16.11.1983
Neðri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

11. mál, launamál

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Sú 1. gr. sem hér er til afgreiðslu skiptist í tvo hluta. Annars vegar er 1. mgr. sem nú á að taka afstöðu til. Sú mgr. felur í sér að afnumið sé það vísitölukerfi sem var í gildi samkv. lögum nr. 13 1979 og hafði gengið sér til húðar.

2. mgr. fjallar hins vegar um það að í framtíðinni eða fram til 31. maí 1985 sé óheimilt með einum eða neinum hætti að miða nýja samninga við vísitölu eða annan hliðstæðan mælikvarða. Það er þannig mikill munur á því sem felst í 1. mgr. og því sem felst í 2. mgr. Við Alþfl.-menn teljum að gamla vísitölukerfið hafi verið orðið ónýtt og óréttlátt og hafi gengið sér til húðar og það eigi ekki að framlengja. Við erum þess vegna sammála því sem segir í 1. mgr. 1. gr.

Á hinn bóginn teljum við algjörlega rangt að hindra með lagasetningu að unnt sé í framtíðinni að semja um skynsamlegar leiðir til kaupmáttartryggingar t.d. hinna lægstu launa, sem virðist vera algjörlega hindrað samkv. 2. mgr. þessarar 1. gr.

Við munum því í atkvgr: hér á eftir greiða atkv. gegn 2. mgr. Við teljum hins vegar rétt að afnema það ákvæði í Ólafslögum sem hafði skapað okkur vísitölukerfi sem gat ekki gengið lengur og með tilliti til þess og þess sem ég hef hér sagt að öðru leyti segi ég já við 1. mgr.