05.12.1984
Efri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1609 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Það er aðeins til þess að hér sé ekki um framhaldsnefndarfund í iðnn. að ræða sem ég kem hér upp, en nokkur atriði vöktu athygli mína og ég ætla að greina frá þeim hér.

Það vakti sérstaka athygli mína að hv. 6. landsk. þm. Karl Steinar Guðnason brást þannig við umsögn Félags járniðnaðarmanna um þetta frv., sem er einn helsti rökstuðningurinn sem hv. 4. þm. Vesturl. gerði að sínum, að þegar hann leit þessa umsögn taldi hann að þar væri greinilega um rödd afturhaldsins að ræða. Þá veit maður hvaða álit hann hefur á umsögn verkalýðsfélaga um mál af þessu tagi.

Það vakti líka athygli mína að hv. 5. þm. Vesturl. Davíð Aðalsteinsson sló úr og í um afstöðu til sölu ríkisfyrirtækja. Það er dæmigerð flokksstefna á þeim bæ og ekkert við því að segja. Hins vegar kom mér það á óvart, og er það kannske alveg nýtt á þeim bæ, að ríkið ætti að hafa með höndum þann rekstur sem væri erfiður og kostnaðarsamur, en þar sem arðsvon er og gróðavonin væri skyldu einstaklingar vera. Þannig skildi ég mál hans. (Gripið fram í.) Hæstv. iðnrh., sem þekkir betur innviðina í sinni ríkisstj., mótmælir þessu og segir að þetta sé ekki rétt túlkun og væri betur að svo væri.

Þó fannst mér nú taka steininn úr þegar hv. 8. þm. Reykv. fór að tala um að það væru ekki nægileg rök í nál. hv. 4. þm. Vesturl. Niðurlagningarmál hv. 8. þm. Reykv. í Sþ. segja allt sem þarf um rök með eða móti tillögum um ríkisfyrirtæki.