18.12.1984
Sameinað þing: 36. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2176 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

200. mál, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er full ástæða til að fagna því að hér skuli lögð fram og tekin til umr. till. til þál. um fyrirkomulag á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Þó í grg. með þessari till. sé að finna ýmsar gagnmerkar upplýsingar um fjölda fatlaðra barna og hve áætla megi að mörg þeirra þurfi á þeirri þjónustu að halda sem Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins á að veita verður ekki hjá því komist að gera athugasemdir við ýmislegt sem fram kemur í þáltill. sjálfri og grg. Ekki síst það að ekki er í þessari þáltill. að finna að nægjanlega sé tekið á þeim málum er snerta greiningarstöðina og ágreiningur var uppi um hér á Alþingi fyrir rúmlega ári þegar frv. um málefni fatlaðra var til afgreiðslu á hv. Alþingi.

Þau atriði, sem ég mun koma að í máli mínu og voru raunar helsta ástæðan fyrir því að Alþingi ákvað að afgreiða ákvæði um Greiningarstöð ríkisins með þeim hætti að skipa nefnd til að gera tillögur um fyrirkomulag og framtíðarskipan stöðvarinnar, þannig að Alþingi gæti tekið afstöðu til framtíðarskipulags þessara mála, eru enn mjög óljós og þær forsendur, sem ýmsir alþm. töldu að þá vantaði til að hægt væri að taka afstöðu í þessu máli, liggja raunar ekki fyrir enn og er ekki að finna í þessari þáltill.

Ég vil taka það fram strax í upphafi að þó ég geri athugasemdir við ýmislegt sem fram kemur í þessari þáltill. og sem ekki er að finna þar, þá er það mín skoðun að það starf sem fyrirhugað er að fram fari í Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sé mjög brýnt og raunar hafi dregist úr hömlu að taka ákvarðanir í þessu máli.

Verkefni Greiningarstöðvar ríkisins er aðallega greining á fötlun og að leitað sé réttrar meðferðar og úrræða strax og fötlunar verður vart. Ráðgjöf við foreldra er ein meginundirstaða þess að mikið fatlað eða þroskaheft barn hafi möguleika til að ná sem bestum andlegum og líkamlegum þroska og brýnt að strax þegar fötlunar verður vart dragist það ekki að finna rétt meðferðarúrræði.

Sú greiningarstarfsemi sem á undanförnum árum hefur farið fram í athugunar- og greiningardeildinni í Kjarvalshúsi hefur ótvírætt sannað gildi sitt og það er aðdáunarvert hve fámennt starfslið þar hefur áorkað miklu við þröng skilyrði og í allt of litlu húsnæði. Segir það sína sögu að á undanförnum árum hefur verið eins og hálfs til tveggja ára biðlisti á hverju ári að koma börnum þar að í greiningu og meðferð og eru nú 65 börn þar á biðlista.

Athugasemdir þær sem ég set fram byggjast ekki á andstöðu við þetta mál. Þvert á móti tel ég mjög brýnt að allra leiða verði leitað til að koma greiningar- og ráðgjafarstarfsemi fyrir fötluð og þroskaheft börn í viðunandi og stærra húsnæði.

Athugasemdir mínar eru fyrst og fremst settar fram til að fyrirbyggja að ýmislegt það komi fram á síðari stigum þessa máls sem verður til þess að tefja að framkvæmdir geti hafist.

Í 1. lið þáltill. er gert ráð fyrir að félmrn. og menntmrn. beiti sér fyrir því að athugunar- og greiningardeild í Kjarvalshúsi að Sæbraut á Seltjarnarnesi verði breytt í Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, þ.e. fyrsta áfanga í þróun þeirrar stofnunar. Síðan kemur fram í þáltill. að á næstu þremur árum verður undirbúin bygging framtíðarhúsnæðis Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og verði við það miðað að sú bygging verði fullbúin tveimur árum síðar.

Miðað við forsögu og aðdraganda að þessari framkvæmd óttast ég að þar sem ekki eru dregnar skýrar línur í þessari þáltill. um að ábyrgð á allri framkvæmd og yfirstjórn þessara mála verði strax í höndum eins rn., þ.e. félmrn., eins og lög gera ótvírætt ráð fyrir, torveldi það og tefji fyrir allri framkvæmd þar sem enn virðist eiga að blanda menntmrn. inn í þetta mál og geti því orðið um vissa skörun milli rn. að ræða og skilin óljós á næstu árum hver ábyrgð beri í þessu máli.

Í þessu sambandi tel ég ástæðu til að fara nokkrum orðum um aðdraganda þessa máls.

Þegar lög um aðstoð við þroskahefta voru samþykkt á Alþingi 1979 var fyrst gert ráð fyrir stofnun Greiningarstöðvar ríkisins, án þess að í lögum væri tekin afstaða til þess undir hvaða rn. yfirstjórn Greiningarstöðvar ríkisins félli. Áður en lög um aðstoð við þroskahefta voru samþykkt hafði yfirstjórn athugunar- og greiningardeildar í Kjarvalshúsi verið í höndum menntmrn., en deildin er stjórnarlega í tengslum við Öskjuhlíðarskólann. Sérstök stjórnarnefnd var þá skipuð sem fara átti með málefni þroskaheftra, en málefni þroskaheftra áttu þá að heyra undir þrjú rn., þ.e. hjúkrunar- og sjúkradeildir undir heilbr.- og trmrn., fræðsla undir menntmrn. og önnur mál undir félmrn. Áttu fulltrúar þessara þriggja rn. m.a. sæti í stjórnarnefnd um málefni þroskaheftra. Þegar til átti að taka, fljótlega eftir að þessi lög voru samþykkt og hefja átti undirbúning að framkvæmd við Greiningarstöð ríkisins, þá torveldaði það mjög alla framkvæmd og undirbúningsvinnu að ekki var tekin afstaða til þess í lögum um aðstoð við þroskahefta undir hvaða rn. Greiningarstöð ríkisins átti að heyra, en sá vísir sem til var að greiningarstöð sem fram fór í athugunar- og greiningarstöðinni í Kjarvalshúsi, eins og áður sagði, heyrði þá undir menntmrn. Mikil togstreita var milli félmrn. og menntmrn. um hvort rn. ætti að hafa með yfirstjórn þessara mála að gera og hver bæri ábyrgð á þessu máli. Varð það til þess að draga mjög á langinn og tefja alla framkvæmd. Ekki var úr því máli leyst fyrr en með samþykkt laga um málefni fatlaðra, sem samþykkt voru á Alþingi 1983, þar sem tekið er af skarið um að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins heyri undir félmrn. Þessi ágreiningur milli rn. kom skýrt fram í umfjöllun félmn. Nd. um frv. um málefni fatlaðra. Í nál. félmn., þegar það afgreiddi þetta mál, kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Við umfjöllun nefndar á málinu hefur það tafið afgreiðslu málsins að í ljós kom að meiri háttar ágreiningur var uppi milli menntmrn. og félmrn. um IV. kafla frv. er snertir Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Vegna þessa ágreinings voru félmrh. og menntmrh. boðaðir á fund nefndarinnar“.

Ágreiningurinn milli rn: fólst m.a. í því að fulltrúi menntmrn. taldi að óþarfi væri að setja á fót sérstaka Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, sem IV. kafli laga um málefni fatlaðra gerði ráð fyrir, og taldi nægjanlegt að bæta við þrettán sérfræðingum innan þeirra stofnana sem fyrir eru, sem að einhverju leyti sjá nú um greiningu og meðferð fyrir fatlaða. Að auki kom fram í umsögn menntmrn., undirritaðri af Magnúsi Magnússyni sérkennslufulltrúa, að öllum hlyti að vera ljóst að það rn. sem fer með uppeldis- og kennslumál stjórnaði þessum þætti þeirra mála eins og öðrum.

Þar sem ágreiningur virtist vera til staðar milli þessara rn. um framtíðarskipulag Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, og raunar yfirstjórnina einnig, tel ég það mjög óheppilegt að bæði þessi rn., eins og hér er gert ráð fyrir í till., hafi sameiginlega með það að gera að breyta þeirri starfsemi sem fyrir er, enda bendi ég aftur á að í lögum um málefni fatlaðra eru skýlaus ákvæði um að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins heyri undir félmrn. og hlýtur félmrn. því að eiga að bera ábyrgð á framkvæmd málsins á öllum stigum málsins og við undirbúning framkvæmda. Reyndar var það svo einnig að skipan þeirrar nefndar sem fjallaði um till. og fyrirkomulag á framtíðarskipan Greiningarstöðvar ríkisins, sem hér er fjallað um, var í höndum félmrh. þó að fulltrúi menntmrn. skipaði einn fulltrúa í nefnd frá athugunar- og greiningardeildinni í Kjarvalshúsi, en þessi deild hefur verið stjórnunarlega í tengslum við Öskjuhlíðarskóla og undir yfirstjórn menntmrn.

Á það má einnig benda að þrátt fyrir þessi lög kemur fram í fjárlagafrv. að athugunar- og greiningardeildin heyrir enn undir menntmrn., en rekstur stöðvarinnar, greiningarstöðvarinnar í Kjarvalshúsi, er á fjárlögum undir liðnum „skólar fyrir þroskahefta“. Því tel ég að enn sé verið að stíga skref til baka inn í fortíðina, þegar blanda á aftur menntmrn. inn í þetta mál. A.m.k. tel ég að taka verði af allan vafa um það í þessari þáltill., þannig að þegar í stað verði yfirstjórn þessara mála flutt til félmrn., eins og lög gera ráð fyrir, og ekki eigi þar að bíða þar til fullbúið verður framtíðarhúsnæði fyrir Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem alls óvíst er hvenær tilbúið verður eins og ég mun koma að hér á eftir.

Ég mun því ásamt hv. þm. Helga Seljan flytja brtt. við þennan 1. tölul. þáltill., sem breytt verður hér væntanlega á morgun, um að tekin verði af öll tvímæli um að yfirstjórn þessara mála verði þegar í stað flutt yfir í félmrn.

Í annan stað er gert ráð fyrir í 1. lið þessarar till., eins og þar segir, að jafnframt verði athugaðir möguleikar á kaupum á húsi í næsta nágrenni við Kjarvalshús í því skyni að auka þá greiningar- og ráðgjafarstarfsemi sem nú fer fram í Kjarvalshúsi.

Í lögum um málefni fatlaðra er gert ráð fyrir að menntmrn. skuli þegar í stað gera ráðstafanir til að leigja eða kaupa hentugt bráðabirgðahúsnæði fyrir starfsemi athugunar- og greiningardeildarinnar í Kjarvalshúsi. Í samræmi við þetta bráðabirgðaákvæði var á árinu 1983 fest kaup á húseigninni Sæbraut 2 og átti þar með að bæta úr því neyðarástandi sem ríkt hefur og það húsnæði koma til viðbótar þeirri starfsemi sem verið hefur í athugunar- og greiningardeildinni í Kjarvalshúsi. Áætlað var að hefja starfsemi að Sæbraut 2 haustið 1984 og hefur komið fram að nýjar stöðuheimildir séu forsenda þess að hægt sé að bæta og auka þjónustumöguleika greiningarstöðvarinnar í Kjarvalshúsi. Enn liggur ekki fyrir hvort heimildir fáist fyrir þær stöðuveitingar, en eftir því hefur verið leitað við fjárlagaafgreiðslu.

Því hefði verið æskilegt, ef hæstv. félmrh. hefði verið hér til staðar, að fá um það upplýsingar hvort kaup á húsi í næsta nágrenni við Kjarvalshús, sem hér er talað um í þáltill., eigi að koma til viðbótar þeirri húseign sem fest voru kaup á á árinu 1983 að Sæbraut 2 — eða er hér verið að fjalla um það hús sem enn hefur ekki verið hægt að hefja starfrækslu í þó kaupin hafi farið fram? Þetta tel ég mjög brýnt að fá upplýst áður en málið fær hér fullnaðarafgreiðslu.

Í 2. lið þáltill. kemur fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Á næstu þremur árum verði undirbúin bygging framtíðarhúsnæðis við Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Verði við það miðað að sú bygging verði fullbúin tveim árum síðar.

Einnig verði fjármagni beint á þessu fimm ára tímabili að uppbyggingu meðferðarúrræða og greiningar- og ráðgjafarþjónustu í öllum landshlutum samhliða aukningu á starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.“

Ég er vissulega sammála því, sem hér kemur fram, að nauðsynlegt er að koma á greiningar- og ráðgjafarþjónustu í öllum landshlutum og raunar er gert ráð fyrir því í lögum um málefni fatlaðra. Hér er um mjög umfangsmikla greiningarstarfsemi að ræða sem ráð er fyrir gert að koma verði á fót í öllum landshlutum. Það sem ég hef við þetta að athuga er að málið skuli sett upp með þessum hætti í þáltill. vegna þess að með þessum hætti er í raun gengið lengra en lögin segja til um. Hér er verið að binda fjármagn sjóðsins til næstu ára í þessi verkefni, en skv. lögum um málefni fatlaðra er það hlutverk stjórnarnefndar að ráðstafa fé sjóðsins í samræmi við ákvæði 34. gr. þeirra laga að fengnum tillögum svæðisstjórna og umsögn viðkomandi rn. Er það í raun hlutverk stjórnarnefndar og svæðisstjórna að gera framkvæmdaáætlanir um uppbyggingu þjónustu fyrir fatlaða á svæðunum, en með þessum hætti sýnist mér að bundið sé fjármagn til sjóðsins til ákveðinna verkefna næstu árin, enda segir í grg. með þessari þáltill. að nefndin leggi til að á næstu þremur árum verði fjármagni beint að uppbyggingu og meðferð úrræða- og ráðgjafarþjónustu í öllum landshlutum og samhliða verði aukning á starfsemi greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar á Seltjarnarnesi sem var lýst í þessari þáltill. Einnig segir í grg. með þáltill. að á þessu þriggja ára tímabili verði undirbúin fjármögnun og bygging á framtíðarhúsnæði fyrir Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og skuli sú bygging verða fullbúin á tveim árum, þ.e. innan fimm ára.

Það er auðvitað nauðsynlegt að gera við það athugasemd að í þessari ítarlegu grg. skuli ekki vera hægt að finna stafkrók um það hver áætlaður er byggingarkostnaður og rekstrarkostnaður við Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins þegar með þessari þáltill. er gert ráð fyrir að Alþingi taki afstöðu til þess að hún verði fullbúin á næstu fimm árum og að byggingartími verði í raun tvö ár. Hæstv. félmrh. fór þó nokkrum orðum um það í sinni framsöguræðu, en nauðsynlegt hefði verið að sundurliðuð kostnaðaráætlun hefði fylgt þáltill.

Samkv. kostnaðaráætlun, sem gerð var á árinu 1981 og dags. 7. jan. 1982, er gert ráð fyrir að kostnaður við byggingu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins á verðlagi í des. 1981 sé 35 millj. Lætur nærri að það sé nálægt 100 millj. miðað við verðlag í dag. Árlegur rekstrarkostnaður var á árinu 1982 áætlaður 10–12 millj. sem gera verður ráð fyrir að í dag sé ekki undir 30 millj. (Forseti: Má ég vekja athygli hv. ræðumanns á því að við höfum ekki lengri tíma núna til umráða fyrir þessa umr. og umr. verður frestað. Ef hv. ræðumaður vildi gera hlé á ræðu sinni, þar sem það þykir heppilegt, á næstu mínútu eða svo.) Já, ég get gert hlé á ræðu minni strax ef forseti óskar.