05.12.1984
Efri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1612 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að staðfesta ummæli hv. 4. þm. Vesturl. Ég fyrirgef honum reyndar þó að hann rugli saman trúarbrögðum og pólitískri sannfæringu. Það er af sögulegum ástæðum sem það gerist. En það er mín pólitíska sannfæring að ríkið hafi öðrum og þarfari verkefnum að sinna en að standa í samkeppni við einkaaðila eða atvinnurekstur um dreifðar byggðir landsins. Ég legg ekki að jöfnu sem mikilvægt í hlutverki ríkisins Fiskifélag Íslands og barnaheimili. Ég legg ekki að jöfnu sem mikilvægt í rekstri ríkisins grunnskóla og Landssmiðjuna. Ég legg ekki að jöfnu sem mikilvægt verkefni fyrir ríkisvaldið spítala eða sjúkrahús og Síldarverksmiðjur ríkisins. Vegna þessarar pólitísku sannfæringar minnar er ég meðmæltur því að ríkið hætti afskiptum af fyrirtækjum eins og Landssmiðjunni.