17.10.1984
Neðri deild: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

5. mál, útvarpslög

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Fyrstu spurningu um þetta mikilsverða frv., sem menn biðu eftir með nokkurri óþreyju, hefur nú þegar verið svarað, spurningunni um það hvort þetta er stjórnarfrv. eða ekki. Það er að nafninu til stjórnarfrv. En í reynd er það ekki stjórnarfrv. Hv. þingflokksformaður framsóknarmanna, sem hér talaði á undan mér, sagði berlega að gildistökuákvæði þessa frv. þætti sér fráleitt, þ.e. 21 dagur. Það er alveg ljóst af ræðu hans að þeim stjórnarsinnum mun ekki veita af tímanum fram að sauðburði til þess að stilla saman strengina og ná einhverju samkomulagi í þessu máli. Því ekki liggur það fyrir, það er fjarri því.

Í raun og veru mátti heyra það bæði af orðalagi og anda ræðu hv. þingflokksformanns framsóknarmanna að hann er hundóánægður með þetta mál. Hann talar um frjálshyggjugauka sem tröllríði þjóðfélaginu og hann er í algerri andstöðu við. Hann lýsir foragt sinni á þessum svokölluðu peningafrelsisútvörpum, eindregnum stuðningi við hið „gamla góða Ríkisútvarp“ og áréttaði það að þeim veitti ekki af, stjórnarsinnum, mjög góðum tíma, helst fram undir sauðburð til að ræða þetta mál innbyrðis. Þar með virðist mér að okkur hinum, sem teljumst ekki vera aðilar að þessu stjórnarfrv., ætti að gefast góður tími til þess að gefa holl ráð og ábendingar.

Ég tek að sönnu undir það með hv. þingflokksformanni að þetta er geysilega þýðingarmikið mál. Það getur haft ófyrirsjáanleg áhrif á þjóðlífið allt. Það markar tímamót. Og það þarfnast vissulega gaumgæfilegrar skoðunar á Alþingi. Það get ég sagt með góðri samvisku, þótt mér hafi þótt langlundargeð hæstv. fyrrv. menntmrh. á sínum tíma nokkuð mikið, þegar ekki tókst að toga frv. og álit útvarpslaganefndar af hans borði á sinni tíð, líka vegna ágreinings í fyrri stjórn. Þá tók ég mig til einhvern tíma og flutti þann kafla laganna þar sem mest eru nýmælin til að koma þessu máli á dagskrá. Til þess að vekja um það umræðu, vitandi vits að sjálfsögðu um það að þetta mál er þess eðlis að það þarfnast gaumgæfilegrar skoðunar og ítarlegra umræðna. Í svo stóru máli er það vafalaust rétt hjá hv. þingflokksformanni að ekki er flas til fagnaðar og 21 dags flas alveg út í hött.

Þetta er nefnilega ekki bara spurning um að leyfa eða leyfa ekki frjálsar útvarpsstöðvar svokallaðar. Og þó að tilfinningar manna kunni að vera í nokkru umróti eftir deilur í verkfalli, eftir starfrækslu ólöglegra útvarpsstöðva, þá er málið miklu víðtækara en það. Ég tel æskilegt að um leið og við skoðum þessi útvarpslög fari fram, samtímis og jafnhliða, rækileg endurskoðun á gildandi fjarskiptalögum. Þau voru til lítils háttar skoðunar hér undir þinglok í fyrra. Breytingar, sem á þeim voru gerðar, voru mjög óverulegar. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að þar þurfi að gera mun róttækari breytingar og það eigi að gerast um leið og útvarpslögunum er breytt.

Ég vil vekja athygli á því að mér finnst þetta mál vera menningarpólitískt stórmál. Það varðar ýmsar grundvallarspurningar um stöðu íslensks þjóðernis, um lífvænleg skilyrði íslenskrar menningar í vaxandi samkeppni við erlend menningaráhrif. Ég hefði vænst þess að hæstv. menntmrh. fjallaði kannske ögn ítarlegar um spurningar af því tagi í máli sínu hér áðan.

Það sem knýr fyrst og fremst á um að Alþingi láti til sín taka og endurskoði þessa löggjöf er tæknibylting. Við getum sagt tæknibylting og menningarbylting, sem á undanförnum árum hefur riðið yfir þjóðfélög á svipuðum breiddargráðum. Þar hafa vaknað upp margar spurningar sem við þurfum að taka afstöðu til. Það vekur athygli að ýmis þau þjóðfélög í kringum okkur, sem að öðru jöfnu reyna nú að vera, ef ekki í fararbroddi þá a.m.k. viðbúin slíkum breytingum, hafa fæst þeirra brugðist við með ítarlegum breytingum á gildandi lögum. Þau hafa flest gefið sér ráðrúm til að gera tilraunir, þreifa fyrir sér, einfaldlega vegna þess að við stöndum núna nær byrjun þessarar byltingar en endalokum. Þar eiga eftir að gerast margir ófyrirséðir hlutir. Og það er engan veginn ljóst að við getum mótað einhverja löggjöf í þessum málum sem standa eigi til frambúðar. Þvert á móti er líklegt að tæknileg úrelding verði svo hröð að við munum ekki hafa við að meta breytingar og bregðast við þeim á næstu árum.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að við ættum ekki að stinga höfðinu í sandinn, ekki að skella skollaeyrum við staðreyndum þessarar tæknibyltingar, við ættum ekki að rígbinda okkur við lög, sem að sumu leyti eru úrelt, og bregðast þá við með málaferlum og lögsóknum á hendur mönnum sem brotlegir hafa gerst við þessi lög. Ég tel að rétt sé að gera tilraunir á þessum sviðum. Þær eiga að vera tilraunir um takmarkaðan tíma, þær eiga að vera undir eftirliti og þær eiga að vera undir kjörorðinu — mér kom það allt í einu í hug þegar ég sá hv. 5. þm. Norðurl. e. ganga út úr salnum — „frelsi með ábyrgð“.

Það eru stórar spurningar þetta með frelsið. Frelsi hverra? Frelsi til hvers og hverjir eiga að njóta þessa frelsis? Á það að vera eingöngu frelsi fjármagnsins, sem leiðir að lokum til ofurveldis fámennra fjársterkra afla, verður kannske til þess að skapa enn þá meiri einokun í fjölmiðlaheiminum en við búum við nú þegar? Eða á að setja einhverjar skorður við því frelsi meðan þessi tilraun stendur?

Það er rétt að fara nokkrum orðum um helstu nýmæli þessa frv. Ég held ég þurfi ekki að eyða löngum tíma í það, það hefur þegar verið gert, menn þekkja þetta mál. Hér er um það að ræða að veita undanþágu frá einkarétti útvarpsins um tiltekinn tíma. Hugmynd frv. er sú að skipa nýja nefnd, útvarpsréttarnefnd, sem á að stýra þeirri þróun. Eitt af því sem verður að skoða í umr. um þetta frv. er það hvernig eigi að skipa þessa nefnd. Er rétt að skipa hana með sama hætti og útvarpsráð hefur verið skipað, kjósa hana hlutfallskosningu á Alþingi? Eða er annarra kosta völ?

Það er ekki oft sem rætt er um atvinnulýðræði hér á hinu háa Alþingi. Þó gæti það nú farið að breytast. Til greina kæmi auðvitað að stuðla að því að stofnuð yrðu aftur, eins og hér var í gamla daga, hlustendafélög. Og að hlustendur, neytendur þessara gæða, ættu aðild að þessari útvarpsréttarnefnd og reyndar að stjórn útvarpsins og þá hugsanlega þeirra stöðva sem stofnaðar yrðu.

Þessi nefnd á að veita leyfi sem háð eru skilyrðum. Þarna stendur skýrum stöfum að hún eigi að setja ákveðin skilyrði um menningarlegan staðal, um að íslenskri tungu sé skipað þar í öndvegi. Þarna er minnst á lýðræðislegar grundvallarreglur: Að þessar stöðvar skuli virða tjáningarfrelsi og gera ólíkum skoðunum, jafnvel minnihlutahópa, jafnhátt undir höfði. Þar er gert ráð fyrir áfrýjunarrétti. Og þar er að gefnu tilefni tíundað að virða beri höfundarrétt skapandi listamanna, dagskrárgerðarmanna og annarra. Það er líka gert ráð fyrir eftirliti, eftir á, með dagskrárefni. Þetta er allt saman að mínu mati sjálfsagt að gera, a.m.k. á meðan tilraunin varir. Það fer svo eftir því hver reynslan verður, hversu hratt við gætum slakað á einhverjum lagabókstaf í þessu efni.

Til hvers erum við að óska eftir þessari undanþágu frá einkarekstri? Það er eitt af því sem mig undrar að skuli ekki hafa komið fram í þessum umr., af hálfu þeirra sem mestir eru hugsjónamenn um „frelsið“, hvað fyrir þeim vakir, hverjar þeirra hugsjónir eru fyrst og fremst. Ég geri ekki ráð fyrir að þær séu bara skjóttekinn auglýsingagróði og graðhestamúsík. En ég held að þessum spurningum sé mikið til ósvarað, hvað þeir hugsa sér að flytja í þessum frjálsu og óháðu stassjónum.

Eitt af þeim málum, sem taka verður afstöðu til, er fjármögnun og auglýsingar. Þarna er gert ráð fyrir því að þráðlaust útvarp, sem m.ö.o. er ekki í jarðsambandi við sína hlustendur, geti aflað fjár með auglýsingum. En það er háð margvíslegum skilyrðum. Þannig er t.d. gert ráð fyrir því að útvarpsréttarnefnd gefi út reglur um auglýsingar, gefi út reglur um það hversu fyrirferðarmikið þetta hvimleiða efni má vera í dagskrá, í hlutfalli við aðra dagskrárliði. Og að settar verði reglur um auglýsingar, út frá því sem við þekkjum um hlutleysi og hlutlægni í auglýsingamennsku. Enn fremur hefur útvarpsréttarnefnd samkvæmt þessu heimild til að hlutast til um hverjir auglýsingataxtar eru. Ég geri ráð fyrir því að þetta sé gert með hliðsjón af þeim áhrifum, sem fjölgun útvarpsstöðva kann að hafa á fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins.

Það kann að vera svolítið skondið, ef hinar frjálsu stöðvar næðu aðeins til hluta landsmanna og ef þær tækju verulegan hluta af tekjum Ríkisútvarpsins til sín, sem mundi þá um leið þýða að allar skyldur við landsmenn um að halda uppi útvarpi til allra landsmanna hvíldu á Ríkisútvarpinu og þar með skattgreiðendum, að í reynd yrði komið hér bakdyramegin inn nýju niðurgreiðslukerfi. Í þetta skipti hina leiðina, þ.e. þeir landsbyggðarmenn, sem ekki gætu notið hinna frjálsu stöðva, væru í reynd sem skattgreiðendur að greiða niður rekstrarkostnað þeirra.

Ég segi fyrir mína parta að ég er sammála þessum sjónarmiðum. Ég held að þau ættu að geta leitt til samkomulags, meðan þessi tilraun varir, þangað til hún verður tekin til endurskoðunar.

Ég sagði áðan að ég teldi alveg sjálfsagt að saman færi endurskoðun útvarpslaga og fjarskiptalaga. Því til staðfestingar nefni ég hér lítið atriði. Í 5. gr. í V. kafla þessa frv. segir, með leyfi forseta: „Heimilt er að senda hvers konar upplýsingar um símakerfi landsins til almennrar móttöku“. Þetta er nánar skýrt í aths. En hér er að mínu mati augljóslega um að ræða ákvæði sem heima á í fjarskiptalögum. Þau eru fleiri. Þau skarast á margan veg.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vék að spurningunni um eignarrétt hvers kyns boðveitukerfa í þeirri fjölmiðlunarbyltingu sem fram undan er. Þar er um vandamál að ræða. Þar verður að marka stefnu fyrir fram. Ég vík að því á eftir með hvaða rökum ég er þeirrar skoðunar að slík kerfi eigi að vera í höndum sveitarfélaga, bæði vegna samræmingar og gæðakrafna en ekki í höndum einkaaðila. Til álita kemur að setja fleiri skilyrði eins og víða er gert með löggjöf í öðrum löndum eins og t.d við því að það fer ekki saman að þeir, sem þegar eru ráðandi í blaðamarkaði, hasli sér einnig völl sem ráðandi öfl í þessum fjölmiðlum. M.ö.o. það verði í anda löggjafar, sem sett er víða um lönd, að draga úr hættu á einokun, settar verði skorður við því að slík þróun geti orðið.

Mér finnst aðalatriði málsins vera þessi. Tæknileg rök mæla með því að við gerum þessa tilraun á næstu árum, gerum hana undir eftirliti og háð vissum skilyrðum, reynum að stýra þróuninni frekar en andæfa henni. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikið í húfi hvernig til tekst. Þetta er ekki einfalt tæknilegt mál heldur hápólitískt og menningarpólitískt viðfangsefni. Ég held að ódýr slagorð, sem hrífa menn kannske í hita dagsins eins og það sé hin stóra mannréttindakrafa í íslensku þjóðfélagi að fá frjálsar útvarpsstöðvar, skili okkur ekki langt í þessu efni. Ég held að við þurfum að kryfja spurningarnar um frelsið svolítið betur og hafa í huga hið ágæta slagorð um frelsi með ábyrgð. Og ræða það í smáatriðum hvaða kröfur sé eðlilegt að gera út frá leikreglum lýðræðis gagnvart hættum á einokunarþróun í skjóli fjármagns.

Herra forseti. Það er rétt og tímabært í þessari umr. að vekja athygli á ýmsum athyglisverðum sjónarmiðum sem fram hafa komið í umr. um þetta mál og í umsögnum margra aðila um þetta mál, sem borist hafa einar 14, þó að það taki nokkurn tíma. Það er þá gert í anda þess sem fram kom hjá hv. þingflokksformanni Páli Péturssyni um það að við eigum að taka okkur góðan tíma til að ræða málið. Ég sagði áðan að ég héldi að þetta mál væri miklu stærra en svo að það væri eingöngu um spurninguna: Ertu með eða á móti frjálsu útvarpi? Ég sagði í annan stað að það væru margvísleg rök fyrir því að endurskoða samtímis útvarpslög og fjarskiptalög. Nú langar mig til þess að renna frekari stoðum undir það með því að kynna hér sjónarmið um þessi mál, sem fram komu í lærðu erindi sem nefnist: „Boðveitur og ný viðhorf í boðmiðlun“ og samið var af Birni Friðfinnssyni, sem er formaður Sambands ísl. sveitarfélaga.

Sveitarfélögin á Íslandi koma mjög við sögu þessa máls. Að þeim er vikið bæði sem leyfisveitendum og jafnvel hugsanlega aðilum að staðbundnu útvarpi, jafnve11íka sem eigendum dreifikerfa. Í þessu erindi eru dregnar saman niðurstöður á þessa leið, með leyfi forseta:

„Í inngangi þessarar greinargerðar er þess getið, að tækniþróunin, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, sé komin langt á undan löggjafarstarfi. Þjóðir hnattarins verða beinlínis að umbylta þeim lagaramma sem byggður hefur verið á einokun og einkaleyfum til fjarskipta, útvarps og sjónvarps á afmörkuðum landsvæðum. Jafnframt verða þær að koma sér saman um afnot þeirrar fjarskiptatækni sem spannað getur hálfan hnöttinn samtímis.

Höfundarréttarmál gjörbreytast með hinum nýju möguleikum á útbreiðslu verndaðs efnis og ýmiss konar lagaákvæði, sem ætlað er að vernda almenning frá slæmum fyrirmyndum í siðferði eða stjórnmálaviðhorfum, missa gildi sitt með öllu. Þá er hætt við að deilur rísi vegna hagsmuna hinna ýmsu fjölmiðla af auglýsingatekjum. Ef t.d framleiðendur einhverrar gerðar þvottaefnis geta auglýst ágæti þess um gervihnött, sem nær til allra Evrópubúa samtímis, jafnt austan og vestan járntjalds, þá vaknar sú spurning hvort hin dönsku vikublöð eða íslenska sjónvarpið missi ekki af auglýsingatekjum vegna viðkomandi framleiðslu?

Ef löggjöf um þessi efni á að vera virk, þá verður hún helst að vera hin sama í mörgum ríkjum og unnin í samstarfi við þau. Það er hins vegar ekki auðvelt að ná samkomulagi um ákvæði slíkrar löggjafar, þ.e. þau hljóta óhjákvæmilega að fela í sér skerðingu á sjálfsákvörðunarrétti þjóða. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur verið unnið að gerð sáttmála um fjölmiðlun yfir landamæri. En það starf hefur strandað á afstöðumun í grundvallaratriðum milli þeirra ríkja er búa við vestrænt lýðræði annars vegar og annarra ríkja hins vegar. Meiri vonir eru bundnar við að leysa megi málið á vettvangi Evrópuráðsins í Strasbourg en mun þó eins og hér fyrirsjáanlega taka ærinn tíma.

Oft hefur verið á það bent að smáum menningarsamfélögum sé hætt í samskiptum við stærri menningarsamfélög. Á það m.a. við um okkur Íslendinga sem viljum vernda málsamfélag okkar og það ástand sem við köllum íslenska menningu fyrir áhrifum sem við ekki bjóðum sjálfir til okkar eða sækjumst eftir. Menning okkar tekur þó örari breytingum en flestir átta sig á og nýsköpun hennar er í ríkum mæli bundin áhrifum frá öðrum þjóðum.

Á sínum tíma var Keflavíkursjónvarpið sett í lokaða rás vegna þeirrar hættu er menn töldu íslenskri menningu stafa af útsendingum erlendrar sjónvarpsstöðvar beint í íslenska „menningarlandhelgi“, eins og það var orðað: sjónvarpsstöðvar sem ekki lyti íslenskri dagskrárstjórn né stjórnvöldum.

Með tilkomu sjónvarps frá gervihnöttum hljóta slík sjónarmið aftur að komast á dagskrá hér á landi. Er t.d æskilegt að setja upp loftnets- eða boðveitukerfi sem miðlar sjónvarpsefni frá 20 þjóðum inn á íslensk heimili? Hver verður hlutur íslenska sjónvarpsins og þar með menningarhlutverk þess, við slíkar aðstæður? Í nágrannalöndum virðast þau sjónarmið hafa orðið ofan á að ekki sé hægt að einangra sjónvarpseigendur frá því að horfa á sjónvarpsdagskrá annarra ríkja. Á hinum „Norðurlöndunum“ eða öllu heldur öðrum ríkjum Norðurlanda, sem einnig hafa smá menningarsamfélög í samanburði t.d við ensk, þýsk eða frönsk menningarsvæði, eru sjónvarpsdagskrár nágrannalandanna birtar daglega í blöðum til þess að auðvelda fólki not þeirra.

Svíar munu í okt. s.l. hafa tekið í notkun í tilraunaskyni boðveitu í borginni Lundi. Tengigjald var um 1200 sænskar kr. fyrir einbýlishús. Einnig verður innheimt afnotagjald í hlutfalli við þá þjónustu sem menn notfæra sér. Þeir sem tengdir verða boðveitunni geta m.a. valið milli tveggja sænskra sjónvarpsdagskráa, þriggja vestur-þýskra, tveggja austur-þýskra og einnar danskrar. Eftir fáa mánuði stóð síðan til að úrvalið yrði aukið enn með móttöku á dagskrám frá sjónvarpsgervihnöttum.

Hætt er við að Alþingi og önnur stjórnvöld hér á landi eigi lítið val um það hvort erlendar sjónvarpsstöðvar nái inn í íslenska menningarhelgi. Útilokað er að hægt verði að hindra menn í því að koma sér upp loftnetum og öðrum þeim búnaði sem með þarf til að ná sendingum frá gervihnöttum. Vafalaust munu margir fá sér slíkan búnað, sem auðvelt eiga með að dreifa kostnaðinum á fleiri notendur, t.d húsfélög í stórum sambýlishúsum. Íslendingar eiga því ekki annan kost en að taka þessum umhverfisbreytingum með því að gera samsvarandi breytingar á löggjöf um útvarpsrekstur og fjarskipti. Og þeir verða að taka þátt í því sameiginlega löggjafarstarfi sem fram undan er á vettvangi Evrópuráðs og annarra slíkra stofnana. Með því verður væntanlega hægt að stýra aðlögun tækniþróunarinnar að íslensku menningarsamfélagi. Hins vegar er ekki unnt að útiloka hina nýju tækniþróun.

En hver á að eiga boðveiturnar? Á norrænum fundi, sem nýlega var haldinn í Kaupmannahöfn um þessi mál, var m.a. mikið rætt um áhrif kapalkerfa og boðveitna á einkarétt símafyrirtækja hins opinbera.“ — Þetta er, með leyfi forseta, enn eitt dæmið um það að eðlilegt er að skoða í samhengi endurskoðun hvors tveggja, útvarpslaga og fjarskiptalaga. — „Menn voru almennt sammála um að breytingum á einkarétti Pósts og síma í þá átt að leyfa öðrum aðilum uppsetningu boðveitukerfa yrði að fylgja það skilyrði, að haldið verði við hina svokölluðu „common carrier“ reglu, þ.e. þá meginreglu í fjarskiptum Pósts og síma að allir hafi jafnan aðgang að þjónustunni, án tillits til þess hvort menn rita heimskuleg bréf eða nota ljótt orðbragð. Leyfisveitingu verði að binda þessu grundvallarskilyrði, auk ýmissa tæknilegra skilyrða til þess að tryggja samræmingu og sem víðtækust not af kerfinu.

Hægt er að búa þannig um hnútana við leyfisveitingar til einkaaðila, en hver sá er kemur upp kapalkerfi hefur í reynd fengið forgangsrétt á því svæði, sem kapalkerfið nær til, og til langs tíma um ýmiss konar boðmiðlun. Á fundinum var líka rætt um það sem meginstefnu, er byggir á framangreindri „common carrier“ reglu, að óæskilegt sé að eigendur kapalkerfa séu jafnframt framleiðendur eða seljendur dagskrárefnis.“

Svo að ég geri hér stutt innskot: Þetta mættum við gjarnan hugleiða nánar með hliðsjón af þeirri staðreynd að sömu aðilar hafa um nokkurt skeið rekið slíkt lokað kapalkerfi í ákveðnum stöðum hér í Reykjavík og eru um leið áhrifamiklir eigendur næstútbreiddasta dagblaðs þjóðarinnar.

„Í grein, sem höfundur þessarar skýrslu ritaði í 6. tbl. Sveitarstjórnarmála 1982 og nefndi „Boðveitur sveitarfélaga“, er vakin athygli á því, að þótt löggjöf um fjarskipti hér á landi verði breytt á þann veg, að einkaréttur Landssíma Íslands verði afnuminn, þá hafi lagning kapalkerfa á vegum einkaaðila þann ókost að kerfin verði ósamstæð og tæknilegar kröfur til þeirra verði með ýmsu móti. Óheppilegt sé einnig að fjölga þeim aðilum sem hafi með höndum jarðstrengjalagnir í þéttbýli. Í niðurlagi sömu greinar segir svo: „Til forna var boðmiðlun eitt af hlutverkum sveitarfélaga. Sveitarstjórnir skipulögðu boðleiðir um umdæmi sitt, og mátti þannig flytja fundarboð, opinberar tilkynningar o.fl. á skömmum tíma um sveitarfélagið. Mér þykir það vel koma til greina að sveitarfélög með þéttbýli fái heimild til þess að setja upp „boðveitur“, þ.e. 50 rása kapalkerfi, er sett yrði upp samkvæmt fullkomnustu kröfum í tæknilegum efnum, sem t.d Landssíminn hefði umsjón með. Nokkrar rásir yrðu notaðar til þess að flytja sjónvarpsefni frá íslensku sjónvarpi og gervihnöttum, en aðrar til þess að flytja ýmis boð innan sveitarfélagsins, t.d fræðsluefni til fullorðinsfræðslu. Fyrir framangreind not yrði tekið fastagjald af notendum. Loks mætti leigja út ákveðnar rásir til sérstakrar dagskrárgerðarfyrirtækja, sem öfluðu tekna ýmist með auglýsingum eða sérstökum „gjaldmælum“ hjá notendum. Boðveitur sveitarfélaga gætu orðið hluti af veitukerfi þeirra í þéttbýli og þær kæmu tilviljunarkenndri þróun á sviði kapalsjónvarps á farsælli brautir.“

Þau sjónarmið hafa komið fram, m.a. á Alþingi, að fela beri Landssíma Íslands gerð boðveitna sem hluta af lagnakerfi hans. Vissulega væri það hægt, en hætt er við að með því móti muni uppbygging boðveitukerfis fyrir landið allt ganga mun hægar heldur en gerð afmarkaðri boðveitukerfa, sem sveitarfélögin stæðu að, enda nýtist þá framtak og frumkvæði aðila sem standa notendum nær en Landssími Íslands.“

Í niðurlagi þessarar samantektar segir svo: „Greinargerð þessi um „boðveitur og ný viðhorf í boðmiðlun“ er samin í framhaldi af fundi í Kaupmannahöfn, þar sem þau mál voru til umræðu á vettvangi Norðurlanda. Var fundurinn haldinn að frumkvæði Nordisk Data-union og með atbeina Norrænu menningarmálaskrifstofunnar. Heiti fundarins var „boðfrelsi og frelsi til tjáskipta í boðmiðlunarsamfélaginu“. Þar komu fram ýmsar af þeim tæknilegu upplýsingum sem hér hafa verið raktar, en einnig ýmis lögfræðileg vandamál, sem hér koma við sögu, og ekki er unnt að gera skil á þessum vettvangi. Á fundinum kom fram að þetta mál snýst ekki eingöngu um fjölmiðlunar- og menningarstefnu ríkja, heldur eiga þau viðhorf vaxandi fylgi að fagna að líta beri á það í samhengi við samgöngu- og iðnaðarstefnu þeirra.

Það er tillaga mín, að íslenskar sveitarstjórnir taki mið af nýjum viðhorfum og beini þeim tilmælum til löggjafans, að löggjöf um fjarskipti og útvarpsrekstur hér á landi verði breytt á þann veg, að öðrum aðilum en Landssíma Íslands verði heimilað að koma upp boðveitukerfi með ákveðnum skilmálum.

Þá er það einnig tillaga mín, að það verði tekið til alvarlegrar athugunar hvort ekki eigi að stefna að uppbyggingu boðveitukerfa á vegum sveitarfélaga að breyttri löggjöf. Í því sambandi legg ég til að settur verði sá almennur fyrirvari í skilmála lóðaúthlutana framvegis, að lóðarhafi hafi skyldu til að tengjast boðveitukerfi, ef byggt verður, gegn greiðslu tengigjalds. Þá legg ég til að veitukerfi nýrra íbúðarhverfa verði hönnuð á þann hátt, að auðvelt verði að koma þar fyrir síðar boðveituköplum.“

Hér er tilvitnun lokið í þessa álitsgerð um boðveitur og ný viðhorf í boðmiðlun. Hygg ég að þar sé að finna nægan rökstuðning fyrir því sjónarmiði, að sjálfsagt sé að skoða hvort tveggja í samhengi, útvarpslögin og fjarskiptalögin, enda verði það varla með góðu móti sundur slitið.

Ég vék að því áðan að á s.l. vori bárust menntmn. Nd. margar umsagnir um þetta mál frá aðilum sem sjálfsagt er að leita umsagnar hjá og skoða gaumgæfilega hvað þeir hafa til málanna að leggja. Sá galli var á að það var eitthvert óðagot á hv. formanni menntmn. því að það eru ekki nema lítilfjörlegar ýkjur að segja að hann hafi sent út bréf og krafist þess að umsögnin ætti að berast deginum fyrr en beðið var um hana. Í sumum tilvikum, eins og t.d í umsögn Alþýðusambands Íslands, þá var þeim vinnubrögðum mótmælt með þeim hætti að litið var svo á, eins og þar segir, að raunverulega sé ekki óskað umsagnar Alþýðusambandsins. Auðvitað vita þessir aðilar ekki síður en þeir sem hér eru inni og sitja á hinu háa Alþingi að þetta er stórt mál og þarf góðan tíma, eins og margsinnis hefur komið fram í umr. Það verður þess vegna að teljast lágmarkskurteisi að þeim aðilum, sem þetta mál er sent til umsagnar, gefist nægilegur tími til þess að gera það af einhverju skynsamlegu viti. Á því var misbrestur á s.l. vori. Þess vegna er sérstök ástæða til þess að árétta það að taka það mál upp á ný; kanna það hvort aðilar, sem rétt væri að leita til, þurfa ekki að skila inn álitsgerðum, gefa þeim til þess sómasamlegan tíma. Þar hef ég ekki hvað síst í huga ýmsa tæknimenn, svo sem eins og rafeinda- og fjarskiptaverkfræðinga. Mér er kunnugt um það að á vegum Verkfræðingafélags Íslands er starfandi starfshópur um þetta mál. Einstakir rafeinda- og fjarskiptaverkfræðingar hafa sent hinu háa Alþingi og þingflokkunum erindi um þetta mál, þar sem þeir leggja megináherslu á það, að út frá iðnaðarsjónarmiðum þurfum við að ætla okkur hæfilegan aðlögunartíma. Það er sjónarmið sem ég fyrir mitt leyti vil vissulega hlusta á.

Þá held ég að það sé ekki síður ástæða til þess að leggja hlustir við því sem starfsmenn Ríkisútvarpsins, þessarar gömlu og rótgrónu menningarstofnunar í íslensku samfélagi, hafa til málanna að leggja. Mér þykir ótækt annað en að sú umsögn, sem barst — nú hefur þeim orðið á í messunni, því að það er ekki dagsett, en hefur væntanlega borist um mánaðamótin apríl/maí, — eins og aðrar umsagnir, verði kynnt hér á þinginu, því að hún er á allan máta athyglisverð. Með leyfi forseta þá hyggst ég kynna fyrir þingheimi þessa umsögn. Hún hljóðar á þessa leið:

„Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins harmar að niðurstaða allrar þeirrar umræðu sem staðið hefur um fjölmiðlun undanfarin misseri skuli einungis hafa leitt til þessa frv. sem nú liggur fyrir Alþingi og hv. menntmn. biður um álit á. Starfsmannafélagið hafði vonast til að niðurstaðan yrði frv. sem markaði stefnu þjóðarinnar í fjölmiðlun hvers konar á tímum einhverrar mestu menningarbyltingar sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir. Starfsmannafélagið hafði vonast til að frv. fjallaði um viðbrögð þjóðarinnar við erlendum gervihnöttum, kapalkerfum, stórauknu framboði á erlendu efni hvers konar, upplýsingabönkum, breyttum „menningarneysluvenjum“, auknum menntunarkröfum og allsherjar tölvuvæðingu þjóðfélagsins og framtíðarskipan málefna Ríkisútvarpsins. Í stað þess getur að líta örlitla viðbót við gildandi lög, viðbót sem felur í sér að einkaréttur ríkisins til útvarps er afnuminn og einkaaðilum og félögum er gert kleift að fjármagna dagskrárgerð með auglýsingatekjum.

Starfsmannafélagið óttast að eina afleiðing þessarar löggjafar verði að á höfuðborgarsvæðinu rísi tvær til þrjár litlar útvarpsstöðvar, sem útvarpa dægurtónlist og auglýsingum, og kapalkerfi fjölbýlishúsahverfa og þéttbýlisstaða úti á landi haldi áfram að sjónvarpa þriðja flokks afþreyingarmyndum. Því miður hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að áhugamenn um útvarpsrekstur myndu ætla að auka fjölbreytni í efnisvali, kynna hlustendum nýjar hliðar fjölmiðlunar eða á annan hátt bæta úr einhverju ástandi sem að líkindum er óviðunandi.

Starfsmannafélagið undrast að enginn skuli enn hafa svarað þeirri spurningu hvers vegna afnema beri einkarétt Ríkisútvarpsins til útvarps, hver sé þörf þeirra sem vilja heimila einkastöðvar, m.ö.o., hverju ætla menn að útvarpa og sjónvarpa, sem ekki er þegar sinnt í Ríkisútvarpinu?

Starfsmannafélagið minnir á að þjóðin er fámenn, en telur að meiri hluti nefndar þeirrar sem samdi nýtt frv. að útvarpslögum hafi samið það með milljónaþjóð í huga, bæði hvað varðar fjárhagslegar og dagskrárlegar forsendur. Félaginu þykir einsýnt að fjárhagslegur grundvöllur Ríkisútvarpsins verði skertur með þessu frv.“ — mér leyfist kannske að skjóta því inn að það sjónarmið kom mjög fram í máli hv. þingflokksformanns Páls Péturssonar áðan — „og bendir á að meiri hluti útvarpslaganefndar virðist vilja auka opinbera skattheimtu til þess að gera einstaklingum og félögum kleift að eiga og reka útvarpsstöðvar og hagnast á rekstri þeirra. Það er gert ráð fyrir í grg. frv. að til þess að mæta skertum auglýsingatekjum geti Ríkisútvarpið hækkað afnotagjald sitt að vild og innheimt með fógetavaldi sem fyrr.

Ríkisútvarpinu eru lagðar fjölmargar skyldur á herðar í frv. og ljóst er að ekki á að draga úr hlutverki þess á nokkurn hátt. Því fagnar Starfsmannafélagið, en bendir jafnframt á að fjárþörf stofnunarinnar mun heldur aukast en hitt og trúlega verður að grípa til hækkunar afnotagjalda, ef auglýsingatekjur dragast saman við tilkomu nýrra útvarpsstöðva. Slíkt er auðvitað ekkert annað en bein hækkun opinberra gjalda og Starfsmannafélagið efast um að þeirri ráðstöfun verði fagnað með þjóðinni, sérstaklega með það í huga að óbeint væri verið að greiða niður útvarpsstöðvar á vegum einstaklinga og félaga. Á það er einnig rétt að benda að þar eð Ríkisútvarpinu er einu gert að vera landsútvarp mundi hækkun afnotagjalda vegna tilkomu nýrra útvarpsstöðva, sem einungis næðu til hlustenda á suðvesturhorni landsins, bitna mjög misjafnlega á landsmönnum.

Starfsmannafélagið hafði vonast til að í frv. yrði afdráttarlaust tekin afstaða til allra þeirra tækninýjunga og stórlega breyttu viðhorfa sem við blasa á sjóndeildarhring fjölmiðlunar nútímans. Sérstaklega hafði Starfsmannafélagið vonast til að Ríkisútvarpinu yrði gert kleift að hefja fræðsluútvarp á myndarlegan hátt. Hugmyndir um fræðsluútvarp hafa lengi verið á döfinni, en einhverra hluta vegna hafa yfirvöld aldrei tekið af skarið í þeim efnum. Að hagnýta tækninýjungar nútíma fjölmiðlunar fyrir fræðslukerfi landsmanna ætti að vera efst á blaði allra þeirra þm. sem með þessi mál fara. Starfsmannafélagið lýsir miklum vonbrigðum vegna þess að þessu máli er ekkert sinnt í frv. umfram það sem verið hefur.

Í frv. er ekki tekin afstaða til sjónvarps um gervihnetti erlendis frá né á hvern hátt skuli brugðist við stórauknu framboði á erlendu efni hvers konar. Ekki er fjallað um á hvern hátt megi efla innlenda dagskrárgerð eða með hverjum hætti Ríkisútvarpið geti staðið öflugan vörð um íslenska menningu og sérkenni þegar að er sótt úr öllum áttum. Félagar í Starfsmannafélaginu hafa undrast þann vilja meiri hluta útvarpslaganefndar að vilja drepa kröftunum í innlendri dagskrárgerð á dreif á þann hátt sem gert er í frv.

Í frv. er ekki fjallað um tölvuvæðingu landsins og síðan kapalvæðingu. M.ö.o. er ekki fjallað um einn þýðingarmesta þátt nútíma fjölmiðlunar, tölvuna, upplýsingabanka og aðgang manna að þeim, tvíhliða samskipti um kapal og skoðanakannanir, hverjir megi eiga sjónvarpstextafyrirtæki. Þá er ekki heldur fjallað um eignaraðild manna að fjölmiðlunarfyrirtækjum yfirleitt.

Víða erlendis hafa verið settar skorður við eignaraðild fyrirtækja, sem eiga dagblöð, á þann veg að þau mega ekki eiga sjónvarps- eða útvarpsstöðvar. Raunar vill Starfsmannafélagið benda menntmn. á að enda þótt margar fróðlegar greinar sé að finna í fskj. frv. leitaði útvarpslaganefnd ekki heimilda um stöðu þessara mála í Bandaríkjunum, með þeirri þjóð sem hvað lengsta reynslu hefur í fjölmiðlun hvers konar“ — og ef mér leyfist að bæta við frá eigin brjósti: er þar sannarlega í fararbroddi.

Í umsögn Starfsmannafélagsins segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Eins og fram kemur í athugasemdum, sem þessu skrifi fylgja, bendir Starfsmannafélagið á nokkur atriði sem það telur að betur megi fara í því frv. sem nú er fjallað um. Hér er vakin sérstök athygli á kaflanum um fjármál Ríkisútvarpsins og lagt til að hann verði allur gerður ákveðnari. Menntmn. er bent á ákvæði um fjármál norska ríkisútvarpsins í norskum lögum, þar sem nákvæmlega er tíundað hverjir tekjustofnar þess eru. Auk þess vill Starfsmannafélagið benda á að Ríkisútvarpinu er gert að greiða söluskatt af auglýsingatekjum sínum, en dagblöð eru undanþegin slíkum skatti auk fjölda tímarita.“

Því má kannske bæta við hér til skýringar að samkvæmt hugsun söluskattslaga er því slegið föstu að frjálsir fjölmiðlar séu ekki gefnir út í eiginhagsmunaskyni, jafnvel ekki í ágóðaskyni, heldur af einhverri hugsjónaþörf. Og fyrir því skulu þau vera söluskattslaus, eins og talið var að málgögn stjórnmálaflokka ættu að vera af augljósum hugsjónaástæðum.

„Hér að framan hafa verið rakin örfá atriði sem telja má eðlilegt að ný útvarpslög hefðu átt að spanna. Starfsmannafélagið vill að það komi skýrt fram að það er á engan hátt mótfallið breytingum á núverandi stöðu í fjölmiðlun hér á landi og vill að Ríkisútvarpið hafi forgang um slíka þróun. Það bendir Alþingi á að hægt væri að kanna raunverulega þörf manna á nýjungum í útvarpsrekstri með því að heimila litlar stöðvar, staðbundið útvarp, líkt og gert er í Svíþjóð og víðar, án þess að slík starfsemi yrði kostuð með auglýsingum.

Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins vill að endingu ítreka að félagar þess eru ekki mótfallnir eðlilegri þróun á sviði fjölmiðlunar og að landsmenn allir fái notið alls þess sem framtíðin ber í skauti sér í þeim efnum. Að það skuli draga í efa réttmæti þess, að einkaréttur Ríkisútvarpsins sé rýmkaður á þann hátt sem lagt er til í frv., grundvallast einungis á þeirri skoðun starfsmanna Ríkisútvarpsins, sem unnið hafa að dagskrárgerð, fréttaflutningi og tæknilegri þróun útvarps og sjónvarps hér á landi undanfarna áratugi og þekkja aðföng og aðstæður allar, að með því verði stórlega dregið úr möguleikum þjóðarinnar allrar til þess að njóta og hagnýta sér þær tækninýjungar sem fram undan eru.

Benda má á að þessi afstaða starfsmanna Ríkisútvarpsins er þeim sjálfum kannske ekki til hreinna hagsbóta, því finna má því stað að meðal þeirra séu einmitt þeir sem ráðnir yrðu til að setja á fót einkastöðvar með auglýsingaútvarpi og að líkindum á mun betri kjörum en þeim sem bjóðast nú hjá Ríkisútvarpinu.“ — Um það efast væntanlega enginn sá sem fylgst hefur með þeim tíðindum sem orðið hafa í kjaradeilum opinberra starfsmanna nú þessa dagana.

Að lokum segir hér: „Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins þakkar menntmn. Nd. Alþingis fyrir að fá tækifæri til að láta álit sitt í ljós í svo þýðingarmiklu máli sem þessu. Jafnframt lýsir það þeirri skoðun, að lög um útvarp í landinu þurfi í reynd að spanna miklu stærra svið allrar rafvæddrar fjölmiðlunar í nútíð og framtíð, framtíð upplýsingaþjóðfélagsins, þar sem tekið er fullt tillit til íslenskra aðstæðna og íslenskrar framtíðar.“ Hér lýkur tilvitnun í þessa umsögn Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins.

Ég vil aðeins bæta því við að mér sýnist augljóst af þessum texta að starfsmenn Ríkisútvarpsins hafi átt ærið erindi bæði við menntmn. og við hæstv. menntmrh. Þótt ég sé engan veginn sammála öllu því sem hér kemur fram finnst mér þetta vera vel grunduð og umhugsunarverð umsögn, sem menntmrh. og menntamálanefndir og reyndar Alþingi þurfi að kynna sér og íhuga.

Það er auðvitað lengi hægt að tíunda hér umsagnir. Ég ætla ekki að gera það frekar en orðið er. Vil þó vekja athygli á örfáum umsögnum og stikla aðeins á aðalatriðum. Þar er ég sérstaklega með í huga Bandalag ísl. listamanna, en þar skrifar formaður þess, Þorkell sigurbjörnsson, sína umsögn. Hún er stutt og laggóð, en þar segir m.a. með leyfi forseta:

„Þær óskir sem listamenn allir eiga sameiginlega eru:

— að útvarp (hljóðvarp/sjónvarp) standi vörð um listrænt tjáningarfrelsi og fullnægi í hvívetna ríkjandi lögum um höfunda- og flutningsrétt,

— að íslenskur útvarpsrekstur sé fyrst og fremst starfsvettvangur íslenskra hagsmuna, en ekki sjálfsagður dreifari alþjóðlega skemmtiiðnaðarins,

— að móðurmál okkar heyrist þar meir og betur en allar aðrar þjóðtungur samanlagt,

— að íslenskir listamenn, bæði höfundar og flytjendur, hafi forgang umfram starfsbræður sína frá öðrum löndum.“

Án þess að vitna í umsögn Blaðamannafélags Íslands vil ég aðeins vekja athygli á henni. Hún á margt skylt með umsögn Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins sem ég kynnti ítarlega áðan. En blaðamenn sjá sérstaklega ástæðu til að vekja athygli á alþjóðlegum reglum eða samkomulagi um ritstjórnarstefnu stjórnenda fjölmiðla, um vísi að atvinnulýðræði, þ.e. íhlutunarrétt og tillögurétt starfsmanna í stjórnum fjölmiðla og um að samviskuástæður blaðamanna, þ.e. siðareglur blaðamanna, verði virtar. Allt eru þetta hlutir sem þarf að sjálfsögðu að taka ekki síður tillit til við rekstur slíkra stöðva heldur en við dagblaðarekstur.

Öðrum mun kannske fremur renna blóðið til skyldunnar en mér að kynna umsagnir fjórðungssambanda. Þegar hefur borist t.d umsögn frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga þar sem hreyft er þeim sjónarmiðum í andmælaskyni við þetta frv. að hinar nýju stöðvar muni að öllum líkindum ekki ná til allra landsmanna og vikið að fjármálum Ríkisútvarpsins í því sambandi mjög í líkum dúr og ég hef þegar gert. Þar er enn fremur lýst yfir stuðningi við landshlutaútvarp og óskað eftir stuðningi við það.

Ég held að það sem þegar hefur fram komið í mínu máli nægi til að sýna fram á að þetta er geysilega stórt og þýðingarmikið mál, afdrifaríkt vissulega og mun hafa langvarandi og mikil áhrif á íslenskt þjóðlíf. Það varðar íslenskt þjóðerni. Það varðar stöðu íslenskrar menningar. Og það hlýtur að vera yfirvöldum menntamála mikið umhugsunarefni. Út frá þeim forsendum einum saman er mér beinlínis óskiljanlegt hvers vegna hæstv. menntmrh. væntanlega telur sjálfum sér trú um og þingheimi að unnt sé að hespa þetta mál af í gegnum þingið á 21 degi. Það er mér með öllu óskiljanlegt. Ég trúi því ekki að óreyndu að flokkspólitískt offors ráði þar gerðum hæstv. ráðh. umfram málefnaleg og hlutlæg sjónarmið. Það er alveg augljóst mál að þetta mál þarf rækilega umfjöllun. Það þarf skoðun í mjög víðtæku samhengi. Framkvæmd þess á tilraunatímanum verður að skapa aðlögunartíma, bæði út frá iðnaðarsjónarmiðum sem ég hef þegar vikið að og út frá sjónarmiðum dagskrárgerðarmanna og sjónarmiðum og viðurkenndum siðareglum heilbrigðrar samkeppni á markaði. Það er ekkert launungarmál að einn fjölmiðlarisi er þegar stofnaður og er í startholunum að grípa nú tækifærið um leið og hægt væri að hespa fram lagaheimildum á Alþingi. Í þessum þrí- eða fjórhöfða þurs, fjölmiðlarisa, er saman komið allt vald, Morgunblað, Dagblað/Vísir, sem ráð hefur á 80–85% af íslenska dagblaðamarkaðinum. Þar er stærsti einokunarhringur Íslands, ef ekki í heimi. Þar er að sjálfsögðu átt við Samband ísl. samvinnufélaga sem er komið þar í bland við tröllin. (Gripið fram í.) Fjölmiðlaþursarnir sem ég var að nefna, hv. skrifari. Ég sagði: Þessi auðhringur, Samband ísl. samvinnufélaga, sennilega hlutfallslega einhver stærsti auðhringur í nokkru þjóðfélagi sem uppi er. Ef tekið væri það hlutfall, þ.e. borin saman velta auðhringsins við þjóðartekjur, mun leitun á slíkum auðhring. Ég þekki engan bandarískan auðhring sem ræður yfir jafnháu hlutfalli bandarískra þjóðartekna og Samband ísl. samvinnufélaga hér á landi.

Ég segi: Það er vitað mál að þessi fjölmiðlaþurs er þegar skapaður. Það var eitthvert heitasta deilumálið á aðalfundi Sambands ísl. samvinnufélaga, eins og hv. þingskrifari hlýtur að vita gjörla, ef ekki manna best. (Gripið fram í: Hæstvirtur.) Hæstvirtur já, minna má það ekki vera. — Og ég sagði: Út frá almennum siðareglum í samkeppni tel ég ekki nema sjálfsagt mál að aðrir aðilar í íslensku þjóðfélagi fái aðlögunartíma til að búa sig undir samkeppni við þetta samþjappaða ofurvald fjármagnsins á Íslandi. Það getur jafnvel skipt sköpum um það hver verður niðurstaðan af þessari tilraun, af þeirri reynslu sem við fáum af þessari tilraun, að svo verði gert. Þess vegna bið ég hæstv. menntmrh., sem að sjálfsögðu er skynsamur stjórnmálamaður, umburðarlyndur og réttsýnn, að fara ekki með þvílíku offorsi í þessu máli.

Ég sagði áðan að þetta mál væri stórmál, það væri menningarpólitískt stórmál. Það vekur upp stórar spurningar og stórar spurningar vekja stundum ekki upp mikil svör. Það er ekki nóg að fara offari á torgum og gatnamótum með kröfuna um frelsi við hún. Menn verða að vita hvað er verið að tala um. Frelsi hverra er verið að tala um? Við erum að sjálfsögðu fyrst og fremst að tala um frelsi íslensku þjóðarinnar, tjáningarfrelsi íslensku þjóðarinnar. Við erum fyrst og fremst að tala um að virkja nýja tækni í þágu lýðræðis skv. leikreglum lýðræðisins. Við erum væntanlega ekki að tala um frelsi tiltölulega fámennra plútókrata eða auðhyggjupostula. Við viljum vita: Frelsi til hvers? Við viljum vita: Frelsi á kostnað hverra? Við viljum væntanlega öll taka undir hið hóflega kjörorð hins gamla umburðarlynda Sjálfstfl. um frelsi með ábyrgð, sem ævinlega hefur verið sett fram á þann veg að alveg eins og réttindum fylgja skyldur, þá fylgja frelsinu skilyrði, takmarkanir og jafnvel á stundum eftirlit.

Herra forseti. Ég skal nú draga saman niðurstöður míns máls og þá sérstaklega víkja að ýmsum ábendingum og tillögum sem við jafnaðarmenn viljum koma á framfæri.

Það er nú í fyrsta lagi ein spurning: Er nægilega fyrir því séð í þessu frv. að réttindum fyrirhuguðum og auknu frelsi fylgi um leið skilgreindar skyldur og kvaðir? Alkunna er að Ríkisútvarpið er skuldbundið til þess að sinna, án greiðslu, margvíslegri almannaþjónustu. Við erum veiðimannasamfélag, eigum allt okkar undir veðri og vindum, og forsjóninni, bæði á sjó og landi. Ríkisútvarpið er veðurviti, það annast veðurþjónustu. Það annast alla þjónustu við farmenn og sjómenn, öryggisþjónustu, almannavarnaþjónustu. Hver er hugsun hæstv. ráðh. og flutningsaðila þessa frv. í þeim efnum? Er ætlunin að leggja einhverjar slíkar kvaðir og skyldur á hinar frjálsu útvarpsstöðvar? Gefum okkur það t.d að einhver slík stöð standi sig vel í samkeppninni og öðlist mikla hlustun. Ef hún hefur engum slíkum skyldum að gegna, hvað gerist þá þegar hljóðmerki almannavarna berst í gegnum gamla gufuradíóið og fáir eru til hlustunar? Ég held að það sé augljóst mál að þessa spurningu verður að hugsa til enda.

Ég vil líka vekja athygli á því að skyldurnar á Ríkisútvarpinu eru auðvitað tengdar því að það er útvarp allra landsmanna með kostum sínum og göllum. Mér skilst hins vegar að dreifingarsvæði hinna væntanlegu frjálsu stöðva sé nokkurn veginn það sama og Mjólkursamsölunnar, þ.e. það takmarkist frá Gilsfjarðarbotni að Lómagnúpi. Og spurningin er: Ef svo er, þá er hætt við að þær geti nú ekki axlað allar þær skyldur sem á gamla gufuradíóinu hvíla.

Annað sjónarmið sem náttúrlega er stórmál og við vekjum athygli á: Það er nóg, að okkar mati, að gera þessa tilraun fyrsta kastið eingöngu að því er hljóðvarp varðar, ekki sjónvarp. Ég hef vikið að því og fært að því rök að margt í þessum tillögum, sem hér hafa verið færðar fram miðist nánast við það að við séum milljónaþjóðfélag, að hér sé um að ræða ótakmarkaða fjármuni. Það er ekki nægilegt tillit tekið til séríslenskra aðstæðna. Þetta er náttúrlega ekkert nýtt. Við erum ævinlega og í allt of ríkum mæli að apa hugsunarlaust eftir stærri þjóðfélögum og gleymum því að einstaklingar í fámennum þjóðfélögum eru jafnvel oft bærari til þess og gildari til þess að hugsa sjálfstætt en jafnvel múgurinn þarna í stóru þjóðfélögunum. Þess vegna er ástæða til að leggja ríka áherslu á að við verðum að reyna að móta þessa þróun út frá séríslenskum aðstæðum.

Um kapalkerfi gegnir hins vegar öðru máli. Þau eru út af fyrir sig sjálfsögð. Þau eru líka lokuð kerfi og þau verða væntanlega ekki rekin með auglýsingatekjum heldur áskrift.

Að því er varðar auglýsingamálið, þá hef ég þegar sagt að við styðjum þau skilyrði sem sett eru í löggjöfinni að því er varðar útvarpsréttarnefnd. En það má bæta þar einu atriði við. Þau skilyrði voru settar reglur um gerð auglýsinga út frá hlutlægni og þess háttar sjónarmiðum. Í annan stað auglýsingataxtar og ákvæði um hlut auglýsinga í dagskrárgerð. Við teldum ósköp eðlilegt jafnframt þessu að hinar nýju frjálsu útvarpsstöðvar greiddu verulegt gjald, bæði leyfisgjald og eins konar menningarsjóðsgjald, í opinbera sjóði sem væri eins konar skattlagning á aðgang þeirra að ljósvakanum. Hvers vegna? Til þess að auðvelda þessu litla menningarsamfélagi að halda sínum hlut í innlendri dagskrárgerð, í framleiðslu innlends efnis, til að mæta sívaxandi erlendri samkeppni. Þannig fylgir einhver þungi, einhverjar raunverulegar aðgerðir, fögrum orðum manna um að vilja styðja við bakið á íslenskri menningarstarfsemi.

Að því er varðar spurninguna um hverjir eigi og hverjir reki þessar stöðvar, þá vil ég ítreka það sem ég sagði áður: Ég teldi æskilegt að þetta yrðu opin félög, að sjónarmið neytenda, hlustenda, yrðu þar gildandi og að almennar reglur yrðu settar um það.

Loks vil ég benda á tvær brtt., sem við munum væntanlega flytja um þetta mál, sem varða ekki meginstefnu þess. Hin fyrri er sú að við teljum löngu tímabært að leggja niður með öllu innheimtudeild Ríkisútvarpsins í heild sinni. Þar er um að ræða úrelta aðferð og dýra. Það sem við viljum sjá í staðinn er einfaldlega nefskattur á alla, frá vissum aldri til sjötugs, sem greiddur yrði mánaðarlega. Innheimtukerfið er eins og ég sagði ófullkomið, dýrt og úrelt. Og það er tilefni til þess, úr því verið er að endurskoða lögin, að fella það niður.

Loks er hér í 14. gr. getið um ráðstefnur. Það er í kaflanum um Ríkisútvarpið. Ætlunin er að boða annað hvert ár til samráðs við hlustendur um innlenda dagskrárgerð. Við munum að sjálfsögðu styðja þá tillögu, en leggjum til að slíkar ráðstefnur verði haldnar á hverju ári.

Herra forseti. Ég held að í máli mínu hafi ég vakið upp nægilega margar spurningar og sýnt fram á að það er svo margt sem ekki er að finna í þessu frv. sem þar ætti að vera. Ég hef fært að því ítarleg rök að það er sjálfsagður hlutur og nauðsynlegur að taka hvort tveggja undir í einu, útvarpslög og fjarskiptalög. Jafnframt hef ég bent á að það eru fjölmargar spurningar sem eru þess eðlis að til þess verður að ætlast að hæstv. ráðh. svari þeim eða geri grein fyrir því í þessum almennu umr. hver er stefna hæstv. ráðh. og ríkisstj. að því er þær spurningar varðar.

Fyrsta spurning sem hæstv. ráðh. þarf að svara er auðvitað sú sem fram kom í máli þingflokksformanns þeirra framsóknarmanna: Hvers vegna þessi asi? Má ekki vænta þess að látið verði af pólitísku .offorsi og engar tilraunir verði gerðar til að keyra þetta mál í gegnum þingið gegn vilja meiri hluta þess eða beita bolabrögðum í því efni? Það á að gefa þm. nægilegan tíma til þess að ræða svona stórmál.

Ég vil eindregið beina því til hæstv. ráðh. að taka aths. og ábendingar starfsmanna Ríkisútvarpsins til gaumgæfilegrar og jákvæðrar skoðunar. Það væri æskilegt að fá að heyra sjónarmið hæstv. ráðh. og afstöðu til þeirra. Sömuleiðis teldi ég alveg sjálfsagða kurteisi og lýðræðislega skyldu að svara erindum sem borist hafa frá fjórðungssamböndunum um hver á að vera hlutur hinna dreifðu byggða að því er þetta mál varðar og hvort samþykkt þessa máls muni óhjákvæmilega leiða til óbeinnar skattheimtu gegnum bakdyrnar eða niðurgreiðslna af hálfu þeirra þótt þeir nytu ekki gæðanna. Mig langar til þess að beina því til hæstv. ráðh. hvort hún tekur ekki undir þau rök sem ég þykist hafa fært í mínu máli fyrir nauðsyn verulegs aðlögunartíma, bæði út frá sjónarmiðum íslenskrar dagskrárgerðar og sjónarmiðum íslensks iðnaðar, sbr. erindi sem verkfræðingar hafa beint til Alþingis. Ég vil gjarnan heyra hvað hæstv. ráðh. hefur til málanna að leggja með það hvernig hún, út frá menningarpólitískum forsendum, hyggst hlúa að innlendri dagskrárgerð á komandi og verandi umrótstímum sívaxandi erlendra áhrifa. Ég mundi gjarnan vilja heyra hvað hæstv. ráðh. teldi sjálfsagt að gera til að tryggja að slagorðið um frelsi snúist ekki upp í andstæðu sína um einokun hinna fáu, þannig að tryggt sé að aðrir aðilar fái notið eðlilegrar samkeppni á þessum markaði þegar þar að kemur. Loks vildi ég gjarnan heyra undirtektir ráðh. við þeim tillögum Alþfl. sem ég fór yfir áðan, t.d þá að þessi tilraun yrði einungis gerð að því er varðar útvarp, en ekki sjónvarp, um afnám innheimtudeildar, um aðild hlustenda að stjórn útvarpsins eða útvarpsréttindanefndar o.fl.

Ég lýk þessu máli mínu með því að vitna í ekki minni spámann en Voltaire. Við eigum auðvitað að starfa að þessu máli í anda hans þegar hann sagði í frægu bréfi:

„Ég hef að vísu mestu skömm á skoðunum yðar, en ég mun berjast til síðasta blóðdropa fyrir rétti yðar til þess að halda þeim fram.“ — [Fundarhlé.]