04.12.1984
Sameinað þing: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

33. mál, lífeyrisréttindi húsmæðra

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég má nú til með að segja það af því tilefni sem gafst hér áðan, að það eru nú oft færri í þessum sal þegar verið er að ræða kvenna- og barnamál. Við erum nú orðin níu hér núna með forseta. Það mundi ég segja að væri góð tala þegar slík mál eru rædd. En vegna orða forseta, sem nú er reyndar genginn úr salnum og kvartaði yfir því að þm. börmuðu sér og segðust ekki vera viðbúnir málum, þá vil ég samt vekja athygli á því að þó að sumir þm. séu fjölhæfir, þá eru ekki nema 24 klukkustundir í sólarhringnum og þetta er annríkt starf og 46 mál á dagskrá og ég held, að það sé ekki hægt að krefjast þess að menn séu viðbúnir því að tala í þeim öllum á sama tíma. Ef þm. harma það að þeir séu ekki eins tilbúnir og þeir vildu vera, þá er það held ég einungis vegna þess að þeir vildu sýna málinu meiri alúð en þeim gefst tækifæri til.

Hv. þm. Páll Pétursson vekur hér til umr. þetta mikilsverða mál og ég held að það eigi nú ekki að berja of mikið á honum. Hann flutti reyndar sömu till. í fyrra svo að það er nú ekki einungis út af þessari ráðstefnu sem nýlega var haldin sem hann flytur málið. En ég held að umr. um þetta sé mjög þörf. Ég tek jafnframt undir það með hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og held að það sé alger nauðsyn til þess að við reynum að leggja hér stóru línurnar og ræða þessi mál í mun víðara samhengi og þess vegna styð ég hennar orð og undirstrika það, sem ég sjálf sagði áðan, að ég held að þetta mál leysist ekki nema með sameiginlegum lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn.

En vegna orða hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur um Dani og vegna þess sem hér er til umr., þá vil ég vekja athygli á því sem fram kom á jafnréttisráðstefnu sem ég átti kost á að sækja í Gautaborg í maí s.l. og haldin var á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. Þar mættu margar konur frá Norðurlöndunum. Þær voru ýmist frá mismunandi stjórnmálasamtökum eða ekki starfandi í stjórnmálum, en þær voru flestar á eitt sáttar um það, að breytt sambúðarform er að verða ríkjandi á Norðurlöndum. Og það kom einnig fram að konurnar voru margar ef ekki langflestar orðnar uppgefnar á skilningsleysi og ódugnaði karla við það að taka þátt í uppeldis- og heimilisstörfum og þær voru talsvert herskáar í því að krefjast þess af körlunum að þeir öxluðu sinn hluta byrðarinnar til jafns á við þær — mun herskárri reyndar heldur en þær kvenraddir sem hljóma í þessum sal og hefði verið vekjandi fyrir karlpeninginn í þessu húsi að hlusta á þær og mjög fróðlegt. Þær krefjast endurskilgreiningar á fyrirvinnuhlutverkinu, og sem dæmi um það, af því að nú er verið að ræða um heimavinnandi húsmæður, sem dæmi um það hve vantrúin á hjónabandinu sem stofnun er orðin ríkjandi, þá má nefna að það kom fram á þessari ráðstefnu að það er ekki nema 1/3 hluti þeirra sem eru í sambúð í Danmörku sem eru í vígðri sambúð. Enn fremur að það eru 14600 hjónaskilnaðir á ári í Danmörku og konur hafa frumkvæði að meginþorra þessara hjónaskilnaða. Konur á hinum Norðurlöndunum eru efnahagslega sjálfstæðari en þær voru áður. Þær geta séð sér farborða þó að þær standi þar ekki körlunum jafnfætis og þær bara hreinlega nenna ekki að vera í sambúð með og eiga börn með körlum sem taka ekki sinn hluta ábyrgðarinnar af því. Svo einfalt er það.