04.12.1984
Sameinað þing: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1578 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

33. mál, lífeyrisréttindi húsmæðra

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Mér þykja hv. þm. tala hér nokkuð strítt og kannske ekki af mjög miklu tilefni. Ég vil vekja athygli á því að viðstaddir eru 20 þm., a.m.k. skv. þeim upplýsingum sem fram komu hjá þeim hv. þm. sem hóf þessar umr., og fulltrúar allra flokka eru viðstaddir þessa umr. Ég reikna með því að hér séu saman komnir þeir sem hafa hugsað sér að taka til máls um þau dagskrármál sem fyrir liggja, nema þeir sem forföll banna og við því er ekkert að segja. Nokkrir menn hafa formlega farið fram á að fá fjarvistarleyfi frá fundi í dag, t.d., ef ég man rétt, formaður Alþfl. og varaformaður þess flokks, og einnig eru veikindi. Út fyrir það verður ekki hægt að synda og ekki hægt að ætlast til þess af hæstv. forseta að hann fari að gera verkfall þess vegna.