13.12.1984
Sameinað þing: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

1. mál, fjárlög 1985

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég tek að sjálfsögðu undir alla þá þakkargjörð sem hér hefur verið flutt af bæði hv. formanni fjvn. og hv. frsm. minni hlutans, bæði til minna meðnefndarmanna, hagsýslustarfsfólks alls og annarra þeirra sem unnið hafa að þessu og þá sérstaklega til formanns fjvn., hv. þm. Pálma Jónssonar, enda hans hlutverk ekki öfundsvert í því stjórnarkraðaki sem hann hefur átt aðild að undangengið eitt og hálft ár.

Ég held að það sé við hæfi að fara nú við 2. umr. fjárlaga fyrir árið 1985 örfáum orðum um stöðu atvinnulífsins og efnahagslífsins eins og það blasir við og öllum ætti að vera kunnugt. Það er ljóst, eins og raunar hefur komið fram nú þegar í þessari umr., að stjórnarstefnan hefur leitt til gífurlegra fólksflutninga utan af landsbyggðinni hingað á suðvesturhorn landsins. Ástæðan er sú að á þessu svæði hefur verið gífurleg fjármagnsþensla. Hér hefur uppbyggingin verið á fullu í milliliðastarfseminni, í byggingarstarfseminni. Skipafélögin, flugfélögin og þeir aðilar sem ekki sinna fyrst og fremst grundvallaratvinnugreinunum hafa allir blómgast á sama tíma og höfuðatvinnugreinar landsmanna eru nánast að líða undir lok.

Það hefur átt sér stað stórkostlegur vinnuaflsflutningur frá framleiðslugreinunum í milliliðastarfsemina og þjónustugreinarnar og ekki á það hvað síst við um bankakerfið í landinu. Kjaraskerðing hefur orðið meiri á þessu tímabili en nokkurn tíma um getur um áratuga skeið. Verðbólgan er á hraðri uppleið. Útgerð og fiskvinnsla hafa víða stöðvast og eru enn víðar að stöðvast. Atvinnuleysi blasir við í undirstöðuatvinnugreinum landsmanna á sama tíma og það blómgast öll milliliðastarfsemi, eins og ég benti á áðan.

Öll sú uppbygging eða meginparturinn af henni og öll sú spenna sem hér er að því er varðar fjármagn á þeim landshluta sem við nú erum á er fjármögnuð með erlendum lántökum. Það er ljóst, þegar nú er verið að ræða við 2. umr. fjárlög fyrir árið 1985, að það blasir við neyðarástand á hundruðum alþýðuheimila í þessu landi. Hin dauða hönd stjórnarstefnu íhalds og framsóknar leggst með æ meiri þunga á undirstöðuatvinnugreinar landsmanna og kreistir lífsmarkið úr þeim og því fólki sem við þær vinnur. Sú stefna veldur gífurlegum búsifjum þeim byggðarlögum og landshlutum sem byggja svo til einvörðungu allt mannlíf á auðæfum úr hafinu. Þessi mynd blasir við öllu fólki sem hana vill sjá nú þegar er verið að leggja síðustu hönd á fjárlög ársins 1985.

Eins og hér var vikið að af hv. þm. Geir Gunnarssyni var ein meginuppistaðan í málflutningi núverandi stjórnarliða við fjárlagagerð fyrir árið 1984 sú að þá væri verið að afgreiða raunhæfustu fjárlög sem gerð hefðu verið nánast allt frá upphafi. Það hefur líka komið fram að ekki var liðinn langur tími frá því að þessar fullyrðingar voru fram settar af meiri hl. hér á Alþingi þegar ljóst varð að það vantaði í fjárlög fyrir árið 1984 2.2 milljarða sem voru vantalin útgjöld við fjárlagagerðina. Þetta var stjórnarandstaðan margbúin að benda á, en því var frá vísað af hálfu stjórnarliða og talið hjóm eitt. Af þessu vantaði um 1900 millj. kr. vegna rekstrarhalla ríkissjóðs á árinu 1984. Heildarvöntun í fjárlagadæmið reyndist vera um 2.7 milljarðar á yfirstandandi ári og var það leyst með nýjum erlendum lántökum upp á röska 2 milljarða, þar af um 1200 millj. til ríkissjóðs sjálfs. Þannig fór um hina fyrstu sjóferð núv. hæstv. ríkisstj. að því er varðaði fjárlagagerðina og ríkisfjármálin fyrir árið 1984.

Hæstv. núv. forsrh. sagði undir lok stjórnartíma fyrrv. ríkisstj. að sú ríkisstj. hefði haldið atvinnuvegum landsmanna gangandi með lánum frá erlendum aðilum. Ég held það megi segja slíkt hið sama um núv. hæstv. ríkisstj. Það eru erlend lán sem fyrst og fremst halda ríkisbúskapnum á floti.

Það er athyglisvert, þegar við ræðum þessi mál, að innflutningur hefur numið um 5 milljörðum kr. meira en fjárlög gerðu ráð fyrir 1984, 5 milljörðum meira eða 15% meira að magni til en gert var ráð fyrir við fjárlagaafgreiðsluna á s.l. hausti. Viðskiptahalli landsmanna er 3500 millj. í stað 100 millj. sem þjóðhagsspá gerði ráð fyrir yfir sama tímabil. Hér er um gífurlega miklar upphæðir að ræða og nánast ótrúlegt hvað Þjóðhagsstofnun skeikar í spádómum að því er þessa hluti varðar og eru þó þar taldir, og skal enga dul á það draga eða úr því draga, mjög vel hæfir starfsmenn hver á sínu sviði. Eigi að síður er staðreyndin að það er 3500 millj. kr. viðskiptahalli á árinu í ár í staðinn fyrir 100 millj. kr. spá hjá Þjóðhagsstofnun.

Þá er rétt að koma hér að því að það hefur lengi verið gagnrýnt, nánast af hverri þeirri stjórnarandstöðu sem verið hefur hér á Alþingi nokkuð mörg ár a.m.k., að lánsfjáráætlun skuli ekki liggja fyrir samhliða umfjöllun um fjárlagagerð. Í aths. með núv. fjárlagafrv. fyrir árið 1985 segir á bls. 217, með leyfi forseta:

„Fjallað verður um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun á Alþingi samhliða fjárlagafrv., en það er forsenda þess að unnt sé að móta heildarstefnu í peningamálum og fjármálum hins opinbera.“

Ef við tökum þetta út úr og trúum grg. fjárlagafrv. fyrir árið 1985 er þetta eitt, að um lánsfjáráætlun sé fjallað samhliða fjárlagagerðinni, grundvöllur þess að unnt sé að móta heildarstefnu í peningamálum og fjármálum hins opinbera. Sé þessu ekki framfylgt er um tómt mál að tala að móta heilsteypta stefnu í peningamálum. Nú blasir það við, þegar við horfum til þess að lánsfjáráætlun hefur ekki verið lögð fram og Alþingi ekkert um hana fjallað, að skv. eigin orðum þeirra sem skrifa grg. þessa fjárlagafrv. er nánast um pappírsgagn að ræða. A.m.k. er enga heildarstefnu hægt að móta í fjármálum ríkisins vegna þess að lánsfjáráætlun liggur ekki fyrir.

Nú er ekkert nýtt að þetta gerist. Þetta hefur gerst hjá mörgum stjórnum. En ég dreg í efa að lánsfjáráætlun hafi nokkurn tíma verið jafnseint á ferð og nú. Um það vil ég ekki fullyrða, en dreg mjög í efa að svo hafi verið. En með því að hún er ekki til umfjöllunar samhliða fjárlagafrv. segir ríkisstj. sjálf að hér verði ekki mótuð heildarstefna í peningamálum fyrir árið 1985 vegna þess að þarna skortir þetta á. Við skulum trúa því að ríkisstj. hafi meint þetta.

Það hefur einnig komið fram hér, en verður þó ekki nægilega oft undirstrikað, að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1984 og nú er aðhaldi og niðurskurði fyrst og fremst beitt gagnvart framlögum til félagslegra framkvæmda. Sú ákvörðun bitnar ekki hvað síst á landsbyggðinni og er hluti af þeirri ógnun sem markaðs- og frjálshyggjustefna ríkisstjórnarflokkanna er við jafnvægi í byggð landsins.

Þó að rakin hafi verið sú niðurskurðarpólitík sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir að því er þessa þætti varðar vil ég ítreka þann þátt málsins. Framlög til dagvistarheimila voru um fimmtungi hærri að raungildi árið 1983 en nú er stefnt að við afgreiðslu fjárlaga. Framlög til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva voru um þriðjungi hærri að raungildi árið 1983 en nú er gert ráð fyrir og framlög til hafnarframkvæmda ríflega 120% hærri að raungildi en gert er ráð fyrir í því fjárlagafrv. sem við nú erum að ræða fyrir árið 1985. Og hvar skyldi það nú vera sem einna brýnust er þörfin á fjárveitingum í hinum ýmsu málaflokkum? Hún er vissulega víða brýn og það skal undirstrikað, en að framlög til hafnarframkvæmda á árinu 1985 skuli að raungildi vera um 120% lægri en þau voru 1983 er auðvitað hneyksli. Það er hneyksli að slíkt skuli gert, vitandi hversu gífurleg þörf er á því að byggja upp aðstöðu fyrir fiskiskipaflotann fyrst og fremst sem allt annað byggist á í þjóðfélaginu.

Þessu er hins vegar á annan veg farið með fjármunina þegar rekstrarútgjöld eru ákvörðuð. Við síðustu fjárlagaafgreiðslu voru m.a. útgjöld til aðalskrifstofu ráðuneytanna færð til samræmis við niðurstöður ríkisreikninga undangenginna ára. Átti það að veita betra færi til aðhalds. Reynslan gagnvart þessum rekstrarútgjöldum er þó sú að framlög til aðalskrifstofa og ráðuneyta, Hagstofu Íslands, ríkisendurskoðunar og fjárlaga- og hagsýslustofnunar hækka um allt að 35.5% að meðaltali, um 10.1% að raungildi. Heildarútgjöld til þessara rekstrarliða hækka um 256.9 millj. í 321.1 eða um 35 millj. kr. að raungildi. Raungildishækkunin nemur ámóta hárri upphæð og ríkissjóður veitir til allra dagvistarheimila í landinu á næsta ári. Þarna er ekki um sams konar aðferð að ræða til aðhalds, sparnaðar og niðurskurðar og gætir gagnvart hinum þáttunum sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni.

Nú skal það viðurkennt fúslega að að því er þennan þátt varðar, rn. og annað slíkt, eru ýmsir vankantar á slíkum niðurskurði í einu vetfangi. Til þess þyrfti aðlögunartíma og nánast „sólarlagsákvæði“ til aðhalds í þessum efnum. En það á að gera þá. Það getur ekki gengið til lengdar a.m.k. á sama tíma og framlög til hinna ýmsu brýnu framkvæmda og málaflokka, dagvistunar, sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva, hafnarframkvæmda, flugvallabygginga og annars, eru skorin við trog ár eftir ár að ríkisgeirinn sjálfur taki til sín alltaf meira og meira af fjármagni, þveröfugt við það sem hann ætlar öðrum við að búa.

Eins og hv. þm. sjálfsagt muna var gert ráð fyrir því af hálfu hæstv. ríkisstj. að samdráttur yrði 2.5% á launaliðum og 5% á rekstrarliðum. Það er þó ljóst að þrátt fyrir þessi fyrirheit hefur þetta ekki tekist. Upplýsingar, sem lagðar hafa verið fram í fjvn., benda til að launaútgjöld ríkisspítalanna verði á þessu ári ekki 2.5% lægri en orðið hefði án sparnaðarmarkmiðanna, heldur 3–4% hærri og rekstrarútgjöld verði ekki 5% lægri, eins og gert var ráð fyrir, heldur um 8% hærri. Hér getur munað um 65 millj. kr. sem vissulega hefðu verið vel þegnar í ýmsa framkvæmdaliði sem naumt er skammtað til við afgreiðslu þess frv. sem við nú erum að ræða.

Ég tek undir með hv. þm. Pálma Jónssyni, formanni fjvn., að naumt er gefið á garða víða. En það á ekki við alls staðar. Það eru sumir, sem hafa fengið ríflega gefið, sem að mínu viti eru þess ekkert verðugri en ýmsir aðrir sem hafa leitað á náðir fjvn. og ríkisins til að fá leiðréttingu sinna mála.

Í samræmi við það sem sagt hefur verið um einstaka rekstrarliði sýna reikningar fyrri ára og áætlanir fyrir næsta ár að almenn rekstrarútgjöld eru í heild skv. fjárlagafrv. fyrir árið 1985 11% hærri að raungildi en á árinu 1983. Þessi útgjöld hækka úr 1572 millj. kr. 1983 í 1743 1985, hvort tveggja reiknað á meðalverðlagi 1983. Þrátt fyrir samdrátt í þjóðarframleiðslu, niðurskurð framlaga til verklegra framkvæmda og fjórðungs niðurskurð á verðgildi launa ríkisstarfsmanna hafa heildarútgjöld ríkissjóðs ekki dregist saman að raungildi og verða á næsta ári meiri en á nokkru öðru ári að undanskildu árinu 1983. Þetta er ekki alveg í takt við þær ákvarðanir og þær fyrirskipanir sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið út öðrum aðilum í þjóðfélaginu til eftirbreytni. Ég a.m.k. fullyrði að með alþýðuheimilin í landinu hefur verið farið öðruvísi og á annan veg en hér er gert að því er varðar ríkissjóðsdæmið sjálft.

Nú er áætlað að heildarútgjöld ríkissjóðs nemi skv. nýjum verðlagsforsendum fyrir árið 1985 og að framlögðum þeim brtt. sem fjvn. hefur lagt fram fyrir 2. umr. um 25.5 milljörðum kr. og aukist um 29% frá raunútgjöldum á árinu 1984 á sama tíma og launaútgjöld og almennur rekstrarkostnaður eru talinn hækka um 24%. Ríkisstj. tekur til sín sem svarar 29% hækkun milli ára á sama tíma og hún ætlar öðrum, þ. á m. heimilunum í landinu, að búa við 24% hækkun.

Það hefði verið miklu þekkilegra og almennt betur við það unað hefði nú hæstv. ríkisstj. látið í þessum þætti jafnt yfir alla ganga en ekki tekið alltaf meira til sín, spennt bogann sín megin og seilst dýpra í vasa skattborgara þessa lands á sama tíma og með öðrum ráðstöfunum og á öðrum sviðum eru skert kjör almennings í landinu. En það er í þessu sem og mörgu öðru að það fer ekki alltaf saman það sem hæstv. ráðh., hæstv. ríkisstj. og meiri hl. hér á Alþingi ætlar öðrum við að búa og það sem þeir vilja sjálfir taka til sín og búa að. Hækkun heildarútgjalda ríkissjóðs á næsta ári umfram almenna verðhækkun jafngildir um 1200 millj. kr., sem er um þrefalt hærri upphæð en áætlað er að verja til byggingar grunnskóla, hafnarframkvæmda, dagvistarheimila, íþróttamannvirkja, sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva á árinu 1985. Hér er um að ræða 1200 millj. sem hæstv. fjmrh. og ríkisstj. öll, meiri hl. hér á Alþingi, ætla sér að taka til ríkisins umfram almennar verðlagshækkanir sem þeir ætla öðrum við að búa. Og þessar 1200 millj., sem þeir ætla að taka með þessum hætti umfram alla aðra, jafngilda svo til allri upphæð sem ætluð er til framkvæmdaflokkanna sem hér voru upptaldir, sem eru þó að verulegu leyti meginuppistaðan í beiðnum hinna ýmsu sveitarstjórnarmanna, sveitarfélaga vítt og breitt um landið og teljast hvað brýnust í uppbyggingu úti á landsbyggðinni.

Það er rétt að minna á það líka í þessu að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1984, þ.e. yfirstandandi ár, var það sérstaklega tekið fram og margundirstrikað og ítrekað af málsvörum ríkisstj. hér á Alþingi að meginstefna ríkisstj. væri í fyrsta lagi að láta minnkandi þjóðartekjur nægja fyrir útgjöldum. Því hefur verið lýst hér hvort það stefnumið hefur náð fram að ganga. Það er síður en svo.

Í öðru lagi átti að hætta eyðsluskuldasöfnun erlendis. Hefur það verið gert? Ekki aldeilis. Meginuppbyggingin sem verið hefur á þessu svæði undangengna mánuði er fyrir erlenda fjármuni. Erlendar lántökur hafa verið látnar fjármagna þessa uppbyggingu, sem hér er, á sama tíma og sjávarútvegi, sem er grundvallaratvinnugrein landsmanna, liggur nánast öllum við gjaldþroti.

Í þriðja lagi átti að ná jöfnuði í viðskiptum og þjónustu við útlönd. Er það ekki í lagi? Ekki aldeilis. Það hefur trúlega sjaldnast verið meiri halli á viðskiptum við útlönd en einmitt nú.

Ekkert af þessum þremur markmiðum hæstv. ríkisstj. við afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári, fyrir árið 1984, hefur því náð fram að ganga eða staðist. Þau eru öll hrunin sem spilaborg að því er þetta varðar. Og enn er ljóst við afgreiðslu þess frv. væntanlegra fjárlaga fyrir næsta ár sem við nú ræðum hér, að þar er stefnt að því að afgreiða fjárlög með verulegum halla þannig að enn blasir þessi mynd við okkur og ekkert skýrari að því er varðar jákvæðan árangur, sem menn eru að tala um, en áður var.

Heildarútgjöld ríkissjóðs hafa aldrei verið hærri að raungildi en þau eru áætluð á næsta ári. Á sama tíma og þjóðarframleiðsla hefur dregist saman um 1% á árinu 1984, en það jafngildir um 670 millj. kr., hafa erlend lán aukist um 3 milljarða 55 millj. kr. eða 4.5 sinnum meira en nemur samdrætti í þjóðarframleiðslu. Ekki er útlitið gott. Ég sé það á hv. formanni fjvn. að honum hrýs hugur við áframhaldi á sömu braut. Erlendar lántökur ríkissjóðs voru í fjárl. 1984 áætlaðar 1 milljarður 653 millj. kr. Vanáætlun útgjalda á fjárlögum var á s.l. vori mætt með stórfelldum nýjum erlendum lántökum og erlendar lántökur ríkissjóðs á næsta ári eru í fjárlagafrv. áætlaðar 2.6 milljarðar kr. Skv. framsetningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á lántökum ríkissjóðs 1984 og 1985 á sama grundvelli bæði árin hækka erlendar lántökur ríkissjóðs um 75.9% á næsta ári. Svo eru menn að tala um hámark, 60% viðmiðun, sem að vísu er löngu hætt að minnast á af þeim sem það hafa mest gert. Það er því ljóst, þó að miklu fleiri orðum mætti um þetta fara, að nú stefna stjórnarflokkarnir að því að afgreiða fjárlög fyrir næsta ár með 600–700 millj. kr. rekstrarhalla á ríkissjóði og auknum erlendum lántökum. Það er sú staðreynd sem menn nú standa frammi fyrir undir lok ársins og þegar verið er að ganga frá fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1985.

Viðskiptahalli verður, eins og áður hefur verið sagt, um 3.5 milljarðar á þessu ári í stað 100 millj. kr. í þjóðhagsspá. Það er því ljóst að fyrir árið 1985 sjáum við enn eina staðfestinguna á skipbroti stjórnarstefnunnar og hún blasir við hvarvetna í þjóðfélaginu.

Ég vil auk þessa fara örfáum orðum um nokkra aðra þætti fjárlagafrv. Það er alveg ljóst, og ég hygg að það dyljist engum að því er varðar t.d. húsnæðismálaþáttinn, að inn í það dæmi vantar a.m.k. 11/2 milljarð á næsta ári sem ekki verður betur séð en hæstv. ríkisstj. ætli sér að taka að láni innanlands. Um þetta hefur að vísu ekki neitt sést skjallegt frá hæstv. ríkisstj. því að lánsfjáráætlun er ekki enn fram komin, þannig að menn vita ekki hvað þarna er verið um að tala stórar upphæðir í lántöku innanlands eða annars staðar frá, en ég hygg að það sé mikil bjartsýni og nær óraunsæi ef hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir að hún fái verulegt fjármagn inn í húsnæðismálakerfið á næsta ári að láni á innlendum markaði. Ef ég man rétt var gert ráð fyrir í lánsfjáráætlun yfirstandandi árs að það fengjust að láni frá lífeyrissjóðunum einhvers staðar á milli 500 og 600 millj. kr. í húsnæðismálakerfið. Af þessum 500–600 millj. hafa aðeins fengist 276 millj. núna, komið undir miðjan des., þannig að það er augljóst að þarna var langtum of reiknað með mögulegum lántökum hjá lífeyrissjóðunum á þessu ári. Einhvers staðar var hvíslað í eyra mitt að hæstv. ríkisstj. gerði ráð fyrir að fá um 1100 millj. að láni frá lífeyrissjóðunum á árinu 1985 í húsnæðismálakerfið. Ég trúi því ekki að það sé nokkur hæstv. ráðh. svo blindur að hann geri ráð fyrir að þetta geti gerst. 500–600 millj. voru í lánsfjáráætlun í ár. Aðeins 270 af þeim koma til með að skila sér. Það hefur ekkert það gerst enn og ég sé ekki neitt í farvatninu sem kemur til með að breyta að því er þetta varðar á þann veg að þarna fáist verulega meira fjármagn á næsta ári úr þeirri átt, þannig að 1100 millj. kr. eru gersamlega út í hött.

Og þá kemur að hæstv. fjmrh. Það hefur verið mikið talað um að það ætti að lækka tekjuskatt einstaklinga um 600 millj. kr. Þessi ákvörðun er fram komin vegna áralangrar baráttu Alþfl. fyrir afnámi tekjuskatts af launatekjum í áföngum. Þetta var samþykkt á síðasta þingi eftir að þeir sjálfstæðismenn höfðu mannað sig upp í að þora að hafa skoðun hér á Alþingi á því máli, sem þeir höfðu á orði vítt og breitt um landið fyrir síðustu kosningar og oft áður. En í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 600 millj. kr. lækkun tekjuskatts. Nú vita allir sem vilja vita að söluskatturinn er eitt gatasigti frá upphafi til enda. Þar renna ótaldar milljónir ef ekki milljarðar í gegn án þess að það skili sér til ríkissjóðs, þess aðila sem á að fá það í hendur.

Það gerðist hér á Alþingi 13. nóv.s.l., og nú bið ég hæstv. fjmrh. allra vinsamlegast að hlusta, þegar var rætt um fsp. frá hv. þm. Gunnari G. Schram um afnám tekjuskatts af almennum launatekjum, að nokkur orðaskipti urðu milli mín og hæstv. fjmrh. þar sem ég gekk í skrokk á hæstv. ráðh. og vildi fá hans yfirlýsingu um hvort hér væri um að ræða hreina lækkun á tekjuskatti sem ekki yrði mætt með öðrum skattahækkunum eins og gefið er í skyn í fjárlagafrv. Hæstv. fjmrh. sagði þá, og nú bið ég menn að hlusta, með leyfi hæstv. forseta:

„Að gefnu tilefni“, segir hæstv. ráðh., „vil ég taka það fram að ég hef þegar látið gera svokallað módel að þessari umræddu skattalækkun upp á 600 millj. og í þeirri hugsmíð er ekki gert ráð fyrir að um tilfærslu skatta verði að ræða frá beinum sköttum yfir í söluskatt. Ég mun beita mér af alefli fyrir því að þessar 600 millj. verði skattalækkun, eins og dæmið hefur verið hugsað, en ekki tilfærsla á sköttum, eins og talað hefur verið um.“ Hér tekur hæstv. ráðh. af öll tvímæli um að hér eigi að vera um 600 millj. kr. hreina skattalækkun að ræða, engar tilfærslur á sköttum. Nú veit ég ekki betur en búið sé að ákveða, ekki er nú held ég búið að samþykkja það hér á Alþingi, hækkun á söluskatti um 0.5% , þannig að mér sýnist annars vegar yfirlýsing hæstv. ráðh. um að hér verði um hreina lækkun að ræða og síðan hækkun á söluskatti stangast á. Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðh. stæði við fyrri yfirlýsinguna um að 600 millj. verði hrein tekjuskattslækkun, en falli frá hinni um hækkun á söluskatti. (Fjmrh.: Líka endurgreiðslur til sjómanna?) Endurgreiðslur til sjómanna, segir hæstv. fjmrh. úr hliðarsal. Ég veit ekki til þess að þrátt fyrir gefnar yfirlýsingar ríkisstj. um að endurgreiða til sjávarútvegsins af uppsöfnuðum söluskatti hafi verið ætlaður til þess eyrir í fjárlagafrv., ekki eyrir, ekki það ég best veit. En það á sjálfsagt eftir að koma til umr.

Enn vil ég koma inn á eitt mál. Nú þarf ekki á það að minna að það er yfirlýst stefna hæstv. ríkisstj., ekki síst hæstv. fjmrh. og iðnaðar- og orkuráðh., að ríkið losi sig út úr atvinnurekstri, selji fyrirtæki. Eigi að síður er gert ráð fyrir í fjárlagafrv. að ríkissjóður auki hlutafé í nokkrum fyrirtækjum, þ. á m. Áburðarverksmiðjunni og Steinullarverksmiðjunni. Hér er á ferðinni enn eitt dæmið um hvað hér stangast á yfirlýst stefna hæstv. ríkisstj. og framkvæmdin. Í þessum þætti eins og svo mörgum öðrum held ég að stefnan hafi misst marks, það hefur a.m.k. verið slegið af, kannske í bili, en eigi að síður hefur stefnan beðið algert skipbrot á mörgum sviðum.

Ég veit ekki hversu mikið ég á að fara inn á ýmsa aðra þætti. Það eru þó kannske nokkur atriði sem ástæða er til að víkja örfáum orðum að. Ef við skoðum fjárlagafrv. eins og það var fram lagt og höfum til hliðsjónar lántökurnar hinum megin, sem taka á á næsta ári, er nokkuð ljóst að öll upphæðin til niðurgreiðslu á landbúnaðarvörum er fengin að láni. Öll æðri menntun og vísindastarfsemi er fjármögnuð með lánum. Allt samgöngukerfið er rekið með láni. Allir þessir þrír stóru liðir og raunar mætti bæta fleirum við verða reknir með lánsfé af hálfu hæstv. ríkisstj. á næsta ári. Ég sé ekki betur en lántökuupphæðirnar í A-hluta frv. samsvari samanlögðum tollgjöldum ríkissjóðs á næsta ári. Og vextir af öllum þessum lánum svara til upphæða sem nægðu til að reka allt vegakerfið í landinu. Þannig er nú íslenskt þjóðarbú komið, ekki bara vegna stjórnarstefnu hæstv. núv. ríkisstj. heldur ekkert síður vegna stjórnarstefnu fyrrv. hæstv. ríkisstj. því að hún á fullan þátt í því hvernig komið er í þjóðarbúinu.

Ég geri ráð fyrir að það hafi vakið athygli fleiri þm. en mín við yfirlestur frv., og þó sérstaklega greinargerðarinnar, að þar er gert ráð fyrir, eins og raunar oft áður, skerðingu hinna ýmsu lögbundnu framlaga til sjóða. Mér sýnist að hér sé um að ræða skerðingu á 21 sjóði sem skv. lögum ber að veita fjármagn til eins og viðkomandi lög segja, en eru skertir með bandormi sem væntanlega á eftir að sjá dagsins ljós áður en fjárlög verða afgreidd. Þetta sýnir bara óraunhæfni fjárlagagerðarinnar. Er vitlegt að vera með í gildi löggjöf sem kannske er ekki virt ár eftir ár? Er ekki nær að endurskoða þessi vinnubrögð og færa þá löggjöfina til samræmis við það sem hægt er að gera en ekki skerða sömu sjóðina ár eftir ár með endalausum bandormslögum hér á Alþingi vegna þess að viðkomandi ríkisstj. telur sig ekki geta staðið við löggjöf að því er varðar fjárveitingu til hinna ýmsu sjóða?

Í fjárlagafrv. má lesa undir liðnum Jarðeignir ríkisins framlög upp á 4 millj. 905 þús. Við þetta hefur bæst í meðförum fjvn. 1.2 millj. kr. Þetta er vegna jarðeigna ríkisins og ríkið er trúlega langstærsti jarðeigandi í landinu. Hér er um að ræða fjárveitingu af hálfu ríkisins til þessa þáttar upp á 6 millj. 105 þús. Þarna mun vera um að ræða 1000 jarðir sem ríkið á og þarf að leggja til 6 millj. 105 þús. Á móti þessu koma til baka 900 þús. kr., á móti 6.1 millj. af 1000 jörðum, þ.e. ríkið leggur til rösklega 5 millj. til þessara eigna sinna án þess að fá nokkuð upp í slíkt.

Ég held að það sé nauðsynlegt með þennan þátt eins og svo marga aðra að fara betur ofan í saumanna, endurskoða og endurskipuleggja. Það er ekkert vit í því að ríkið sé með þessum hætti að borga margar milljónir án þess að viðkomandi aðilar, sem á jörðunum eru og þær reka, skili ríkissjóði þokkalegum afgjöldum þannig að þetta verði þó a.m.k. léttari baggi á ríkinu.

Þá vil ég vekja athygli á, þó að það mál sé ekki útrætt af hálfu fjvn., vinnumálaþættinum undir félmrn., en eins og fjárlagafrv. er lagt fram er gert ráð fyrir að strika út fjárveitingar til hinna ýmsu þátta verkalýðshreyfingarinnar sem nema um 6 millj. 70 þús. kr. Gert er ráð fyrir að hætta að veita fjármuni til ýmissa þátta sem verkalýðshreyfingin hefur á undanförnum árum fengið fé til á fjárlögum og var hluti af samkomulagi sem verkalýðshreyfingin gerði við ríkisstjórnina 1979 eða 1980, svokölluðum félagsmálapakka. En með frv. eins og það er lagt fram er gert ráð fyrir að höggva á þá samtengingu sem þar náðist og þann samning þó óformlegur hafi verið.

Ég vil vekja athygli hv. þm. á því hvað hér er um að ræða. Það er í fyrsta lagi varðandi orlofsheimili verkalýðssamtakanna. Byggingarstyrkir hafa verið veittir til hinna fjölmörgu staða á landinu þar sem hreyfingin hefur verið að koma upp sumarbúðaaðstöðu fyrir sitt félagsfólk og ekki mun vera vanþörf á, eftir þær upplýsingar sem fram hafa komið, ekki síst frá hæstv. félmrh. hér í gær, um þá atvinnusjúkdóma sem þegar eru orðnir og verða kannske í vaxandi mæli hjá einstaklingum sem þarna eiga hlut að máli. Á fjárlögum ársins í ár voru þarna um 3 millj. 280 þús. Ekkert í fjárlagafrv. nú, ekki eyrir. Orlofsheimili BSRB: Á fjárlögum ársins í ár voru þar 1240 þús., en ekki eyrir í því fjárlagafrv. sem við nú ræðum. Iðnnemasamband Íslands, sem hefur verið styrkt lítillega í þrengingum þess, var með 50 þús. kr. fjárveitingu í ár, en ekki eyri í fjárlagafrv. Alþýðusamband Íslands vegna orlofsmála var með 270 þús. á fjárlögum í ár, ekkert í fjárlagafrv. Og Alþýðusamband Íslands vegna Norræna verkalýðsskólans í Genf var með 60 þús. á fjárlögum í ár, ekkert nú. Fræðslumál BSRB fengu 540 þús. á fjárlögum í ár, ekkert í fjárlagafrv. Og fræðslumál BHM, sem voru með 80 þús., fá ekkert nú. Fræðslumál annarra aðila, sem voru með 100 þús. kr. fjárveitingu á fjárlögum ársins í ár, fá ekkert. Upplýsingastarfsemi um kjaramál — ekki mun af veita að fá frekari upplýsingar um með hvaða hætti þeim málum hefur verið fyrir komið og hvað þar sé að sem fyrst og fremst þurfi að færa í betra form og bæta — fékk 150 þús. kr. á fjárlögum ársins í ár, en fær ekkert í fjárlagafrv. Þátttaka í erlendu vinnumálasamstarfi, sem er orðið þó nokkuð um og fer vaxandi og var með 300 þús. kr. fjárveitingu á fjárlögum ársins í ár, er ekki í frv.

Hér er um að ræða, eins og ég sagði áðan, rúmlega 6 millj. kr. sem eru teknar af verkalýðshreyfingunni og hinum ýmsu samtökum henni tengdri sem fengið hafa fjárveitingar undangengin ár, fjárveitingar sem voru hluti af samkomulagi í kjarasamningum og þar með félagsmálapakki, en á nú að svíkja um.

Það er rétt að hafa í huga í leiðinni og benda á öðrum til glöggvunar að svipað átti sér stað 1979 varðandi bændastéttina þegar lög voru sett um afleysingaþjónustu í sveitum. Ekkert er nema gott eitt um þá löggjöf að segja, en á sama tíma og verkalýðshreyfingin, sem gerði samkomulag á þessum tíma við þáv. ríkisstj., er svikin í fjárveitingum er þó bætt við á hinum liðnum, til afleysingaþjónustu í sveitum, ef ég man rétt níu starfsmönnum til að fullnægja því sem löggjafinn hafði lofað. Mér sýnist því að hæstv. ríkisstj. líti það ekki sömu augum hvort í hlut eigi bændur, sem alls góðs eru verðir, eða hvort í hlut eiga hinir almennu launþegar í fiskvinnslu, verkamenn, sjómenn eða aðrir. Þetta bið ég hæstv. fjmrh. allra vinsamlegast að hugleiða og formann fjvn., sem ég veit af persónulegum kynnum að er mjög sanngjarn, heiðarlegur, réttsýnn og vel gerður maður, ég bið hann að taka slíkt til gaumgæfilegrar athugunar með jákvæðu hugarfari.

Í síðasta lagi vil ég fara örfáum orðum um þátt sem ég — ja, ég veit ekki hvort nota má þau orð hér öllu lengur — lít mjög alvarlegum augum, en það er orkujöfnunargjaldið svokallaða. Það urðu að vísu nokkrar umr. í fyrradag við hæstv. iðnrh. þar um, en ekki mun veita af að knýja á enn frekar ef einhverjum árangri á þar að ná.

Eins og hv. þm. öllum er kunnugt er í gildi löggjöf um að veita sem nemur 1.5 söluskattsstigi til jöfnunar húshitunar í landinu. Það er staðreynd að andvirði þessa gjalds hefur ekki verið skilað til réttra aðila. Ríkisstj., bæði sú sem nú er og sú sem fyrir var, tóku ófrjálsri hendi fjármuni af þessum skattpeningum til þess að láta í aðra þætti en þeir áttu að fara til samkvæmt lögum. Nú er það svo að þetta 1.5% söluskattsstig mun gefa 750 millj. á árinu 1985 sem allar eiga að fara til lækkunar og jöfnunar á húshitunarkostnaði. Það verður ekki annað séð á frv. hæstv. ríkisstj. en að hún ætli sér einungis að láta 250 millj. af þessu. Hæstv. ríkisstj. ætlar sem sagt að taka ófrjálsri hendi-menn geta notað annað orð sterkara ef þeir vilja — um 500 millj. af því fjármagni sem á að fara til að lækka húshitunarkostnað og jafna. Það á að fara í annað, sjálfsagt ríkishítina sjálfa, vera örlítil uppfylling upp í gatið.

Ég hlýt að mótmæla harðlega þessari meðferð af hálfu hæstv. ríkisstj. og krefjast þess að staðið verði við að skila því fólki, sem ber þyngstar byrðar og er að sligast undan gífurlegum kostnaði við upphitun íbúðarhúsnæðis, fjármagni sem kemur inn vegna þessa gjalds, eins og það á rétt á. Það er m.a. sjálft búið að borga hluta í þessari skattlagningu. Ég vil ekki trúa því fyrr en ég tek á því að hæstv. iðnrh., sá gjörvulegi, sjái ekki svo um að öllum þessum fjármunum verði skilað til jöfnunar og lækkunar á húshitunarkostnaðinum. Um þetta verða að sjálfsögðu fluttar brtt. miðað við það sem frv. gerir ráð fyrir, nema hæstv. iðnrh., ég tala nú ekki um hæstv. fjmrh. sem er enn virðulegri oft, sæi sér nú fært að lýsa því yfir að þessir peningar færu á þann stað sem lögin gera ráð fyrir að þeir eigi að fara.

Herra forseti. Ég er trúlega orðinn allt of langorður. Ég ætlaði ekki að tala svo lengi, en þar sem ég kem sjaldan hér í ræðustól líðst mér kannske að segja örfá orð til viðbótar.

Á þskj. 300 flytur þingflokkur Alþfl. allur eins og hann leggur sig brtt. við fjárlagafrv. Ég skal reyna að hafa ekki mjög langt mál um þær, en hér er um að ræða tilfærslu. Fyrst og fremst er um að ræða að við viljum ná inn meira fjármagni fyrir hæstv. fjmrh. til að spila út til hinnar ýmsu brýnu og nauðsynlegu starfsemi, en fella niður suma þá þætti sem við teljum óþarfa í ljósi þeirrar stefnu sem Alþfl. hefur boðað og haldið uppi merki fyrir mörg undanfarin ár að því er varðar landbúnaðinn og stjórnvöld eru sem betur fer í æ ríkara mæli að taka tillit til og mið af.

Á þskj. 300, sem brtt. eru á, er lagt til að við 3. gr., varðandi eignarskattinn, komi nýr liður sem er eignarskattsauki. Ég á ekki von á að það þurfi að hafa mörg orð til að kynna það fyrir hv. þm. hvað hér er um að ræða. Það hefur verið flutt till. til þál. um stighækkandi eignarskattsauka til tveggja ára af þm. Alþfl. til þess gert að ná til fjármagns sem vitað er að er til í þjóðfélaginu, til hjá þeim einstaklingum sem hagnast hafa á verðbólgubáli undangenginna ára og hafa tekið þannig til sín fjármagn óverðskuldað. Við gerum till. um að á þessa einstaklinga verði lagður eignarskattsauki sem varið verði til að hjálpa því fólki sem nú er að berjast í bökkum ef ekki gefast upp við að koma yfir sig húsnæði eða að halda húsnæði sem það hefur með einhverjum hætti getað komið yfir sig. Hér er um 1 milljarð að ræða. Við viljum þannig auka skattlagningu á þeim sem vel eru stæðir, vel geta það borið, hafa fengið fjármagnið í verðbólgufaraldri undanfarinna ára, hvort sem menn segja að það sé með réttu eða röngu, það verða menn að meta. Þannig viljum við ná af þeim aðilum í þjóðfélaginu fjármagni, sem geta vel látið það af hendi, og veita því til láglaunafólksins og þess fólks sem nú, kannske hundruðum ef ekki þúsundum saman, sér ekkert fram undan nema eymdina að því er varðar íbúðarhúsnæði sem það hefur staðið í og stendur í að koma yfir sig og sína. Þetta er meginmarkmiðið með fyrstu till. Ef menn vilja kynna sér réttmæti þessa vísa ég til þáltill. á þskj. 167, 162. máls. Ég á þó von á því að þessu verði kannske gerð frekari skil síðar í umr. verði þess talin þörf.

Í öðru lagi er breyting við 3. gr. varðandi skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Nú þarf enginn að fara í grafgötur um að hæstv. fjmrh., áhrifamaður í Verslunarráði Íslands, a.m.k. fyrr á árum, hefur talið að verslunin hafi ekki skilað eins og henni bar í þrengingum þjóðfélagsins. Að því er varðar að taka á sig byrðar þarf enginn að vera í vafa um að þessir aðilar geta skilað meiru. Við gerum því till. um að í staðinn fyrir 85 millj. tekjur til ríkissjóðs af skrifstofu- og verslunarhúsnæði komi 170.

Í þriðja lagi er brtt. við 3. gr. um skatta á innlánsstofnanir. Engum getur hafa dulist að peningastofnanirnar í þessu landi hafa blómstrað. Menn þurfa ekki annað en líta á næsta nágrenni, einhverjir peningar hafa verið þar til. Fyrir andvirði þess sem þar er búið að gera hefði mátt byggja nokkuð margar íbúðir fyrir einstaklinga og fjölskyldur í þessu þjóðfélagi sem engin tök hafa á því að óbreyttu ástandi og nota það fé með betri hætti en leggja það í seðlabankabygginguna þó að hún verði trúlega afskaplega falleg þegar upp verður staðið. Við leggjum sem sagt til að hækka skatta á innlánsstofnanir úr 75 millj. í 150 og teljum þessa aðila ekkert of góða til að leggja eitthvað af mörkum til fólks sem er í mestum nauðum nú.

Síðan leggjum við til að komi nýr liður til tekjuauka fyrir ríkissjóð sem beri yfirskriftina Hagnaður af Seðlabanka. Reynt sé að ná til einhvers af þeim peningum sem þeir herrar virðast hafa nóg af og kunna, að því er best verður séð út á við, úr að spila. Við leggjum til að nýr liður verði tekinn inn merktur sem Hagnaður af Seðlabanka Íslands 90 millj. kr. Aukast þá peningar í sjóði hæstv. fjmrh. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að hæstv. fjmrh. og stjórnarliðið hér á Alþingi, sem hefur reynt að berja það ofan í okkur hina að ekkert sé hægt að gera vegna fjárskorts, taki því ekki opnum örmun þegar heill þingflokkur jafnaðarmanna, vel settur og á mikilli uppleið svo ekki sé nú meira sagt, kemur færandi hendi sem stjórnarandstöðuflokkur til hæstv. ríkisstj. og leggur til aðferðir sem skila 1–2 milljörðum kr. í ríkiskassann til þess að gera ýmislegt gott.

Við erum að sjálfsögðu hér með fleiri till. 6. brtt. er við 4. gr. Forsrn., aðalskrifstofa, nýr liður. Til kjararannsókna, úttektar á tekjuskiptingu og launakjörum. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að talin er gífurlega mikil þörf á því að gera skurk varðandi það að fá rétta mynd af tekjuskiptingu og launakjörum í þessu landi. Það getur vart vafist fyrir neinum að launakjör eru hér gífurlega misjöfn. Ég trúi ekki að nokkur sé í vafa um að slíkt sé. Launamisrétti er hér gífurlegt og það er full þörf á því, hefði að sjálfsögðu átt að vera búið miklu fyrr að gera gangskör að því og setja í það fjármagn og hæft fólk, að gera úttekt á þessum þætti og skila niðurstöðum sem allra fyrst til þeirra sem hér eiga hlut að máli.

Við erum hér með till. í 7. liðnum til nýsköpunar í atvinnulífinu. Hér erum við að ráðstafa þeim auknu tekjum, sem við leggjum til að ríkissjóður fái með þeim brtt. sem við flytjum hér annars vegar varðandi eignarskattsaukann og síðan með söluskatti, til annarra hluta sem við teljum að þurfi að sinna betur en gert hefur verið. Við erum hér með till. um nýsköpun í atvinnulífinu: Til sérhæfingar í rafeindaiðnaði, í sjávarútvegi, fiskvinnslu og líftækni 400 millj.

8. brtt. er varðandi dagvistunarheimili, stofnkostnað. Þar komi 50 millj. í staðinn fyrir 30 millj. Um það þarf ekki að hafa mörg orð.

Við erum hér í níunda lagi með till. varðandi Lánasjóð íslenskra námsmanna, og taki menn nú eftir. Það mál sagði meiri hl. fjvn. að bíða skyldi til 3. umr., en okkur er svo brátt í Alþfl. að sýna fram á að það er nauðsyn á að taka til hendi, að vissu marki að vísu, í þessum þætti mála að við vekjum á því athygli að við svo búið megi ekki standa, þarna þurfi að koma til aukið fjármagn. Menn getur greint á um upphæðir. En við leggjum til að í staðinn fyrir 481 millj. 241 þús. komi 601 millj. 276 þús. Segi menn svo að Alþfl. sé andvígur Lánasjóði ísl. námsmanna og öllum þeim sem að honum standa.

10. brtt. okkar er í sambandi við embætti veiðistjóra.

Við gerum þar till. um almennan rekstur. Í staðinn fyrir 2 millj. 854 þús. komi 854 þús. Við teljum enga þörf á að hafa meiri fjárveitingu þar. Þarna er sparnaðurinn kominn, hæstv. fjmrh. Við erum bæði að gera till. til að auka fé sem hæstv. ráðh. hefði væntanlega úr að spila og skera niður fyrir hann á þeim liðum sem hann hefur ekki sjálfur treyst sér til að skera niður á. Við teljum að þarna sé nægilegt að hafa 854 þús.

Síðan kemur 11. brtt. í sambandi við jarðræktarframlögin. Að í staðinn fyrir 130, sem það er nú, komi 30 millj. Þetta er einn af þeim þáttum sem Alþfl. hefur lengi haldið fram að yrði að breyta. Það er vonlaust mál að halda landbúnaðarþættinum í nánast sömu fjötrum og honum hefur verið haldið í um áratugi. Það er ekki eðlilegt að hvetja bændur til jarðræktar, skurðgraftar, á sama tíma og talin er þörf á að draga úr framleiðslunni. En auðvitað verður að gera bændum kleift að snúa sér til annarra átta. Ég hef oft sagt að stefnan í landbúnaði hjá stjórnvöldum og Stéttarsambandi bænda, ekki skulum við gleyma því, sé slík að stór hluti bændastéttarinnar er á svipuðu stigi og sjómenn og verkamenn voru á þeim tíma þegar verkalýðshreyfingin var að stíga sín fyrstu spor hér á Íslandi. Margt af fólki í bændastétt er í kladda hjá kaupfélaginu. Það ræður nánast ferðinni í fjárhagsspurningunni fyrir bændafólk. Þetta er stefna sem Framsfl., Sjálfstfl. og forustusauðir bændanna sjálfra á hverjum tíma hafa viljað láta vera við lýði. Ég er viss um að mikill meiri hluti bændastéttarinnar í landinu er andvígur þessu. Það á að minnka milliliðastarfsemina þarna og færa meira fé í hendur framleiðandans sjálfs sem er bóndinn.

Í tólfta lagi er gerð till. í sambandi við búfjárrækt, framlög samkvæmt lögum nr. 31/1973. Þar gerum við ráð fyrir að liðurinn falli hreinlega niður. Einhvern tíma hefði því verið tekið opnum örmum að stjórnarandstöðuflokkur kæmi með svo djarfar till., en eigi að síður eðlilegar.

Í þrettánda lagi er till. um Byggingarsjóð ríkisins. Ég var búinn að fara nokkrum orðum um það mál áðan hvernig staðan væri þar. Við gerum ráð fyrir að þeim tekjuauka sem rennur í ríkissjóð skv. till. okkar verði varið á þann veg að láta Byggingarsjóð ríkisins hafa 1625 millj., muni ég rétt. Það er augljóst að heildarvöntunin í kerfið sem heild er um 1375 millj. kr. Byggingarsjóð verkamanna mun vanta a.m.k. 300 millj. kr. og Byggingarsjóð ríkisins um 1 milljarð 75 millj. Alþfl. leggur til að hér verði hækkað um 1473 millj. í báða sjóðina. Þá gerum við ráð fyrir því að hægt verði að standa við útlánaáætlun Húsnæðisstofnunar bæði varðandi Byggingarsjóð verkamanna og Byggingarsjóð ríkisins. Það ætti svo að vera fagnaðarefni a.m.k. sumum stjórnarliðunum hér á Alþingi að síðan viljum við veita Búsetafélögunum fyrirgreiðslu sem enn hefur ekki verið gert af hálfu hæstv. ríkisstj. eða meiri hl. hér á Alþingi. Með þessu, sem er ekki hvað síst athyglisvert, er verið að draga verulega úr lántökuþörfinni því að við satt að segja efumst við mjög um þær hugmyndir sem á floti munu vera, þó ekki hafi sést á blaði hér innan dyra á Alþingi, að því er varðar fjármagnsútvegun til Byggingarsjóðs eða Húsnæðisstofnunar. t.d. er varðandi lífeyrissjóðina talað um 1100 millj. kr. Það er af og frá að á nokkru stigi sé raunhæft að ætla að það fjármagn fáist þaðan. Ég hygg að það sé hámark að gera ráð fyrir, það teljum við Alþfl.-menn, að það muni skila sér 600 millj. t.d. frá lífeyrissjóðunum, það er algert hámark. Við teljum því miklu skynsamlegra að gera þetta með þessum hætti og teldum sóma Alþingis vel borgið með því. Verði haldið áfram á sömu braut og fyrrv. ríkisstj. lagði grundvöll að að því er varðar húsnæðismálakerfið og núv. hæstv. ríkisstj. hefur haldið áfram er augljóst að leiðir til gjaldþrots beggja þessara sjóða áður en langt um líður. Það þarf engan að undra sem kynnir sér hvernig þau mál standa.

Í 14. till., varðandi Byggingarsjóð verkamanna, er gert ráð fyrir að í staðinn fyrir 250 millj. komi 650. Allt er þetta í þeim dúr að auka möguleikana á því að standa við þær áætlanir sem uppi eru af hálfu stofnunarinnar á næsta ári og reyna að halda í horfinu miðað við það sem gerst hefur á undanförnum árum.

Í 15. lagi er þarna brtt. við 4. gr. 09–201, Ríkisskattstjóri. Þar komi nýr liður til aðgerða gegn skattsvikum skv. ályktun Alþingis frá 3. maí 1984. Það þarf trúlega ekki að minna hv. þm. á að það var samþykkt hér á Alþingi till. til þál. sem bar yfirskriftina Aðgerðir gegn skattsvikum. Þar er sagt í 6. lið, og það er rétt í sambandi við þessa brtt. að lesa, með leyfi forseta, 6. liðinn:

„Að fjölgað verði sérhæfðu starfsliði við embætti skattrannsóknarstjóra svo og á skattstofum. Veitt verði á fjárlögum nauðsynlegt fjármagn til að stórauka allt skatteftirlit og rannsókn skattsvika, sbr. 1.–5. tölul. Að því verði stefnt að hægt sé að taka til ítarlegrar rannsóknar a.m.k. 10% skattframtala fyrirtækja og einstaklinga í atvinnurekstri.“

Hér er sem sagt vísað til þál. sem samþykkt var og ég veit ekki til að nein andmæli hafi komið gegn. Það er að okkar viti algjörlega ótækt að framkvæmdavaldið troði á þeim ákvörðunum sem koma frá löggjafarvaldinu og Alþingi. Þess vegna verður að koma framkvæmdavaldinu, hæstv. ríkisstj. og þeim sem henni eru næstir, í skilning um að framkvæmdavaldinu ber skylda til að taka tillit til þeirra ákvarðana og samþykkta sem hér eru gerðar og sjá til þess að þær nái fram að ganga. Ef fjárveitingar vantar til þess, verði um það að sjá.

Ég sé að ég hef gleymt einni till. Það er 5. brtt.brtt. er í sambandi við söluskattinn. Nú er ljóst og hefur verið upplýst hér á Alþingi að söluskattkerfið er gatasigti til botns og skilar mjög litlu af því sem það á að skila ríkissjóði. Þá eru auk þess í gildi margar heimildir til niðurfellingar á söluskatti. Einhvern tíma sá ég í svari hæstv. fjmrh., held ég, að það gæti verið um að ræða, ef allt þetta yrði fellt niður, 8 milljarða kr. En ekki erum við nú endilega að taka mark á því. Það kann vel að vera að það sé rétt, en við viljum vera aðeins neðar. Það er raunsæi. Nú erum við ekki að tala um að leggja söluskatt á matvæli. Það er rétt að taka það sérstaklega fram að við erum með engar slíkar hugmyndir uppi, að söluskattur verði lagður á matvæli. En við gerum ráð fyrir því, og afskaplega er nú vægt í sakir farið, að með niðurfellingu á ýmsum undanþágum megi ná til ríkissjóðs a.m.k. um 750 millj. kr. til viðbótar því sem nú er og gerum till. þar um. Við höfum að vísu ekki, því er nú verr, valdið til þess að framkvæma þetta, sem við að sjálfsögðu gerðum værum við í aðstöðu til þess, en við treystum á að réttsýnir menn, séu þeir finnanlegir í því kerfi sem ræður, komi þessu til skila þannig að við getum náð a.m.k. 750 millj. meira til ríkissjóðs í gegnum söluskattskerfið en hann þó skilar nú. Ég er alveg sannfærður um það, og ég veit að það eru margir sem eru mér sammála þar um, að hér mætti ganga miklu lengra. Í mínum huga er það nánast orðið hneyksli hversu mikið týnist.af söluskattinum sem á að skilast í ríkissjóð. Það verður með einhverjum hætti, þó að ég hafi þar enga patentlausn á, að finna ráð til að koma í veg fyrir að svo mikið týnist af söluskattinum sem raun ber vitni.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta öllu fleiri orð. Sumum finnst kannske nægilegt í bili. Ég veit ekki hvort ég þarf að koma upp aftur, en verði eitthvert tilefni verður það að sjálfsögðu gert.