04.12.1984
Sameinað þing: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

21. mál, Ríkismat sjávarafurða

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Ég segi nú eins og sagt var hér um mál sem var rætt áðan að ég er ekki nógu vel undirbúinn til að ræða þetta núna, en fer samt nokkrum orðum um það. Ég var formaður þeirrar nefndar sem fjallaði um þetta mál í fyrra hér í Ed., sjútvn. Þetta er mikill bálkur sem heitir Ríkismat sjávarafurða. Þetta er geysilega stórt mál, viðkvæmt mál og vandmeðfarið. En hins vegar er þessu máli þannig varið eins og öllum öðrum málum að þar má áreiðanlega gera ýmsar breytingar og bót á ýmsum þáttum þegar betur er skoðað. Ef ég man rétt á þessi málaflokkur að kosta ríkið um 40 milljónir skv. fjárlagafrv. núna. Því er ekki að neita að framleiðendur hafa talað mjög um að færa þetta mat eða eftirlit frekar inn í vinnslustöðvarnar sjálfar en gert hefur verið.

Margir telja sig sjá hag sínum ekki síður borgið í þeim efnum ef t.d. sölusamtökin tækju að sér — þau eru með mikla skoðun í dag — aukna skoðun á þessu og væru ábyrg fyrir vörunni frá því að hún kæmi inn í húsið og þar til hún yfirgæfi það. Þetta er sjónarmið sem ég tel ástæðulaust að við lokum augunum fyrir ef það væri framkvæmanlegt.

Fiskmarkaðir okkar eru þannig samsettir að þeir — eins og t.d. Ameríkumarkaðurinn — gera engar sérstakar kröfur á ríkisstimplun í þessum efnum. Aftur gera það öll austantjaldslöndin eins og kom fram hjá flm. Á vesturmarkaðnum byggist allt á því að framleiðandinn eða seljandinn sé algjörlega ábyrgur fyrir þeirri vöru, sem þangað kemur, sjálfur. Annars er sá markaður búinn. Þess vegna er ég ekki á móti því að það væri kannað alvarlega hvort sölusamtökin, sem eru það sterk á þessu sviði, gætu tekið þetta alveg að sér. Í dag er þetta þannig að það koma eftirlitsmenn reglulega í frystihúsin og kannske of reglulega, segja sumir. Það er því vitað á hvaða dögum þeir koma og hægt að svindla þann daginn. En þetta er sagt svona til gamans. Það mætti bæta við mönnum hjá sölusamtökunum sem gerðu það sama og ríkismatið eða ferskfiskmatið gerir í dag. Við vitum alveg hvaða pressa er á verkstjóra í viðkomandi frystihúsi. Til að skila sem bestum árangri, sýna sem mesta nýtni, reynir hann að vinna allt hráefni í botn eins og mögulegt er sé það mögulegt vegna gæða. Aðkomumaður frá sömu sölusamtökum hefði það vald að yfirfara þetta og taka vöruna út jafnóðum. Ríkismatið sem slíkt gerir ekki nokkurn skapaðan hlut í því nema þegar varan er flutt út. Þá eru opnaðar vissar pakkningar til þess að skoða þær.

Aftur á móti verðum við að gera þarna greinarmun á að þetta mat flokkast í tvo aðalþætti, þ.e. ferskfiskmatið og afurðamatið. Ferskfiskmatið er það mat sem fer fram á fiski sem kemur frá fiskiskipunum og keypt er af viðkomandi vinnslustöð. Og það, skal ég játa, sem stóð hvað mest fyrir okkur í fyrra í þeirri n. sem um þetta fjallaði, var það hvernig við gætum tryggt að ekki yrðu of miklir árekstrar á milli seljenda og kaupendanna. Ef þessi aðili væri ekki óháður, eins og við töldum okkur vera að stuðla að í þessu tilfelli, væri hætt við því að seljandinn væri að væna kaupandann um þetta og hitt og svo aftur öfugt. Þetta var því hálfgerð — ég viðurkenni það — neyðarráðstöfun til að reyna að koma á sáttum á milli þessara aðila ef hugsanlega gætu komið upp deilumál. En mér er sagt, og það kom fram hjá framsögumanni líka, að núna þennan mánuð, sem verkfallið var og starfsmenn ferskfiskmatsins voru ekki að störfum, hafi þetta gengið allvel. Mér er ekki grunlaust um að fiskmat hafi heldur hækkað, að prósentan hefði verið heldur betra mat en var áður, þ.e. að þeir versluðu þarna beint sín á milli, fiskseljendur og fiskkaupendur. Ekki er ég á móti því ef þeir geta haft betri afkomu út úr þessu. Það er bara spurning hvernig við tryggjum að hægt sé að hafa stuðpúða þarna á milli svo að ekki komi til árekstra.

Ég held að með góðri samvinnu geti menn hreinlega kosið sér fulltrúa á hverri vinnslustöð eða stað sem væri hægt að kalla til ef kæmi til árekstra. Ég held að við verðum að skoða þetta vegna þeirrar miklu gagnrýni sem t.d. ferskfiskmatið fékk á þessu ári. Við höfum séð það hér í blöðum og annars staðar hvað skeði s.l. sumar þegar geysilegir flutningar á bílaleigubílum á milli staða áttu sér stað og kostnaður var óhóflegur af því það var ríkið sem rak þetta. Ég hef engar sannanir í þessu máli, en um það var fjallað hér í fjölmiðlum og ég tel okkur skylt að fylgjast með slíkum hlutum. Við getum gert þetta á annan veg en að ríkið þurfi endilega að vera aðili að því máli.

En ríkismatið getum við ekki lagt niður allt saman, þar gengur till. flm. of langt. Við verðum að hafa slíka stofnun. Hvort flytja má hana inn í aðra stofnun, það er allt annað mál. En vegna okkar markaða getum við ekki komist hjá því að það verði löggiltir aðilar sem komi þarna við sögu. Kaupendur í austantjaldslöndunum gera allir þá kröfu að þeir geti fengið viðurkenndan ríkisstimpil á þennan útflutning. Ég er sammála því að reyna að forðast eins og hægt er að gera úr þessu allt of mikið bákn. Það er allt í lagi, þó að það sé ár síðan við samþykktum lög um ríkismat, að fara yfir þetta aftur og reyna að finna galla á þessu fyrirkomulagi og gera leiðréttingar. Það er sjálfsagt að taka það til greina áður en þetta veltir of miklu upp á sig.

Ég held ég hafi ekki fleiri orð um þetta núna. Viðkomandi n. getur nú fjallað um þetta frá öllum hliðum til að reyna að finna bestu lausnina á þessu máli eins og nú er ástatt meðan við þurfum að halda að okkur höndum eins og mögulegt er. Æskilegt væri að við gætum hugsanlega skapað betri kjör fyrir fiskseljendur og fiskkaupendur, að þeir verði sjálfir ábyrgir fyrir því sem þeir eru að framleiða. Það er mikilvægt að koma þessum málum sem mest inn í framleiðslugreinarnar sjálfar og gera þær enn ábyrgari en þær eru.