17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2085 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

189. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Á þskj. 325 er nál. fjh.- og viðskn. Nd. um það frv. sem hér er á dagskrá. Þar kemur fram að þrír nm., þ.e. hv. þm. Guðmundur Einarsson, Kjartan Jóhannsson og svo sá sem hér stendur, hafa ritað undir nál. með fyrirvara. Fyrirvarinn lýtur m.a. að því að á þskj. 324 flytjum við þrír þm. í deildinni, auk mín Kjartan Jóhannsson og Guðrún Agnarsdóttir, brtt. við 6. gr. frv. um að í staðinn fyrir 1.1% skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði verði skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði 2.2%, eða hann verði tvöfaldaður frá því sem nú er gert ráð fyrir, og mundi það skila ríkissjóði um 85 millj. kr. Er það í samræmi við þá afstöðu, sem m.a. hefur komið fram hjá okkur við afgreiðslu fjárlaga, að við teljum eðlilegt að þessi skattur verði notaður til þess að halda uppi félagslegri þjónustu og fjárfestingu tengdri henni.

Í þessu máli er rétt að fram komi að við höfum aflað okkur upplýsinga um hvernig þessi skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði skiptist eftir skattumdæmum. Ég held að það sé nokkuð fróðlegt fyrir hv. þd. að fá þær upplýsingar.

Þar kemur fram að á árinu 1984 nam þessi skattur á einstaklinga samtals 21.8 millj. kr. Þar af voru greiddar af skrifstofu- og verslunarhúsnæði í Reykjavík 14.9 millj. kr., á Vesturlandi 395 þús. kr., á Vestfjörðum 287 þús. kr., á Norðurl. v. 226 þús. kr., á Norðurl. e. 572 þús. kr., á Austurlandi 255 þús. kr., á Suðurlandi 355 þús. kr., og í Vestmannaeyjum, sem er sérstakt skattumdæmi, 168 þús. kr. og á Reykjanesi 4.9 millj. kr. Af þessum skatti, sem nemur alls um 21.8 millj. kr. hjá einstaklingum, er greitt í Reykjavík og á Reykjanesi í kringum 19 millj. kr. Það segir auðvitað nokkuð um hvað aðrir landshlutar eru afskiptir að því er varðar þjónustu af þessu tagi, hvað verslunin er óeðlilega stór þáttur þegar allt kemur til alls í atvinnulífi hér í Reykjavík og á Reykjanesi um leið og framleiðslugreinar eiga hér mjög í vök að verjast, eins og kom fram í umr. hér í hv. Nd. í dag um Landssmiðjuna.

Þegar litið er hins vegar á lögaðila er heildarálagning á þá 62.1 millj. kr. Þar af er Reykjavík með 47.3 millj. kr., Vesturland með 1.3, Vestfirðir með 924 þús., Norðurl. v. með 787 þús., Norðurl. e. með 4 millj. sléttar, Austurland með 1 millj., Suðurland með 1.5, Vestmannaeyjar 392 þús. og Reykjanes með 4.9 millj. kr.

Í fjh.- og viðskn. Nd. óskuðum við eftir því í morgun að fá upplýsingar um hversu margir aðilar það eru sem þennan skatt greiða. Þær upplýsingar komu ekki fram, en okkur var lofað því að við fengjum þær á síðari stigum. Verður þá fróðlegt að sjá hversu margir aðilar það eru sem greiða skatt af skrifstofu- og verslunarhúsnæði í hinum ýmsu umdæmum landsins.

Það kom einnig fram á fundi fjh.- og viðskn. í morgun hjá fulltrúa fjmrn. að hér væri um tiltölulega mjög góðan skattstofn að ræða, þ.e. það er erfitt að fela hann, auðvelt að ákveða hann og hann er aðgengilegur fyrir skattyfirvöld. Þess vegna er það mín skoðun að skynsamlegt sé að nota þennan skattstofn til að ná í tekjur hjá verslunar- og skrifstofufyrirtækjum, að nýta þennan skattstofn enn þá betur en nú er gert ráð fyrir. Þess vegna er það sem við flytjum till. um að tvöfalda þennan skatt, hann fari úr 85 millj. í 170 millj. kr.

Ég tel ekki ástæðu til þess, herra forseti, nema tilefni gefist til hér í umr., að orðlengja þetta frekar. Ég minni á að ef skatturinn ætti að vera óbreyttur frá því sem var fyrir tveimur árum ætti hann að vera 1.4% en ekki 1.1% eða 2.2% . Ef það gæti orðið að samkomulagi að standa að till. um 1.4% væri ég a.m.k. fyrir mitt leyti tilbúinn að velta því fyrir mér. Mér heyrðist þó ekki á nm. meiri hl. í fjh.- og viðskn. Nd. í morgun að þeir væru tilbúnir að hækka þennan skatt yfirleitt neitt. Þar kom reyndar fram það sjónarmið hjá ákveðnum nm. að þetta væri skattur sem bæri að stefna að að leggja niður. Ég held þvert á móti, og sérstaklega þegar þrengir svo að ríkissjóði sem raun ber vitni um, að það ætti að vera skylda Alþingis að halda til haga öllum tekjustofnum. Það er af eðlilegri pólitískri umhyggju fyrir samneyslunni sem við leggjum til að þessi skattur verði hækkaður. Það er ekki vegna þess að við viljum sérstaklega agnúast út í skrifstofu- og verslunarhúsnæði, heldur sýnist okkur að þetta sé góður, glöggur og skýr tekjustofn.