19.12.1984
Neðri deild: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2302 í B-deild Alþingistíðinda. (1801)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Það væri ærin ástæða að flytja hér langt mál um sjávarútveg almennt en ætli sé nú tími eða aðstaða til þess. Ég vil þó minna á mjög athyglisverða ræðu sem hv. 4. þm. Reykv., Birgir Ísl. Gunnarsson, flutti hér fyrr í kvöld. Þar komu fram ákaflega athyglisverðar hugleiðingar. Hv. þm. skýrði vel frá þeim ótta sem hann bæri í brjósti í sambandi við kvótakerfið og hafði þann hátt á eins og fleiri stjórnarþingmenn að hann hefði fyrirvara á þessari afstöðu sinni og þó hann fylgdi þessu frv. að þessu sinni væri hann í sjálfu sér andvígur kvótakerfinu.

Ég ætlaði að víkja örlítið að einum þætti úr þeirri áróðursmaskínu, sem kom hér m.a. frá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni og hefur dunið yfir landsmenn stóran hluta af þessu ári, að fiskgæði og, eins og hv. þm. tók til orða, bætt meðferð á fiski á þessu ári hefði verið óumdeilanleg. Já, það er nokkuð gott að fullyrða svona. Hvað skyldi það vera sem fyrst og fremst orsakar gæði fisks? Það er í fyrsta lagi tíðarfar, gæftir, netafiski. Ef gæftir eru slæmar hrynja yfirleitt gæðin niður. Sama er að segja um togara, þó að það sé ekki í eins ríkum mæli, í mjög slæmu veðurfari, en þó ekki í nærri jafnríkum mæli og með netafisk. Norðmenn hafa t.d. þann hátt á við Lofoten að þar verður að draga net daglega. Slíku væri ekki hægt að koma á hér. Við sækjum dýpra á netaveiðum en Norðmenn gera. Þeir sækja ákaflega stutt á miðin við Lofoten. Fiskibátum er þar að vísu úthlutað ákveðnum veiðisvæðum. En við komumst ekki og getum ekki fyrirskipað að vitja neta daglega af ástæðum sem allir þekkja sem kunnugir eru.

Þetta er fyrsta ástæðan. Það má nokkuð sjá gæði fisks eftir gæftum.

Annað atriði sem hefur ákaflega mikil áhrif á gæði eru skreiðarmarkaðir. Ef skreiðarmarkaðurinn í Nígeríu er góður hrynja gæðin niður. Dauðblóðgaður fiskur fer allur í skreið til Nígeríu. Nígería hefur sjaldan verið lokaðri en á árinu 1984. Gæftir á árinu 1984, fyrri hluta árs a.m.k., voru betri víðast hvar á landinu en 1983. Bara þessar tvær ástæður hafa gífurlega mikið að segja í þessum efnum.

Það er algerlega rangt að á árinu 1984 hafi komið eitthvert óþekkt gæðamat sem ekki hafi þekkst áður á Íslandi. Ég hef hér fyrir framan mig upplýsingar frá Jóhanni Kúld, fyrrv. fiskmatsmanni, sem er maður sem ég held að enginn, sem kunnugur er íslensku fiskmati eða íslenskum sjávarútvegi, rengi upplýsingar frá. Hann upplýsir það að á s.l. 15 árum þá hafi 5 ár á tímabilinu skilað yfir 60% af netaþorski í 1. gæðaflokki. 1978 eru 62.5% af netafiski í 1. gæðaflokki, af þorski, 1979 er 67.5, ekki var kvóti þá, 1980 er 61.3, 1981 er 57.7, 1982 er það 57.2, 1983 er það 58.5 og 1984 er það 64.6%.Það eru því 5 ár með yfir 60% og eitt ár 1979, röskum 3% hærra en 1984. Menn skulu ekki vera með svona fullyrðingar án þess að hafa kynnt sér mál, án þess að leggja til grundvallar hvernig markaðir eru og hvernig tíðarfar og gæftir hafi verið þó það þjóni pólitískum málstað þeirra í augnablikinu og allra síst formaður sjútvn. Nd., sem ég hef reynt að því í sambandi við sjávarútvegsmál að fara ákaflega ógætilega bæði með staðreyndir og tölur. (Gripið fram í.) Já, ég hef heyrt það áður að hv. formaður sjútvn. Nd. lýsir því ávallt yfir — hver sem í hlut á — að hann þekki það jafnvel og viðkomandi. En því miður er reynsla mín önnur, að þær upplýsingar, sem gefnar eru af hv. formanni, séu oft ansi takmarkaðar.

Ég held að það fari ekkert á milli mála og vil ítreka það að betra tíðarfar 1984, góðar gæftir víða um landið, hafi gert meira til að bæta gæðin 1984 en 1983. Veiðarfæratap er líka meira í slæmu tíðarfari en góðu eða sæmilegu. Ég held að það fari heldur ekkert á milli mála og það hefur oft verið haft á orði af framleiðendum og öllum sem hlut eiga að máli að það verði ákaflega erfitt að auka gæðin verulega meðan gott verð fáist fyrir skreið. Það eru að vísu takmörk fyrir því hvað hægt er að setja í skreið þó það sé fyrir Nígeríu. En þar hefur oft verið gengið ansi langt.

Það voru út af fyrir sig fróðlegar upplýsingar að Hagstofan hefði verið aðili að þessari könnun. Hagstofan er ein af þeim fáu stofnunum íslenska ríkisins — (Gripið fram í: Maður af Hagstofunni.) Maður af Hagstofunni, en Hagstofan sem slík er ein af þeim fáu stofnunum íslenska ríkisins sem menn leyfa sér yfirleitt ekki að vefengja gagnstætt við formann sjútvn. Nd.

Ég vil líka taka fram að það er engan veginn gefið, þó að það sé fyrsta skilyrði að fiskur komi góður upp úr sjó og til löndunar, að eftirlit með vinnslu hafi verið betra. Ég minni á og oft hefur verið á það bent að eftirliti t.d. með hráefnisgeymslum frystihúsa er mjög áfátt. Ég þekki þessi mál töluvert sjálfur og hef samband við fjölda fiskvinnslufólks. Á þessu hafa ekki orðið neinar breytingar þó gert væri ráð fyrir því í lögum.

Þó að t.d. stíf sókn í jan. gefi oft lítið í aðra hönd þá er kvóti líka oft betur nýttur yfir sumarið og staðan oft hæpinn ágóði. Auk þess er ég á því að hann auki siglingar sem er meira en lítið vafasamt fyrir þá sem í landi starfa. En rétt er að hafa þetta í huga, betri gæftir, lokaðir skreiðarmarkaðir í Nígeríu og grunur um að eitthvað af fiski fari fram hjá, ég vil ekki um það fullyrða. Þetta er þó nokkuð há tala, 24%. Sami eigandi fiskiskips og fiskverkunarstöðvar hefur þarna möguleika. Hitt er rétt, sem hæstv. sjútvrh. kom inn á í sinni ræðu, að gerðar hafa verið ráðstafanir til að sporna við þessu hvort sem það hefur tekist eða ekki. En ef við gerum ráð fyrir einhverju örlitlu broti og höfum hliðsjón af lokuðum skreiðarmörkuðum og góðum gæftum og fjarri því að gæðamat skeri sig nokkurn hlut úr — að vísu er það með því besta sem verið hefur en hefur þó farið hærra — þá er ljóst að engar afgerandi sannanir liggja fyrir í þessu. Menn ættu ekki að vera að fullyrða mikið í þessu efni, það er ákaflega hættulegt. Ég er satt að segja orðinn nokkuð þreyttur á fullyrðingum formanns sjútvn. Nd. og væri reiðubúinn að eiga orðastað við hann um allar hans fullyrðingar.

Ég held að hættan í sambandi við kvótann sé ekki einungis auknar siglingar sem ég hef tilgreint heldur, eins og hv. 4. þm. Reykv. kom inn á, að mönnum væri tryggður þessi afli. Þá er möguleiki á að selja kvóta og þetta skapar a.m.k. til lengri tíma ákveðna hættu og nokkuð sýnt að hlutaskipti-ef menn telja þau æskileg — mundu leggjast af eða a.m.k. stefna í þá áttina.

Ég býst við að hæstv. sjútvrh. segi að öll svona skömmtun sé neyðarúrræði. Hún skapar ákveðna hættu á að atvinnugrein stirðni, skip séu gerð að löggiltum aflaskipum. Það þekkjum við gegnum tíðina að menn hafa komið upp kannske á lélegum skipum og á nokkuð stuttum tíma og orðið frábærir aflamenn. Ég held að það sé ákaflega hætt við að atvinnugreinin sem slík stirðni. Hitt væri ærið freistandi að ræða um sjávarútveg almennt. Ég lofaði því í upphafi að það skyldi ekki gert. En þó vil ég segja að íslenskur sjávarútvegur stendur þannig að menn sem stunda sjó flýja þá atvinnugrein í vaxandi mæli og í fjölmörgum sjávarútvegsplássum á landinu þar sem þessi atvinnugrein er ein og alger uppistaða sækir fiskvinnslufólk ákaflega stíft úr þessari atvinnugrein. Þetta er ákaflega áberandi og væri hægt að nefna fjölmörg dæmi. Það er ekki reisn yfir þeirri atvinnugrein sem heldur uppi gjaldeyrisöflun heillar þjóðar og starfsfólk almennt leitar úr. Ég skal viðurkenna að það er ærinn vandi að halda á sjávarútvegsmálum Íslendinga. En ég held líka að það þyrfti að taka í þeim vanda af meiri festu en gert er þó ég skuli viðurkenna að það sé hægara um að tala en í að komast. Mér sýnist hnignun á ýmsum sviðum og ískyggilegur flótti úr þessari grein.