18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

218. mál, norskt sjónvarp um gervihnött

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég vona að þingheimur geri sér grein fyrir þeim þverstæðum sem fram koma í þessari umr. og þessu máli sem hér er á dagskrá. Í allt haust höfum við verið að þrátta um það hvort rýmka ætti einkarétt Ríkisútvarpsins á því að senda út á öldum ljósvakans. Við höfum deilt um það hvort hér ætti að ríkja einokun á þessum vettvangi eða hvort auka ætti svigrúmið og leyfa fleirum að spreyta sig í útvarpsog sjónvarpsmálum. Það mál virðist nú eiga erfitt uppdráttar, sumir segja að það sé dautt í nefnd. En á sama tíma rennur hér í gegn, að því er virðist án þess að Alþingi hafi af því nokkur afskipti, að Íslendingar eigi þess kost að fá að sjá efni frá norska sjónvarpinu. Að vísu rís nú Alþfl. enn einu sinni upp til þess að andæfa og rekur upp ramakvein með sinn hefðbundna hræðsluáróður þegar kemur að frelsi í útvarpsmálum.

Hv. 5. landsk. þm. Eiður Guðnason hefur af því miklar áhyggjur að slíkar útsendingar séu ekki textaðar, hvernig sem hann ætlar nú að fara að því að texta útsendingar sem eru sendar beint. Ætlar t.d. Eiður Guðnason kannske að gera kröfu um það að útsendingar frá BBC séu textaðar þegar þær nást hér á útvarpstækjum á Íslandi? Auðvitað veit hann það sjálfur að það er aðeins rugl að vera að tala um að texta beinar útsendingar í sjónvarpi og ég get ekki séð hvaða rök standa að baki slíkum málflutningi.

En af hverju er þetta að verða staðreynd að Íslendingar geti séð beinar útsendingar frá norska sjónvarpinu? Það er vitaskuld vegna þess að tæknin gerir það kleift. Tæknin er komin á það stig að þetta er auðveli mál. Hér eru menn að streitast gegn þessari þróun og flytja langar og grafalvarlegar ræður. En það er alveg sama hvað fluttar eru margar ræður, þessi þróun verður ekki stöðvuð og menn verða að gera sér grein fyrir því að hér á allra næstu misserum, eða a.m.k. árum, verður okkur kleift að ná sendingum frá mörgum öðrum gervihnöttum. Ætla menn þá að standa hér upp í þinginu og banna það að Íslendingar notfæri sér þá möguleika? Ætla Íslendingar gjörsamlega að einangra sig frá þessari tækni og þessum möguleikum og banna íslensku þjóðinni að njóta þessa efnis? (Forseti hringir.) Ég held, herra forseti, að þetta geti því miður endað með því að það ríki ef ekki fullkominn glundroði, þá fullkomið frjálsræði í því að íslenska þjóðin geti náð útsendingum frá ýmsum gervihnöttum, þessum norska og mörgum öðrum, á allra næstu misserum og árum. Kannske endar með því að allir nema Íslendingar sjálfir hafa frelsi til að spreyta sig í sjónvarps- og útvarpsmálum. Ég tek undir það að norska sjónvarpsdagskráin er ekki sú skemmtilegasta í heimi og ég mun ekki verða fastur áhorfandi að henni. En ég vil hins vegar fagna þeirri viðleitni og því frumkvæði sem fram kemur hjá hæstv. menntmrh. í þessu máli vegna þess að ég held að þetta sé fyrsta sporið í þá átt að brjóta niður þá veggi afturhalds og einangrunar sem sífellt er verið að reyna að reisa hér af ýmsum stjórnmálaöflum á Íslandi.