22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

400. mál, bankaútibú

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það hefur margt komið fram í þeim umr. sem hér hafa átt sér stað út af þeim fsp. sem hv. 2. landsk. þm. og áður hv. 3. landsk. þm. báru fram í sambandi við bankamálin. Það er nú ekki eins og það sé fyrsti dagurinn sem við séum að ræða fyrirspurnir eða tillögur um þessi mál, en það er engu að síður ástæða til þess að þau mál séu mjög vandlega skoðuð og þm. láti í ljós skoðanir sínar á þeim.

Hér ræddi hv. 2. landsk. þm. um setningar, sem ég lét frá mér fara í þessum ræðustól fyrir viku varðandi skoðun mína á því hvaða kröfu á að gera til bankanna varðandi eiginfjárstöðu og varðandi fjárfestingar sem hlutfall af eiginfjárstöðu. Ég vek athygli á að ríkisbankarnir heyra undir viðskrh., að Búnaðarbankanum undanskildum. Banki sá sem sérstaklega var til umr. hjá hv. þm. er hins vegar ekki í ríkiseign, heldur eign samvinnuhreyfingarinnar. Bankamálaráðherra eða viðskrh. fer að vísu með þau málefni sem varða þennan banka, en ég teldi að til þess að aðhafast eitthvað í þá átt sem hv. þm. vék að áðan þyrfti ráðh. að fá aths. frá þeirri stofnun sem heitir bankaeftirlit og á að fjatla um þessi mál og gera athuganir og gefa aðvaranir ef ástæða þykir til.

Þm. spurði — ég held að ég fari með það rétt — hvort ég vissi um byggingar á vegum þeirra 32- (JS: Hvort það væru hafnar einhverjar byggingar.) Já, hvort það væru hafnar einhverjar byggingar hjá þeim bönkum sem hafa sótt um þessi 32 útibú. Það getur nú enginn, held ég, ekið um borgina öðruvísi en sjá það og allra síst sá ráðh. sem kemur akandi sunnan úr Hafnarfirði. Hann hlýtur að sjá það sem hefur verið að gerast á leiðinni inn í borgina í þessum efnum. Verslunarbankinn á stóran hluta í Húsi verslunarinnar, sem er að mér er tjáð nærri lokið, ef þá það húsnæði er ekki fullbyggt, þannig að ég væri að haga mér eins og strúturinn og stinga höfðinu í sandinn ef ég hefði komið hér upp og ekki sagst hafa séð það sem þarna væri á ferðinni.

Ég get líka upplýst að Hús verslunarinnar hefur verið í byggingu allt frá 1976 og það verið talið, og því ekki mótmælt af einum eða öðrum sem þar hefur átt hlut að máli, að Verslunarbankinn tæki þátt í þeirri byggingu, og að mér er tjáð reikna allir með því að þegar byggingunni er lokið hljóti hann leyfi til að starfa þar.

Hv. 3. þm. Reykv. vék hér að máli sem vonandi verður á dagskrá síðar á þessu þingi, þ.e. setning nýrra laga um Seðlabankann, um viðskiptabankana og um sparisjóðina. Ég átti sæti í nefnd sem fyrrv. ríkisstj. skipaði um þessi mál, en þegar ég tók við embætti ráðh. vék ég úr þeirri nefnd ásamt hæstv. sjútvrh., sem gegndi formennsku í nefndinni, en tveir aðrir voru skipaðir í staðinn. Þessi nefnd hefur verið að störfum og ég á von á að hún ljúki störfum skömmu eftir næstu mánaðamót. Þannig ætti ekki að líða mjög langur tími þar til hægt verður að flytja nýtt frv. um Seðlabankann. Þá fá allir tækifæri til að láta ljós sitt skína og koma á framfæri þeim hugmyndum sem þeir hafa um breytingu á starfsemi þeirrar stofnunar. Ennfremur er verið að ljúka við að semja frv. um viðskiptabanka og frv. um sparisjóði.

Ég er alveg sammála hv. 3. þm. Reykv. um að við verðum að vanda mjög til þessarar löggjafar. Ég ætla einnig að vonast til þess að Alþingi fái mjög gott tækifæri til að ræða þessi mál þegar frv. verða lögð fram. Eins og ég sagði áðan vonast ég til þess að það líði ekki margar vikur þar til nefndin hefur lokið störfum. Hvort rétt þykir að leggja frv. fram fyrir jólaleyfi eða með hvaða öðrum hætti þm. fái tækifæri til þess að skoða frv., það skal ég ekki um segja. En ég mun að sjálfsögðu hafa samstarf við ekki aðeins stjórnarþm., heldur líka stjórnarandstöðu og ræða með hvaða hætti skynsamlegast væri að vinna að þessum málum.

Ég er sannfærður um að okkur greinir út af fyrir sig ekki mjög á um hvernig beri að haga þessum málum. En við þurfum að horfast í augu við staðreyndir og það þurfa ráðherrar stundum að gera þegar ríkisstjórnarskipti verða. Það hafa verið afgreiddir ákveðnir hlutir og þeir ganga fram eins og ég hef vikið að. Hins vegar taldi ég eðlilegt og rétt að rita, eins og ég sagði fyrir viku, öllum bönkunum bréf og óska eftir því að um frekari verksamninga verði ekki að ræða á árinu 1984 en um hefur verið samið og óska jafnframt eftir að rn. verði gerð grein fyrir þeirri fjárfestingu sem bankarnir nú standa í og að eins mikið verði dregið þar úr og mögulegt er.