03.12.1984
Neðri deild: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

176. mál, lyfjadreifing

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Á árunum 1974–1978 beitti ég mér fyrir heildarendurskoðun löggjafar um lyfjamál. Sú endurskoðun leiddi til uppstokkunar á áður gildandi lögum. Sett voru tvenn lög 1978, annars vegar lög um starfsréttindi lyfjafræðinga og aðstoðarlyfjafræðinga og hins vegar lyfjalög, þ.e. lög um framleiðslu lyfja. Lög um lyfjadreifingu, sem voru þriðji og síðasti þáttur þessarar endurskoðunar, náðu hins vegar ekki fram að ganga fyrr en á árinu 1982 og tóku þau gildi 1. jan. 1983.

Með lögum um lyfjadreifingu færðist yfirstjórn Lyfjaverslunar ríkisins frá fjmrn. yfir til heilbr.- og trmrn. Það var talið æskilegt að síðarnefnda rn. færi með yfirstjórn Lyfjaverslunar ríkisins þar sem um væri að ræða mikilvægan hlekk í þjónustu við heilbrigðisstofnanir í landinu og þannig jafnframt tryggja sem beinasta þjónustuleið. Allt frá öndverðu hafa tengsl Lyfjaverslunar ríkisins verið mikil við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og þar með fjmrn. Þannig hefur rekstur Lyfjaverslunar ríkisins notið samlags við rekstur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og þess stöðuga fjárstreymis sem um þá stofnun fer. Þetta hefur óneitanlega auðveldað rekstur Lyfjaverslunar. Nú hefur komið í ljós að óráðlegt er að slíta þessi tengsl því það bitnar fyrst og fremst á rekstri Lyfjaverslunar. Það er skoðun mín að betur verði séð fyrir rekstrinum sé hann í tengslum við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Hefur því orðið að samkomulagi milli mín og hæstv. fjmrh. að yfirstjórn á rekstri stofnananna færist aftur til fjmrn. og að heilbr.- og trmrn. tilnefni einn mann í stjórn, þ.e. að lögð eru til hlutverkaskipti milli þessara tveggja ráðuneyta ef Alþingi fellst á það.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég benda hv. þingnefnd þeirri sem mál þetta fær til umfjöllunar á að stjórn Lyfjaverslunar ríkisins hefur farið þess á leit við mig að samtímis ofangreindum breytingum verði felld niður 2. mgr. 43. gr. umræddra laga ellegar hún verði nánar úttærð t.d. með reglugerð. Hér er átt við þá grein sem fjallar um birgðahald Almannavarna. Sú spurning hefur vaknað hvort hér sé eingöngu átt við lyfjabirgðir eða einnig hjúkrunar- og sjúkragögn. Í þeim tilvikum vaknar sú spurning hver eigi að kosta aukið lagerhald Lyfjaverslunar ríkisins og aukið lagerrými sem óhjákvæmilega verður þörf fyrir sé talið að Lyfjaverslun ríkisins eigi að annast umrætt birgðahald. Ég vil biðja nefndina, sem fær þetta mál sérstaklega til meðferðar, að athuga hvort rétt sé að fella niður þessa mgr. Ég var ekki á þessu stigi tilbúinn til þess, en er aftur mjög hvetjandi þess að skýr ákvæði verði um það í lögunum hvaða skyldur Lyfjaverslun ríkisins hafi til að halda birgðir fyrir Almannavarnir og til hvers konar birgða skyldan nái.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. og vænti þess að nefndin sjái sér fært að hraða afgreiðslu málsins.