17.12.1984
Efri deild: 31. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2057 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

233. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v., fyrrv. hæstv. fjmrh., veit að það er sjálfsblekking að ætlast til að ríkissjóður taki á sig verðjöfnunargjald sem kann að verða fellt niður. Ég get því ekki annað en svarað þeirri spurningu, sem hann beindi til mín, þannig að ég sé ekki að ríkissjóður geti gert það. Annað væri að reyna að blekkja mann sem þekkir betur til í fjmrn. en margir. Ég sé því ekki hvernig verðjöfnunargjald verður borið uppi af ríkissjóði.

Svar mitt við þeirri spurningunni hvernig ríkissjóður ætli að standa undir stórauknum útgjöldum af verðjöfnunargjaldi, sem til mín var beint, er einfaldlega það sem fram hefur komið. Það er staðreynd sem allir þm. eiga þátt í að ríkissjóður er frá einum tíma til annars, ekkert frekar í dag en í liðinni tíð og ég reikna með að hann haldi áfram að vera bað í framtíðinni, gersamlega vina- og munaðarlaus. Ég ætla mér að taka þátt í að finna lausn á þeim vanda sem hæstv. iðnrh. glímir við, og er virðingarvert að hann skuli trúa því, og ég trúi á hans mátt og megin, að hægt sé að losna við þetta verðjöfnunargjald án þess að það falli á ríkissjóð. Hagur ríkissjóðs þyrfti að vænkast ansi mikið og skjótlega ef hann ætti að bera þetta gjald. Ég sé ekki að hann geti það nema þá að á skylli heimsstyrjöld. Þegar síðari heimsstyrjöldin braust út var ríkissjóður gersamlega blankur og hér var allt í volæði. Innan tíðar var það mikið til hér af gjaldeyri að þeir sem áttu fengu honum ekki skipt lengur í Landsbankanum. Landsbankinn átti svo mikið af gjaldeyri.

En við skulum átta okkur á því að við erum illa á vegi stödd ef við ætlum að taka lán til að virkja fallvötn okkar og síðan að taka annað erlent lán. Ríkissjóður verður að taka erlend lán núna til að greiða niður orkuna sem við notum frá virkjununum sem eru byggðar fyrir erlend lán. Hvar erum við þá á vegi stödd? Ríkissjóður hefur ekki, því miður, svo miklum peningum úr að spila að hann geti tekið slíkt á sínar herðar.