04.02.1985
Efri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2572 í B-deild Alþingistíðinda. (2038)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Mér kom nú til hugar einmitt það sem hv. þm. Egill Jónsson sagði hér um leið og ég gekk upp í ræðustólinn, að nú færi að styttast til kosninga. Mér kom það til hugar í sambandi við ræðu hv. 3. þm. Vesturl., þegar svo er nú komið að aðalmálsvarar olíufélaganna koma hér upp í ræðustól og halda langar ræður um það hvað margir vankantar séu á þeim rekstri (Gripið fram í: Segja sannleikann.) og segja sannleikann um þessi mál, að nú væri jafnvel farið að nálgast kosningar og þetta væri svona viðbótarliður við þá orkuumræðu sem átti sér stað í Morgunblaðinu í gær. Reyndar féll þar alveg út að nefna aukatekið orð um rekstur olíufélaga eða þann þátt, sem hér er verið að ræða um, en hann er kannske ekki hvað síst gagnrýnisverður í orkugeiranum og búinn að vera það lengi.

Mig langar til að ítreka nokkuð af því sem hv. 3. þm. Vesturl. nefndi hér.

Hann nefndi í fyrsta lagi að olíukostnaður fiskiskipaflotans mundi vera um 35% af reksturskostnaði. (Gripið fram í: Stærri togaranna.) Stærri togaranna rétt er það. Menn hljóta að hugleiða það nú, þegar ákveðnir erfiðleikar eru í sambandi við það að ná saman endum í samningum, hvort í þessum geira og í þessum hlut olíufélaganna felist ekki sá þáttur sem gæti leyst vandamálin milli útgerðar og sjómanna.

Sjómannafélögin hafa undanfarið lagt fram tölur um það hvað þessi hlutur er stór jafnframt því sem þau hafa reyndar tengt það þeim hlut sem tekinn er fram hjá skiptum hjá þeim. En ég gæti vel trúað því að ef útvegsmenn og sjómenn gætu komið því í kring nú á næstu dögum að hlutur olíufélaganna, skiptipeningur olíufélaganna, yrði nokkuð minnkaður mundi það nægja til þess að jafna það bil sem verið er að deila um á milli útvegsmanna og sjómanna.

Á sama máta undirstrikaði hv. 3. þm. Vesturl. það að einn af þeim þáttum, og kannske stærstu þáttum, sem ylli getuleysi loðnuverksmiðjanna til þess að borga sambærilegt verð og í Færeyjum og Danmörku, væri olíukostnaðurinn. Það væri um 40 kg af svartolíu sem færi á hvert tonn í bræðslu, og það gefur auga leið að það hlýtur að vera stór hluti kostnaðar loðnuverksmiðjanna sem einmitt fer til þessara orkukaupa.

Þarna er sem sagt annar þáttur sem sjómenn og útvegsmenn ættu að snúa bökum saman um að breyta, taka svolítið af þessum mikla milliliðakostnaði sem olíufélögin taka og færa til vinnslu og sjómanna.

Þm. benti einnig á það að á sama tíma og verðjöfnunargjaldið hefði hækkað um 268% hefði gengisbreytingin verið 115%, þ.e. yfir 150% munur á hækkun olíuvöru og gengis. Á þessu tímabili hefur ekki átt sér stað olíuverðshækkun, mun frekar vera lækkun. Ég þakka hv. þm. fyrir það að hafa flutt þessar tölur úr skýrslu LÍÚ hingað inn til Alþingis og ég undirstrika það að þetta eru atriði sem við hljótum að benda á nú. þegar stefnir jafnvel að stoppi í fiskiskipaflotanum, vegna þess að útvegsmenn telja sig ekki hafa möguleika til að hækka kaupgjald sjómanna um smáaura miðað við þær tölur sem hér eru nefndar.

Ýmislegt fleira mætti nefna. en ég sé ekki ástæðu til að lengja þessar umr. mikið meira. Þó vil ég aðeins nefna það að þetta frv. býður upp á þann möguleika að verðlag gæti verið breytilegt í landinu. Það er verið að gefa undir fótinn með að það sé verið að gefa möguleika til frjálsrar samkeppni. Mér sýnist nú samt flest benda til þess að þessi þríeina samfylking muni halda sambandi sínu á þann máta að samkeppni komi ekki mikið fram frekar en á undanförnum árum. Það að hafa eingöngu þann möguleika að ekki sé miðað við eitt hæsta verð hringinn í kringum landið heldur eitt hámarksverð, ég sé ekki að það breyti miklu. öðru en því þá að það getur skapað vissa hættu, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. nefndi í upphafi umr.. það getur skapað þá hættu, að vissir hlutar landsins búi við verri kjör en aðrir. Og ég vil undirstrika það að fyrir slíkt verður að loka. Ef frv. býður upp á þann möguleika verður að loka fyrir slíkt í meðferð frv. hér í deildinni.

Það er nú kannske rétt að minna á þann olíuslag sem mestur hefur orðið í fjölmiðlum og menn hafa fyrst orðið varir við núna í áraraðir, þ.e. olíuslaginn við Botnsskála í sumar, og það að gert var mikið veður út af því hvað þar væri að ske, sem rétt var. Ákveðinn aðili vakti athygli á því og það er sjálfsagt að benda á við hvaða aðila hann var þar að slást. Hann var að slást þar við þann arminn sem fyrst og fremst tilheyrir Sjálfstfl. í þessum þríeina þurs, hann var að slást við SHELL. Og þessi aðili hefur á undanförnum árum verið að slást við SHELL á þeim grundvelli að hann telur að sá þáttur sem fer til hinnar beinu dreifingar, síðasta aðilans, sé allt of lítill. En olíufélögin hafa ekki viljað gefa eftir af sínum höfuðstöðvagróða til að sinna þessum síðasta þætti dreifingarinnar.

Svo er kannske rétt að undirstrika það, eins og hv. 5. landsk. þm. benti á áðan, að sú litla samkeppni sem vart hefur orðið við hjá olíufélögunum hefur helst birtst í sölu á alls konar aukavörum sem þau hafa haft á boðstólum. Það er nú reyndar ekki komið á það stig enn þá að önnur olíufélög en Olís afli sér sjónvarpsþátta, en það félag hefur verið að bjóða Dallas að undanförnu. En þau hafa víða komið sér upp, eins og hv. 5. landsk. þm. benti á líka, alls konar þjónustubúðum og í veldi styrkleika síns, sökum þess að þau höfðu möguleika til þess að reka þjónustufyrirtæki, þá hafa þau byggt upp á sumum stöðum á landinu, t.d. á stað eins og á Akranesi, þjónustustöðvar við hliðina á grónum og góðum þjónustustöðvum, sem hafa verið að sinna nákvæmlega sömu þjónustunni, vitaskuld á engan máta annan en til þess að veikja rekstursgrundvöll þess fyrirtækis sem fyrir var. Þannig hefur samkeppnisþáttur þessara fyrirtækja sýnt sig. Og á einhverjum stöðum munu þessi fyrirtæki vera komin út í það að reka matvöruverslun í samkeppni við þá aðila sem fyrir hafa verið og hafa sinnt því hingað til.