05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2615 í B-deild Alþingistíðinda. (2080)

240. mál, sjúkrasamlög

Þórður Skúlason:

Herra forseti. Ég hjó eftir því hjá hv. fyrirspyrjanda að hann taldi að nokkur brögð væru að því að dráttur yrði á greiðsluhluta sveitarfélaganna til sjúkrasamlaganna. Ekki ætla ég í sjálfu sér að draga það í efa. En þó hygg ég að það geti verið mjög misjafnt á milli sveitarfélaganna.

Sýslumenn eru umboðsmenn Tryggingastofnunarinnar og þeir hafa þá sérkennilegu aðstöðu að þeir fá greidda hlutdeild sveitarfélaganna úr Jöfnunarsjóði til sín og geta notað greiðsluhlutann úr Jöfnunarsjóðnum til þess að greiða inn á reikning sveitarfélaganna hjá sýslusamlögunum. Ég hygg að það séu mörg dæmi þess að sveitarfélögin eigi töluverðar upphæðir inni á þessum reikningum, jafnvel allt árið um kring. Hins vegar leiðir þessi umr. ósjálfrátt til þess að menn fara að velta fyrir sér því fyrirkomulagi að sveitarfélögin greiði hlut í rekstri trygginganna. Ég hygg að það sé nokkurt umhugsunaratriði hvort það sé rétt fyrirkomulag. Það hefur gjarnan verið rætt um það af hálfu sveitarstjórnarmanna að það ætti að fara saman stjórnun og fjárhagsleg ábyrgð. En í þessu tilfelli er málum þannig fyrir komið að sveitarfélögin ráða sáralitlu um útgjöld sjúkrasamlaganna og Tryggingastofnunarinnar. Mér sýnist þess vegna áhugaverð sú hugmynd, sem hér hefur aðeins verið reifuð, að þátttöku sveitarfélaganna í sjúkratryggingunum verði hætt.