29.01.1985
Sameinað þing: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2453 í B-deild Alþingistíðinda. (1951)

Umræður utan dagskrár

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í þessum umr. hefur vissulega verið dregin upp svört mynd af því alvarlega atvinnuleysi sem ríkir á Suðurnesjum og víðar og því öryggis- og réttindaleysi sem fiskverkunarfólk býr við. En af hverju er svo komið í undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar? Af hverju er svo komið að hundruð verkamanna og verkakvenna í fiskiðnaði eru atvinnulaus og fjöldi þeirra býr við atvinnuleysi svo að vikum skiptir? Höfum við á því einhverja skýringu af hverju svo er komið? Er við að fást utanaðkomandi áföll og erfiðleika, sem erfitt er að ráða við, eða heimatilbúinn vanda sem að verulegu leyti má rekja til óstjórnar og fyrirhyggjuleysis í sjávarútvegi? Stjórnvöld hopa ávallt í það horn þegar spurt er um ástæður og launafólki er gefin sú skýring á því af hverju kjör þeirra séu svo bágborin og erfitt úr að bæta að við sé að eiga sérstaklega aflabrest, markaðserfiðleika og verðfall sjávarafurða. En staðreyndin er sú, að þó að áföll sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir á undanförnum árum, svo sem aflasamdráttur, markaðserfiðleikar o.fl., hafi rýrt þjóðartekjur á undanförnum árum og skapað erfiðleika í sjávarútvegi, þá eru það minni háttar erfiðleikar samanborið við þau heimatilbúnu axarsköft og fyrirhyggjuleysi sem skrifast verður á reikning stjórnmálamanna. Ég vil halda því fram að það séu ekki síst þessi heimatilbúnu axarsköft sem skapað hafa mikinn vanda í sjávarútvegi og öryggisleysi í atvinnumálum fiskverkunarfólks og sjómanna og leitt til þess að verkafólk í þessari atvinnugrein hefur þurft að búa við sultarkjör.

Á það þarf vart að minna hér að Alþfl. varaði ítrekað við offjárfestingu í fiskiskipastólnum fyrir nokkrum árum, en talaði þá fyrir daufum eyrum. Nú er það almennt viðurkennt að við fórum þar of geyst í fjárfestingu. Nú er svo komið að skuldabyrði, ekki síst vegna gífurlegs fjármagnskostnaðar, er að kippa rekstrargrundvellinum undan útgerðinni og skapa atvinnuleysi í sjávarplássum vítt og breitt um landið. Það er ekki sannfærandi að leita skýringa á þessu ástandi í aflabresti og verðfalli sjávarafurða, en reyna að leyna eins og kostur er meginorsökum vandans, sem eru fjárfestingarmistök og dýr aðföng og slæm rekstrarskilyrði útgerðar og fiskvinnslu ekki síst þegar við höfum fyrir okkur að árið 1984 hefur reynst vera þriðja mesta aflaár sem við höfum búið við og verðmæti sjávarvöruframleiðslunnar 1984 hafa vaxið talsvert umfram almenna verðlagsþróun í landinu.

Það er staðreynd að við eyðum árlega mun stærri hluta af okkar þjóðartekjum í fjárfestingu en nágrannaþjóðir okkar og það sem verra er, að stórum hluta er árlega varið í þjóðhagslega óarðbæra fjárfestingu. Ég hef hér nefnt mistökin í fjárfestingarmálum í sjávarútvegi, en fjárfestingarmistökin liggja ekki bara hjá sjávarútveginum. Þar er skemmst að minnast að við höfum farið of geyst á umliðnum árum í virkjanaframkvæmdir, svo að dæmi sé nefnt. Það má nefna hér að fjármunamyndun í atvinnulífinu á árinu 1983 var rúmlega 3.5 milljarðar kr. og þar af var fjármunamyndun næsthæst í verslun og veitingastarfsemi eða 831 millj. kr. Fjármunamyndun á árinu 1983 var því meiri í verslun og veitingastarfsemi en öllum öðrum atvinnugreinum að undanskildum iðnaði. Engu að síður er verslunarrýmið á höfuðborgarsvæðinu tvöfalt meira á hvern íbúa en þekkist í stórborgum erlendis. Og áfram rísa samt þessar verslunarhallir og ekkert lát virðist vera á. Þó er alltaf kveinað hjá atvinnurekendum þegar leitað er leiða til þess að bæta kjör fólks sem vinnur við þessa starfsemi.

Það er líka ljóst að mikill viðskiptahalli og erlendar lántökur, sem nú eru að sliga þjóðarbúið. eru ekki síst afleiðing þess að allt of lengi hefur of stórum hluta þjóðartekna verið varið í óarðbæra fjárfestingu sem engin stjórn virðist vera á. Hér hefur verið rætt um þau slæmu kjör og öryggis- og réttindaleysi sem fiskverkunarfólk býr við. Það er deginum ljósara að þetta fólk sem og annað verkafólk hefur lagt fram sinn skerf á umliðnum mánuðum og árum til að rétta við sjávarútveginn og fiskiðnaðinn. Þetta fólk hefur fært sínar fórnir. Ríkisstj. réttlætti einmitt aðförina að launafólki, samningsrétti þess og kjörum og samdrátt í félagslegri þjónustu með því að segja launafólki að það væri að færa fórnir fyrir betri framtíð. Og hvaða framtíðarsýn dró þessi ríkisstj. upp fyrir launafólk? Jú, að fórnir launafólks mundu renna styrkum stoðum undir undirstöðuatvinnugreinar atvinnulífsins, ekki síst sjávarútveginn. Hægt væri að koma á nýsköpun í atvinnulífinu og ná niður verðbólgunni sem þýddi betri lífskjör og trygga atvinnu fyrir launafólk.

En hverjar eru staðreyndirnar sem við blasa? Sú mikla tekjutilfærsla sem átt hefur sér stað frá launafólki til fjármagnseigenda vegna mikillar kjaraskerðingar frá því að ríkisstj. tók við hefur verið áætluð 7–8 milljarðar kr. Einnig hefur verið áætlað að á verðlagi ársins 1984 megi meta tekjutap landsmanna vegna utanaðkomandi áfalla og rýrnunar þjóðartekna á árunum 1983 og 1984 upp á 5.5 milljarða. Ljóst er því að fyrir síðustu kjarasamninga var tekið mun meira af launafólki en nam falli þjóðartekna á árunum 1983 og 1984. Og nú er von að spurt sé: Hvað hefur orðið um þessa framtíðarsýn ríkisstj., bættu lífskjörin, atvinnuöryggið sem fórnir launafólks áttu að skila? Hefur styrkum stoðum verið komið undir undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar? Stendur sjávarútvegurinn betur nú en áður en launþegar voru krafðir um þessar miklu fórnir?

Atvinnuleysi á annað þúsund verkamanna og kvenna vítt og breitt um landið er varla til vitnis um það. Af hverju eru það milliliðirnir, heildsalarnir og verslunin sem helst blómstra, en ekki framleiðslu- og gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar þjóðfélagsins? Hefur nokkuð verið gert til þess að stöðva það að milliliðirnir mergsjúgi ekki undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar? Og enn má spyrja: Er atvinnuöryggi fólks meira nú en það var í upphafi valdaferils þessarar ríkisstj.? Er atvinnuleysi minna? Hvað segja atvinnuleysistölur? Jú, þær segja að atvinnuleysi hafi verið í maí 1983, þegar ríkisstj. tók við, 0.7%, en í s.l. mánuði eða í des. var atvinnuleysi orðið 1.6%. Og annað einnig. Svo hefur verið þrengt að launafólki að tölur frá Verðlagsstofnun og Hagstofu sýna ljóslega að framfærslubyrðin var heimilunum erfiðari á síðari hluta s.l. árs, þegar verðbólgan var 20%, en þegar hún var yfir 100%, þegar þessi ríkisstj. tók við. Og af hverju skilaði lækkandi verðbólga sér ekki betur í bættum launakjörum fólksins? Hvað hefur orðið um þá miklu fjármuni sem teknir voru af launafólki í þágu betri framtíðar, betri lífskjara og atvinnuöryggis?

Herra forseti. Það er ljóst að atvinnuleysi það sem hundruð verkamanna og verkakvenna býr nú við bitnar ekki síst á konum og lætur nærri að 75% af fiskverkunarfólki, sem nú er atvinnulaust, séu konur, enda er það staðreynd, ekki bara hér á landi heldur annars staðar þar sem fólk býr við atvinnuleysi, að það eru ekki síst konurnar sem atvinnuleysið bitnar á. Það mega konurnar einnig þola auk þess að skipa að stærstum hluta láglaunahópanna í þjóðfélaginu. Og eitt er víst: Það hlýtur að koma að því fyrr en síðar að langlundargeð kvenna þrjóti og þær sýni með eftirminnilegum hætti hvers virði vinnuframlag þeirra er þjóðarbúinu.

Það er ljóst að það lagaákvæði sem atvinnurekendur veifa þegar þeir senda fiskverkunarfólk heim fyrirvaralítið og það stendur uppi atvinnulaust heggur þyngst í raðir kvenna og bitnar harðast á þeim. Það er algerlega óþolandi að þessar konur og annað fiskverkunarfólk, sem með vinnu sinni skilar okkur stærstum hluta af okkar gjaldeyristekjum, skuli búa við slíkt öryggisleysi í sínum aðbúnaði og kjörum — og ekki einasta það, heldur þarf þetta fólk, þegar það á annað borð hefur vinnu, að búa við nánast vinnuþrælkun til að bæta sér upp þá hungurlús sem kauptaxtarnir eru, enda eru það ekki síst konurnar í fiskvinnunni sem slíta sér út fyrir aldur fram og atvinnusjúkdómar ekki síst þekktir í þeirri stétt. Við skulum líka líta á að í hópi fiskverkunarfólks er ekki síst að finna það fólk sem hvað erfiðast á í þjóðfélaginu, þ.e. einstæðar mæður. Og hvaða áhrif hefur þetta öryggisleysi, sem þær búa við, á afkomu þeirra og barna þeirra eða yfirleitt á framfærslu og afkomuöryggi heimila fiskverkunarfólks?

Það er skylda okkar alþm. að sameinast um það að þegar í stað verði þær ráðstafanir gerðar sem bæta úr því réttinda-, afkomu- og öryggisleysi sem fiskverkunarfólk hefur orðið að búa við allt of lengi.