17.12.1984
Neðri deild: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2118 í B-deild Alþingistíðinda. (1597)

235. mál, Háskóli Íslands

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er nú ekki of oft sem okkur þm. gefst tækifæri til að ræða málefni þeirrar merku stofnunar sem er Háskóli Íslands. Út af fyrir sig er hægt að fagna tilefni til þess hér og nú þó nokkuð sé liðið á kvöld. En ég verð þó að segja að það undrar mig nokkuð ef svo mikið hastar um þetta mál að það þarf að drífa það hér á dagskrá með afbrigðum undir miðnætti, jafnvel þó að nál. úr hv. Ed. sé enn ekki orðið kalt í höndum þm., dagsett þennan sama dag, og sjá menn þá í hendi sér að ekki hefur gefist mikill tími til að athuga það hér í þessari deild.

Ég held að í sjálfu sér sé ekki endilega ástæða til að ætla að ágreiningur þurfi að rísa um þetta mál. Ég held þó að þessi þd. þurfi meiri upplýsingar í hendur en bara þær að hér séu á ferðinni einhverjar tillögur frá háskólaráði, þó það sé hin gagnmerkasta stofnun og alls góðs makleg og til alls góðs vís. Hér er vissulega nokkurt nýmæli á ferðinni í íslensku menntakerfi þar sem gerð er till. um það að menntastofnun gerist með þessum hætti aðili að atvinnulífinu. Að vísu er það þekkt af erlendri fyrirmynd að menntastofnanir á háskólastigi tengist atvinnulífi, þróunar- og rannsóknarstarfsemi með þessum hætti, en það er ekkert sjálfgefið í þessum efnum.

Ég held því að við hljótum að taka okkur nokkurn tíma til þess, þm., a.m.k. eins og einn sólarhring, að skoða það.

Ég fer því fram á það, ef ekki er þeim mun meiri nauðsyn til að klára þessa 1. umr. hér og nú í kvöld, að henni verði frestað og okkur gefist ofurlítið meiri tími til að athuga málið. Ég hef ýmsar spurningar sem mér þætti fróðlegt að fá svarað í þessu sambandi. T.d. vaknar strax sú spurning hvernig þessa nýju starfsemi innan veggja Háskólans eigi að fjármagna, hvernig Háskólanum verði gert kleift að inna þetta hlutverk af hendi þannig að um muni og þannig að það verði þá ekki bara nafnið tómt, því vissulega er Háskólinn með mörg brýn verkefni á sinni könnu nú þegar. Honum hefur gengið grátlega hægt að koma upp húsnæði yfir sína starfsemi og veitti ekki af öllum þeim aurum sem hann hefur aflögu í þann málaflokk einan. Ég tel því að ef þetta eigi að geta orðið barn í brók þá þurfi að koma til einhvers konar sérstök fjáröflun. Og ég finn ekkert í þeim knappt orðuðu fskj. sem hér eru sem gefi nokkrar vísbendingar um það hvernig að þeim hluta málsins verði staðið.

Það eru einnig fleiri breytingar sem skotið er hér inn með í þessu frv., svo sem eins og að skipta verkfræði- og raunvísindadeild upp í tvær sjálfstæðar deildir. Ég tel það út af fyrir sig eðlilegt í ljósi þeirrar þróunar sem þar hefur orðið. Einnig eru þarna ákvæði um flutninga á mönnum milli stöðuheita innan Háskólans og má segja að það sé einnig eðlilegt, eðlileg rýmkunarákvæði sem þar eru flutt. En þriðja breytingin sem hér er gerð er það nýmæli sem fyrst og fremst felst í þessu frv., þ.e. þessi þróunarstofnun. Hún er ný og þar af leiðandi hljóta menn nú að velta því svolítið fyrir sér með hverjum hætti verði best staðið að þeirri breytingu til þess að hún nái tilgangi sínum.

Það eru ýmsar fleiri hugmyndir á kreiki um það hvernig megi efla Háskóla Íslands. Ég hef verið talsmaður þess að honum yrði gert kleift að koma upp útibúi norður á Akureyri, flutti um það brtt. við 2. umr. fjárlaga að honum yrði skaffað í það nokkurt fjármagn. Ég held að við hljótum að taka aðrar slíkar hugmyndir til meðferðar í sömu andrá og við erum að ræða hér þetta merka nýmæli, og ég tel mig a.m.k. ekki í stakk búinn til þess að gera það hér og nú í kvöld, hafandi fyrir mér nál. Ed., dagsett þennan sama dag, og málið allt rekið áfram með þeim hraða sem raun ber vitni. Ég vil því í fyrsta lagi spyrja að því hvort brýnar ástæður séu fyrir því að málum er svona hagað. Ef svo er ekki, þá fer ég fram á það, herra forseti, að okkur gefist aðeins rýmri tími til að fjalla um þetta mál.