05.12.1984
Efri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég er meðmæltur samþykkt þessa frv. og kem aðallega upp til að ræða nokkur þau atriði sem ég tel máli skipta þegar á annað borð er verið að ræða um mál sem þessi, þ.e. sölu ríkisfyrirtækja, og þá ekki hvað síst vegna þess að þar eru oft nefnd alls kyns atriði til rökstuðnings sem eiga á mismunandi hátt e.t.v. heima í málflutningi.

Í nál. minni hl. iðnn. segir, með leyfi hæstv. forseta, að það sé stefna núv. ríkisstj. að selja sem flest ríkisfyrirtæki, að því er virðist án tillits til þess hvort slíkt þjónar almannahagsmunum. Ég tel hæpið að nota þessa röksemdafærslu hérna, að nota þetta hreint og beint sem orðalag í þessari umr., vegna þess að áður en menn segja slíkt finnst mér þeim beri skylda til þess að leiða einhver rök að því að reksturinn, eins og hann er í núverandi ástandi, þjóni að einhverju leyti almannahagsmunum. Nú er það staðreynd með flestöll fyrirtæki sem ríkið rekur og skila jafnvel hagnaði að þau skila eftir sem áður það litlum hagnaði að lítið munar um hann í heildarrekstri ríkisins. Og að halda því fram að sá hagnaður, sem þar kemur inn, þjóni almannahagsmunum, það tel ég mjög hæpna röksemd. Ég get nefnt það t.d. að ég býst við því að hv. 4. þm. Vesturl. væri mér sammála ef ég legði fram till. um að leggja niður rekstur ríkisins á fyrirtæki sem heitir Sölunefnd varnarliðseigna, en það fyrirtæki mun líklega skila hlutfallslega hvað mestum tekjum af ríkisreknum fyrirtækjum í almannasjóði. Þá býst ég við að hv. 4. þm. Vesturl. mundi skoða hug sinn skv. mottóinu „illur fengur illa forgengur“ og vera slíkri till. meðmæltur. Ef hann er að tala um almannahagsmuni í þessu tilviki trúi ég því sem sagt að hann sé ekki einungis að tala um fjárhagslega hagsmuni, heldur hugsanlega um einhverja aðra. Ég held að miklu auðveldara sé að skoða þetta dæmi ef horft er til þess hvorir hagsmunirnir séu stærri, hagsmunir þeirra sem skipta við fyrirtækið eða hagsmunir þeirra sem innan þess starfa, og hvort réttlætanlegt sé að halda úti starfseminni sem nokkurs konar atvinnubótavinnu, en það tel ég ekki vera.

Það hefur verið talað um að rekstri Landssmiðjunnar hafi hrakað á undanförnum árum og mun það ekki hvað síst vera vegna þess að fyrirtæki, og þá sérstaklega ríkisfyrirtæki sem skipta við Landssmiðjuna, hafa hafnað þjónustu þessa fyrirtækis og komið sér sjálf upp hliðstæðri þjónustu á eigin vettvangi. Ég tel að sú röksemd nægi til að fullyrða að rekstur þessa fyrirtækis og þjónusta þess hafi ekki verið nægilega góð og ekki skilað þeim árangri sem skyldi og þess vegna sé eðlilegt að hætta rekstri þar sem upphaflegum markmiðum hafi ekki verið fullnægt, þau hafi einfaldlega ekki náðst, og þá ekki ástæða til þess að vera að reka slík fyrirtæki þegar þau ekki ná tilættuðum markmiðum.

Það segir í nál. minni hl.:

„Frumkvæði að þeim endurbótum á starfsaðstöðu fyrirtækisins, sem stefnt var að með byggingu nýs verkstæðishúss við Skútuvog, áttu stjórnendur og starfsfólk Landssmiðjunnar.“

Þetta er mjög loðin setning og loðnast í henni er orðið „stjórnendur“. Það er vitað mál að iðnrn. átti mjög stóran hlut að máli á sínum tíma að áætlunum og byggingu hússins við Skútuvog. Var þar oft gengið gegn áliti ráðgjafa um stærð og umfang þess rekstrar vegna þess að menn sáu í hillingum mikla framtíð í skipasmíðum sem átti sér afskaplega litla stoð í veruleikanum.

Í skýrslu iðnrh., sem fylgir með minnihlutaálitinu, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Rekstur Landssmiðjunnar gekk sæmilega á árinu 1983 og var hagnaður af starfseminni 4 millj. kr., samanborið við 220 þús. kr. hagnað 1982.“

Síðan kemur önnur setning og þar segir, með leyfi forseta:

„Það skal þó tekið fram, að vaxtakostnaður vegna nýbyggingar er ekki færður á rekstur, heldur sem hluti af kostnaði við nýbygginguna. En fjármagnskostnaður vegna nýbyggingarinnar nam um 18.5 millj. kr. á árinu og er þar bæði um að ræða vaxtakostnað og uppfærslu á lánum. Verðbreytingatekjur námu 7.4 millj. kr.“

Ég held að þessi mgr. segi alla söguna. Það er afskaplega lítill vandi fyrir það stóra apparat sem ríkið er að búa til hagstæða stöðu fyrirtækja með bókhaldsleikfimi sem engum öðrum fyrirtækjum leyfist. Þar með er hægt að skapa sér þá vígstöðu sem hentar hverju sinni. Í þessu tilviki er það kosið, einfaldlega vegna þess hve tölurnar eru stórar, að halda kostnaðinum út af nýbyggingunni fyrir utan raunverulegt bókhald þessa fyrirtækis og uppgjör. Þannig verður fyrirtækið í hagnaði sem er mjög mikill miðað við árið á undan.

Fullyrðingar um að ekki sé hægt að koma eignunum í Skútuvogi í verð finnast mér dálítið snemma á ferðinni. Ég held að þar gildi það, sem einhver sagði í nefndinni, ég þori ekki að fara með hver það var, að líklega séu fáar framkvæmdir á Íslandi svo vitlausar að ekki sé hægt að selja þær einhvern tíma á endanum og þar með að fá inn að nokkru leyti fyrir þeim kostnaði sem þar hefur verið útlagður. En það gerir stöðuna að því leyti miklu erfiðari að yfirvöld Reykjavíkurborgar hafa aflagt hugmyndina um skipaverkstöð þarna í voginum, a.m.k. um tíma, og þar af leiðandi hefur þessi framkvæmd ekki sama gildi og ella, en það hefði hún ekki heldur haft ef menn hefðu ætlað sér að halda þessum rekstri áfram. Hún hefði verið jafndauðadæmd þá sem slík og aldrei hægt að sanna að menn hefðu getað náð inn þeim kostnaði sem þá þegar var útlagður.

Menn hafa horft í þessar risatölur um kostnað framkvæmdanna inni í Skútuvogi. Ég kynnti mér málið eilítið þar sem mig undraði líka þessar stóru upphæðir. Ég get upplýst að skv. þeim heimildum sem ég hafði mun framreiknaður kostnaður lóðarinnar til dagsins í dag hafa verð á bilinu 16–18 millj. kr., þ.e. gatnagerðargjöld, byggingarleyfisgjöld, nýbyggingargjald og sérstakt gjald vegna sprenginganna í grunninum, en þar greiddi Landssmiðjan ákveðna upphæð sem dreginn var frá sá hagur sem höfnin reiknaði sér af því að nota þetta grjót í uppfyllingu úti í Örfirisey. Hönnunarkostnaður þessara bygginga, framreiknaður, er um 8 millj. kr. með útboðsgögnum, þ.e. öll framkvæmdin er tilbúin á borðinu með útboðsgögnum ef menn vildu halda henni áfram. Það sem út af stendur í þessum kostnaði er kostnaður við sökkul og grunnplötu byggingarinnar og síðan vaxtakostnaður eða fjármagnskostnaður af þeim peningum sem þarna hafa verið útlagðir.

Ég tel að það sé ekki höfuðatriði í þessu máli, frekar en mjög mörgum öðrum þar sem fjallað er um ríkisrekstur, hvort þessi ríkisrekstur hafi verið hagkvæmur eða ekki. Þó hann sé hagkvæmur skilar hann sjaldnast það miklum tekjum að þær skipti nokkru máli í ríkisbúskapnum. Menn verða því fyrst og fremst að gera upp við sig það grundvallaratriði hvort ríkið eigi að vera að auka umsvif sín, að dreifa starfsorku sinni í að sinna verkum sem einstaklingar geta alveg eins vel sinnt. Ég tel að hlutverk samfélagsins sé fyrst og fremst að taka að sér og fullnægja þeim réttlætishugmyndum sem skynsemi okkar segir að okkur beri skylda til þrátt fyrir að ekki sé hægt að mæla árangurinn á mælikvarða hagkvæmninnar. Þá á ég fyrst og fremst við þau verkefni sem lúta að því að sinna þeim í þessu þjóðfélagi sem versta eiga möguleika á því að sjá fyrir sínum þörfum sjálfir.