29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2436 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

130. mál, auðlindarannsóknir á landgrunni Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég get tekið almennt undir efni þeirrar þáltill. sem hv. þm. Gunnar G. Schram flytur hér um auðlindarannsóknir á landgrunni Íslands. Ég tel það skyldu okkar Íslendinga að sinna rannsóknum á þeim svæðum sem við gerum tilkall til og liggja innan okkar efnahagslögsögu. Það er nánast forsenda þess að við getum áfram og með góðri samvisku haldið fram okkar rétti þar svo og til svæða sem liggja utan núverandi efnahagslögsögu. Þetta gildir vissulega ekki aðeins um rannsóknir til hafsins. Hið sama gildir um rannsóknir á landi. Þeim hefur þó verið meira sinnt en rannsóknum á hafsbotninum til þessa.

Vel kunnar eru umræður á alþjóðavettvangi, m.a. í tengslum við hafréttarsáttmálann, sem í rauninni leggja þjóðríkjum ákveðnar skyldur á herðar, að sinna rannsóknum, nýtingu og stýringu á nýtingu á þeim svæðum sem þær gera tilkall til og hafa rétt til að alþjóðalögum. Á þessu sviði höfum við verið næsta lítilvirkir til þessa að því er varðar landgrunn Íslands. Á því eru sumpart nokkuð eðlilegar skýringar, hve fjárhagslegt bolmagn okkar er takmarkað. Þó tel ég að við hefðum getað þokað og ættum að þoka þessum málum fram með skipulegum hætti og ákveðnari hætti en hingað til ef vel á að vera.

Hv. flm. vakti athygli á og hefur raunar vikið að því í grg. með till. að nokkuð var að þessum málum unnið hér fyrir nokkrum árum. En svo virðist sem hin síðustu ár og í tíð núv. hæstv. ríkisstj. hafi þessum málum lítið verið sinnt. A.m.k. hef ég ekki orðið var við áætlanir eða áform sem tengjast rannsóknum á hugsanlegum auðlindum á landgrunni Íslands.

Ég tek þannig almennt undir efni þessarar till. Ég vil nota tækifærið til að víkja að öðrum þætti sem tengist þessu máli og var til umr. hér á Alþingi 1982–1983. Þá var flutt stjfrv. um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins. Það frv. var 150. mál Ed. á 105. löggjafarþingi. Það þing stóð óvenjustutt og var rofið í marsmánuði. Frv. fékk þá meðferð í Ed. undir þinglok að því var vísað til ríkisstj. Þar var hins vegar tekið á þætti sem tengist þeirri till. sem hér er til umr., þ.e. að skorið verði úr um það með löggjöf hver teljist eigandi að auðlindum hafsbotnsins. Ég hef ekkert til málsins spurt síðan, veit ekki hvað aðhafst hefur verið á vegum hæstv. núv. ríkisstj. í þessu máli. Og þar sem engir sitja hér ráðherrarnir er ekki kostur á að inna þá eftir framgangi þess. En það var iðnrn. og ég sem iðnrh. á þeirri tíð sem flutti þetta mál inn í þingið, og það var undirbúið af nefnd sem starfaði á vegum iðnrn., nefnd sem hafði á hendi skipulagningu og ráðgjöf um hagnýtar hafsbotnsrannsóknir, eins og hún var kölluð. Þar í hópi voru viðurkenndir lögfræðingar sem áttu hlut að mótun umrædds lagafrv., þ. á m. Benedikt Sigurjónsson fyrrv. hæstaréttardómari, og fleiri lögmenn unnu að undirbúningi þessa máls.

Frv. þetta fékk góðar undirtektir í umr. í þinginu. Það var mál manna að nauðsyn væri á að setja slíka löggjöf. En eitthvað þótti þingnefnd á þeim tíma skorta á fyllstu upplýsingar og tengsl við þá umr. sem þá fór fram varðandi hafréttarsáttmálann og hygg ég að það hafi ráðið úrslitum um tillögu nefndarinnar um að vísa málinu til ríkisstj. til frekari athugunar og fyrirgreiðslu.

Ég vil aðeins leyfa mér hér að vitna til aths. sem fylgdu þessu frv. Það er ekki langt mál, herra forseti. Þar segir í upphafi:

„Með lögum nr. 41 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, voru settar reglur um fullveldi Íslands yfir hafinu og hafsbotninum umhverfis landið. Þar segir í 2. gr., að fullveldisréttur Íslands nái til landhelginnar og hafsbotnsins innan hennar. Þá segir í 6. gr. laganna, að fullveldisrétturinn yfir landgrunninu taki til rannsókna og hagnýtingar á ólífrænum auðlindum, sem þar eru.

Þótt settar hafi verið lagareglur um fullveldisrétt Íslands yfir hafsbotninum, skortir reglur um eignarrétt og nýtingarrétt að auðlindum þeim, sem þar kunna að finnast, a.m.k. á svæðum utan netlaga.

Rannsóknir á hafsbotninum umhverfis Ísland eru skammt á veg komnar. Hagnýt efni hafa ekki til þessa verið numin af hafsbotni, ef frá eru skilin möl og sandur. Þó hefur nokkuð verið hugað að þeim efnum.“

Síðar í aths. með þessu frv. sagði: „Eins og að framan hefur verið rakið er lítið vitað um auðlindir á hafsbotninum við Ísland. Ekki er útilokað, að þar kunni að finnast verðmæt efni, sem unnt væri að hagnýta. Það er því brýn nauðsyn að setja hið fyrsta lagareglur um það hvernig háttað skuli eignarrétti að auðlindum þessum og nýtingu þeirra. Það er engum vafa undirorpið, að ríkið sem slíkt er eigandi að auðlindum þeim, er á hafsbotni kunna að finnast, og ræður yfir nýtingu þeirra. Er það í samræmi við viðurkenndar skoðanir manna í nágrannalöndum okkar.“

Þessa tilvitnun í aths. með frv. læt ég nægja. Ég taldi rétt að vekja athygli á þessu máli, sem nú er í höndum ríkisstj., og tel raunar eðlilegt að um það verði fjallað og það verði tekið upp í tengslum við meðferð þessarar þáltill. og reynt að ýta á eftir því við stjórnvöld að frv. þetta verði endurflutt, e.t.v. með einhverjum breytingum sem réttmætt væri talið að gerðar yrðu í ljósi þróunar hafréttarsáttmála, þó að ég eigi ekki von á því að það sem þar gerðist á lokastigi hafi í rauninni breytt nokkru að því er varðar stefnumótun frv.