17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2104 í B-deild Alþingistíðinda. (1584)

233. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Kjartan Jóhannsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. iðnrh. gerði hér áðan grein fyrir hænufeti sínu, lækkun eða afnámi verðjöfnunargjaldsins. Þessi mál hafa stundum komið til umfjöllunar hér og ráðh. hafði gefið yfirlýsingu, eins og hann gat um, um að afnema þetta gjald í áföngum og jafnframt yrði þá séð fyrir fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða.

Eins og kom fram í máli ráðh. átti ég sæti í þessari nefnd, sem ég tel að hafi unnið að málinu af einlægni og leitast við að setja fram hugmyndir sem gætu þá komið í stað verðjöfnunargjaldsins, eins og fyrir hana hafði verið lagt, og að fylgja þeirri forskrift sem iðnrh. hæstv. hafði gefið um að fjárhag þessara fyrirtækja væri borgið. Þær urðu niðurstöður nefndarinnar, sem var undir formennsku hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar, að þetta mætti vera mögulegt ef litið væri til nokkurra þátta sem skiptu verulegu máli.

Í fyrsta lagi væri augljóst að fyrirtækjum þeim sem hér um ræðir, Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða, væri gert í rauninni skv. opinberri stefnu að selja raforku til húshitunar á lægra verði en gæti talist kostnaðarverð orkunnar og það væri ekki hægt að sjá að ef raforkan ætti að vera samkeppnisfær við önnur upphitunarform væri unnt að vera með aðra verðlagningu. Raforkusala til hitunar er þung hjá þessum fyrirtækjum, þau þjóna köldum svæðum, og ef tekjustofn eins og hér um ræðir félli niður væri augljóst að eðlilegt væri að mæta því tapi sem fyrirtækin í rauninni yrðu fyrir vegna þess að þau seldu raforkuna til húshitunar á lægra verði en virtist vera eðlilegt kostnaðarverð. Þess vegna var þetta einn þátturinn í tillögum nefndarinnar til þess að standa undir þeim útgjöldum sem á þessi fyrirtæki eru lögð meira og minna fyrir opinbera tilstuðlan.

Í annan stað þótti ljóst að til þess að halda uppi eðlilegri þjónustu væri á þessi fyrirtæki lagt að leggja í framkvæmdir sem augljóslega gætu ekki staðið undir sér. Um það væru í raun teknar ákvarðanir hér á Alþingi við afgreiðslu fjárlaga, lánsfjárlaga eða með öðrum hætti, og þegar Alþingi stæði að slíkum ákvörðunum væri eðlilegt að þeim mismun sem á fyrirtækjunum lenti umfram það sem vantaði upp á í niðurgreiðslu á stofnkostnaði til þess að framkvæmdin gæti staðið undir sér, yrði jafnframt mætt með svokölluðum félagslegum þætti.

Í þriðja lagi stóð þá aftur af nokkur fjárhæð sem nefndin taldi að væri ekki unnt að mæta með öðrum hætti en að rétta nokkuð af skuldbindingar fyrirtækjanna að því er varðaði þau lán sem þau hefðu tekið, þannig að hægt væri að leiða sæmilegar líkur að því að afkoma fyrirtækjanna yrði viðunandi áfram.

En jafnframt hlaut nefndin að líta nokkuð til tekjumyndunar hjá þessum fyrirtækjum því að við hljótum að minnast þess að gagnrýnin á verðjöfnunargjaldið stafar m.a. af því, og kom það mjög glögglega fram í umr. hér í fyrra, að langflestar rafveitur á landinu selja raforku sína, aðra raforku en til húshitunar, svo við tökum það sérstaklega, á hærra verði en þau fyrirtæki sem hér um ræðir. Við erum sem sagt að leggja verðjöfnunargjald á raforkunotendur á Stokkseyri, í Keflavík, á Eyrarbakka, Húsavík, Selfossi, Vatnsleysuströnd, í Hveragerði, Grindavík, Miðneshreppi, Njarðvík, á Reyðarfirði, í Gerðahreppi, Hafnarfirði, Borgarnesi, á Sauðárkrók, sem greiða hærra raforkuverð en gildir hjá Rafmagnsveitum ríkisins, til þess að halda niðri verðinu hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða. Af 22 rafveitum í landinu eru sem sagt 15 með hærra raforkuverð en þær rafveitur sem greitt er með með verðjöfnunargjaldinu. Þess vegna komst nefndin að þeirri niðurstöðu að eðlilegt væri að jafna þennan mun. Menn teygðu sig til samkomulags um það að taka ekki stór eða óvægileg skref, heldur skyldi miðað við að verðlag á raforku hjá þessum fyrirtækjum til annarra hluta en húshitunar væri þá í þessum áfanga a.m.k. svo að það væri vegið meðalverð hjá öðrum rafveitum en þeim sem eru með mjög lágt verð af sérstökum orsökum, þ. á m. Rafveita Akureyrar og Akraness. Það væri fróðlegt að vita hver stefna ríkisstj. er varðandi þetta atriði núna þegar á að taka þetta hænufet úr 19% niður í 16.

Það er mjög einfalt að bera saman, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði, Hjörleifur Guttormsson, raforkuverð í Reykjavík og raforkuverð hjá Rafmagnsveitum ríkisins og segja: Það var svo hér um árið að það var 90% hærra hjá Rafmagnsveitum ríkisins en hjá Rafveitu Reykjavíkur. Ég dreg það ekkert í efa. En ef við lítum á stöðuna eins og hún er í dag er raforkuverðið hjá Rafveitu Stokkseyrar 72% hærra til heimilisnota en hjá Rafveitu Akureyrar. Hér er því um verulega mismunun að ræða. Það er um þriðjungi hærra hjá Rafveitu Stokkseyrar en það er hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Og það eru fleiri rafveitur í þessum hópi.

Ég skal ekki fjölyrða mjög um þetta mál, en ég fullyrði að nefndin reyndi að leggja sig fram um að mæta þeim hugmyndum sem hún taldi að ráðh. legði til grundvallar og vinna þetta út frá eins skynsamlegum forsendum og hún gat komið auga á.

Nú sagði hæstv. ráðh. að hugmyndin væri að taka þetta mál upp aftur að hausti og lýsti því yfir að ríkisstj. mundi þá leggja fram frv. sem miðaði að því að leggja niður verðjöfnunargjaldið. Það væri fróðlegt að vita frá ráðh. hvort það hafa komið fram einhverjar aðrar hugmyndir en þær sem ræddar voru í nefndinni um leiðir til að tryggja afkomu þeirra fyrirtækja sem hafa notið verðjöfnunargjaldsins. Mér er forvitni á því, vegna þeirrar vinnu sem hæstv. „fúnkerandi“ forseti og ég og fleiri lögðum í að reyna að koma þessu saman, að vita hvort menn hafi fundið einhverjar betri leiðir eða hvort líklegt sé að þessar leiðir verði farnar eftir mánuð.

Að lokum aðeins eitt. Í nefndinni var rætt, rétt eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði hér að umtalsefni, að stundum hefði verið til umræðu að prósentuálag eins og hér hefði verið tíðkað væri ekki skemmtileg aðferð, hún kæmi mjög misjafnt niður. Þá borguðu þeir mest sem væru með hæst raforkuverðið fyrir. Það varð hins vegar að samkomulagi í nefndinni, vegna þess að hér væri um mjög mikla lækkun að ræða, úr 19 niður í 10, mjög verulegt skref, að halda sig þá við prósentuna. En ég verð að segja að þegar skrefið er orðið svona lítið, þannig að gjaldið eigi að vera 16% á næsta ári, þá sýnist mér að forsendurnar séu undan því að vera hér með prósentuálag og það væri hlutverk þessarar deildar og þessa þings að láta setja frv. upp með þeim hætti að hér yrði um krónutölu að ræða. Ég er sannfærður um að um það yrðu langtum meiri sættir innan þings ef sú leið yrði farin en að halda sig við prósentuna ef hún á að vera svo há sem hér um ræðir.

Að endingu hefði ég gjarnan viljað heyra það af munni hæstv. ráðh. hvaða fjárhæðir það væru sem til stæði að skuldbreyta því að hér er gefin afdráttarlaus yfirlýsing um að gert er ráð fyrir að það eigi sér stað skuldbreyting hjá þessum fyrirtækjum. Mér finnst ekki nema eðlilegt að deildinni sé gerð grein fyrir því hvaða fjárhæð sé verið að semja um í þessu sambandi.