14.12.1984
Efri deild: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1991 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

178. mál, atvinnuréttindi vélfræðinga

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég vitna til þeirrar ræðu sem ég hélt hér áðan varðandi afgreiðslu þessa máls í vor og þeirrar yfirlýsingar sem ég las hér upp áðan og sömuleiðis um nefndaskipun. Nefndin var sammála um þetta frv. að öðru leyti en því að það var ágreiningur um eina grein, eins og kemur fram í athugasemdum við frv., á milli meiri hl. og minni hl. Ágreiningurinn var um heiti vélstjóra, yfirvélstjóra o.s.frv., eins og þar kemur fram. Við ákváðum það í samgrn. að láta till. meiri hl. vera í frv. og því var ekki breytt í Nd. Þar fékk málið skjóta og góða afgreiðslu. Var gerð á því ein lítilfjörleg breyting, eða réttara sagt leiðrétt ein smávægileg villa í frv. Að öðru leyti fór það óbreytt í gegn.

Með frv. þessu er leitast við að taka á vandamálum er varða undanþágu til vélstjórnarstarfa. Rétt er að geta þess að fjöldi vélstjórnarmanna sem störfuðu á undanþágum á árunum 1983 og 1984, eða það sem er af því ári, er á bilinu 670–680 manns hvort ár. Um 75% þessara undanþága eru til manna sem hafa engin réttindi en starfa við vélstjórn véla minni en 750 kw.

Efni frv. skiptist í átta kafla. Í fyrsta kafla eru skýrð nokkur hugtök sem notuð eru í frv. Það er nýmæli. Í II. kafla er fjallað um fjölda vélstjóra og vélavarða. Þar er rétt að vekja athygli á breytingu frá eldri lögum er varðar starfsheitið vélavörður. Í III. kafla eru talin upp atvinnuréttindi vélstjóra og hann að mestu óbreyttur frá gildandi lögum. IV. kafli, sem fjallar um eldri vélstjóraréttindi, er óbreyttur III. kafli gildandi laga. V. kafli fjallar um mönnunarnefnd og undanþágur, hliðstætt því sem ég lýsti í frv. sem ég mælti fyrir áðan. Í VI. kafla, sem fjallar um skírteini og læknisvottorð, eru gerðar nokkrar breytingar frá ákvæði gildandi laga. Þær varða fyrst og fremst gildistíma atvinnuskírteina. Skv. 9. gr. gilda skírteini í fimm ár og skilyrði eru sett um viðhald réttinda með hliðsjón af alþjóðlegum reglum. Samkvæmt VII. kafla frv. skal ráðh. setja reglur um útreikning á afli véla í skipum.

Ég tel mig ekki þurfa að flytja hér ítarlegri framsögu en legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. samgn.