17.10.1984
Efri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

57. mál, almannatryggingar

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. E.t.v. hefði ég getað sparað mér sporin hingað upp vegna þess að ég á sæti í heilbr.- og trn. Hins vegar þótti mér rétt að segja hér nokkur orð. Ég vil taka undir meginefni þessa frv. og ekki síst þau meginsjónarmið sem liggja til grundvallar frv.

Þau orð féllu hér að þetta væri e.t.v. ekki stórt mál. Ég tel þetta þó að ýmsu leyti grundvallarmál. Að því er vikið í grg. með frv. að heildarendurskoðun tryggingakerfisins standi yfir. Svo langt sem ég man hygg ég að sú endurskoðun hafi staðið yfir. Ég vil taka það fram að ég tel eðlilegt að sniða augljósa hnökra af löggjöf. Einu gildir hvort það er tryggingalöggjöfin eða önnur löggjöf ef það þykir fært. Enda þótt heildarendurskoðun viðkomandi löggjafar kunni að leiða til einhverra kerfisbreytinga þá verða þær gerðar þegar það að kemur.

Hitt er það að varðandi sjúkradagpeninga er grunur minn sá, að þær fjárhæðir sem um er að tefla í því efni séu skammarlega lágar, nánast á ölmusustigi og úr algeru samhengi við það tjón sem einstaklingurinn óhjákvæmilega verður fyrir vegna heilsuleysis þegar við vanheilsu er að stríða.

Ég skal ekkert um það segja hvort nefndin, heilbr.og trn., hefur tök á því að koma fram leiðréttingum á þessu sviði. Ég geri þó fremur ráð fyrir því að nefndin hugi að þessu allt eins og því efnisatriði sem þetta frv. felur í sér, sem þetta frv. fjallar um. Ég hef grun um að fjárhæðir sjúkradagpeninga séu, ef ég má svo að orði komast, eins konar þrætuepli milli aðila innan tryggingakerfisins. Ég vil ekkert fullyrða um þetta en grunur minn er sá.

Ég tek undir meginefni þessa frv. og veit að heilbr.og trn. mun skoða það rækilega.