04.02.1985
Efri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2575 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég vil sérstaklega fagna þeirri yfirlýsingu, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. og formaður fjh.- og viðskn. hv. Ed. gaf úr þessum ræðustóli áðan, að nú skyldi tekið til hendinni í n. og þetta kerfi afnumið. (Gripið fram í: Í eitt skipti fyrir öll.) Já, í eitt skipti fyrir öll. Ég fagna þessari yfirlýsingu sérstaklega og lýsi því yfir að ekki skal standa á mér að starfa með honum að því að koma fram skynsamlegum breytingum á þessu ófremdarástandi.

Ég held satt að segja að hvarvetna þar sem löggjöf er til um einokun og einokunarfyrirtæki mundi þetta ástand, sem hér ríkir, varða við margar greinar slíkra laga. Það er ég sannfærður um að svona kerfi gæti aldrei þrifist undir t.d. bandarísku löggjöfinni um hringamyndun og einokun. Auðvitað þurfa slík lög að vera hér til eins og annars staðar.

Milli þessara þriggja félaga, sem í orði kveðnu þykjast vera í samkeppni, er órofa samstaða um að halda þjónustunni við neytendur í algeru lágmarki og skal ég nefna um það þrjú dæmi hér.

Í fyrsta lagi: Greiðslukort, krítarkort, eru nú mjög algeng í hvers konar viðskiptum. Geta menn keypt bensín eða olíu gegn framvísan greiðslukorts? Nei. Olíufélögum þóknast ekki að veita viðskiptavinum sínum þess háttar þjónustu.

Númer tvö: Við skulum taka höfuðborgarsvæðið sem dæmi: Hvenær loka bensínstöðvar í Reykjavík? kl. 21.15. Eftir það er náðarsamlegast hægt að kaupa bensín á einum stað í allri höfuðborg Íslands! Telja menn þetta eðlilega þjónustu? Þetta er engin þjónusta. Þetta er lítilsvirðing við viðskiptavinina.

Í þriðja lagi: Hvarvetna á bensínstöðvum erlendis sem maður hefur séð, t.d. á Norðurlöndunum, er sjálfsafgreiðsla þannig að menn geta tekið bensín allan sólarhringinn. Þetta er mjög einföld og sjálfsögð þjónusta. Hefur íslensku olíufélögunum dottið í hug að bjóða neytendum sínum þessa þjónustu? Aldeilis ekki.

Þetta eru bara þrjú dæmi um hvernig þessi fyrirtæki hafa náð órofa samstöðu um að halda þjónustunni við neytendur í lágmarki. Þess vegna er þetta vont kerfi. Þetta er vont kerfi fyrir neytendur og það er engum til góðs nema þessum olíufélögum.

Ég spurði hæstv. viðskrh. um ákveðið dæmi, um mismunandi innkaupsverð sem mér segir hugur um að sé jafnað út. Ég spurði hvort honum þættu þetta eðlilegir nytjahættir. Ég heyrði ekki að hann svaraði þeirri spurningu. Ég vil beina til hans þeirri spurningu enn fremur (Gripið fram í.) hvort hann telji eðlilegt að olíufélögin reki matvöruverslanir og myndbandaleigur. Er það þeirra hlutverk? Ég hvet hann til að láta athuga með hverjum hætti neytendur greiða fyrir þá „þjónustu“.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa þessi orð fleiri, en ítreka að það skal ekki standa á því að formaður fjh.- og viðskn., hv. 4. þm. Norðurl. v., fái stuðning frá mér við sínar breytingar- og byltingartillögur í þessum málum þegar að því kemur að n. fer að fjalla um það. (EKJ: Strax á miðvikudaginn.)