18.10.1984
Sameinað þing: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

12. mál, leit að brjóstakrabbameini

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil nú leiðrétta hjá hv. síðasta ræðumanni að lítið sem ekkert hafi verið gert í tannheilsumálum því að lagðir hafa verið fram miklir fjármunir fyrir tilstilli þess læknis sem er starfandi í hlutastarfi í heilbr.- og trn., sem runnið hafa til allra heilsugæslustöðva í landinu. Ég vil hvetja hv. þm. til að kynna sér það starf nánar sem þar hefur verið unnið frá því að læknir var þar ráðinn.

Ég hef lesið nál. og vitanlega hefði ég margt út á nál. að setja. Alveg sérstaklega að það er bent á margt sem var búið að benda á áður, en eins kom margt nýtt frá nefndinni, enda væri annað óeðlilegt. En það sem ég setti út á þetta nefndarstarf var hvað var lítið unnið úr því sem nefndin benti á Núna er starfandi nefnd til þess að vinna m.a. úr því. Ég lagði mikla áherslu á að hún yrði búin að sínu starfi fyrir 15. okt., en það er nú þannig með öll nefndarstörf yfir sumarmánuðina að erfitt er að ná mönnum saman. Nú bætist það við að formaður nefndarinnar er önnum kafinn frá morgni til kvölds í því verkfalli sem nú stendur yfir. Allt þetta verður til þess að tefja fyrir því að nefndin skili af sér, en ég vona að úr því rætist.