hins vegar breyst á þann veg að samningar eru lausir og við skulum vænta þess að fljótlega takist að gera skynsamlega samninga hér á landi. En með hliðsjón af því að hér hefur verið um veruleg afskipti af kjarasamningum að ræða og að svo illa er ástatt hjá þeim sem lægst hafa launin, er þessi till. flutt og þá með þeim hætti að hún gildi einungis þar til að um annað hafi verið samið, þ.e. að frá og með gildistökudegi þessara laga, og þar til öðruvísi um semst, þá séu lágmarksheildarlaunin 15 þús. kr., en ætlast er til að þetta sé jafnframt liður í þeim samningum sem fram undan eru, að semja um lægstu laun og lágmarkstekjur.

Ég skal ekki fjölyrða öllu meira um þetta, herra forseti. Þessar till. skýra sig að verulegu leyti sjálfar, en þær eru eins og ég gat um í upphafi fyrst og fremst tvíþættar. Í fyrsta lagi það að ríkið sitji nokkurn veginn við sama borð eins og launþegar að því er viðmiðun við vísitölu varðar, að ríkið geti ekki sjálft hækkað ýmis konar álögur á fólkið í landinu eins og hefur verið að undanförnu og höggvið sé á sams konar sjálfvirkni í álagningu gjalda sem miðast við fasteignamat. Í öðru lagi séu sérstök ákvæði til þess að tryggja að enginn þurfi hér að búa við á næstu mánuðum eða þar til um annað semst, lægri mánaðartekjur en 15 þús. kr.