29.01.1985
Sameinað þing: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2419 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

184. mál, fullvinnsla kjötafurða

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Ég vil taka undir fsp. hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur um þetta mál og þakka henni fyrir að vekja máls á fullvinnslu kjötafurða í héraði. Ég harma að ráðh. skyldi ekki geta lagt meira til málsins en kom fram áðan.

Það ber að þakka að Sláturfélag Suðurlands hefur flutt verulega aukna kjötvinnslu til Suðurlands frá því sem var, en það vantar að gera mikið meira í þessum efnum og dugar ekki að flytja kjötiðnaðinn í stórauknum mæli í nýja stórbyggingu í Reykjavík. Þess í stað á að byggja austan fjalls.

Sem betur fer eru fleiri aðilar á Suðurlandi með kjötvinnslu en Sláturfélag suðurlands. Það eru bæði Kaupfélagið Höfn á Selfossi og einnig fer fram veruleg kjötvinnsla á Hellu, í Þykkvabæ og Vík. Þar er um að ræða minni fyrirtæki en Sláturfélag Suðurlands. En það er meginmál og hv. þm. hefur hér vakið athygli á því, að við búum við atvinnuleysi á Suðurlandi og það er ekki vert að magna það með því að flytja atvinnuna í burtu. Það er hægt að stórauka kjötvinnslu heima fyrir og það verður að gera þá kröfu til fyrirtækjanna á Suðurlandi að þau standi að því að efla atvinnuna þar en flytji hana ekki í burtu.