05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2619 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

194. mál, höfundalög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þetta eru merkilegar umr., einkum að tvennu leyti. Hv. þm. 12. þm. Reykv. Pétur Sigurðsson hefur borið hér fram fsp. til tveggja ráðh. Hann gjörþekkir til þessara mála. Það er mér kunnugt um. Og hvað hefur hann sagt? Hann hefur sagt tvennt. Hann hefur sagt að í sambandi við myndbandaleigurnar og rekstur þeirra þrífist að öllum líkindum og ég held að hann hafi jafnvel tekið sterkar til orða — stórkostleg skattsvik. Engar kröfur, engin skilyrði séu sett varðandi rekstur slíkra fyrirtækja. Hvar er hæstv. fjmrh. þegar þetta er sagt hér? Hann er a.m.k. ekki í salnum. Hann er kannske frammi að tefla skák. — Síðan greinir hv. þm. Pétur Sigurðsson frá því að einhverjir af þeim mönnum sem eru með slíkan rekstur hafi falsað merkimiða frá Kvikmyndaeftirlitinu og notað með ólögmætum hætti. Og hvað segir þá hæstv. menntmrh.? Það er bara ekki mín deild. Það er ekki mitt mál. Það er auðvitað brot, en er bara ekki mitt mál.

Mér þótti eins og hv. þm. ákaflega miður og ákaflega undarlegt að heyra þessi ummæli hæstv. menntmrh. (Gripið fram í.) Kannske höfum við báðir misskilið hana. Ég heyrði ekki betur en hún sagði: Þetta er ekki mitt mál. Og mér þykir þetta mjög undarlegt. Nú spyr ég hæstv. dómsmrh.: Er þetta kannske ekki heldur hans mál? Það er nefnilega merkilegt að upplifa það hér í sölum Alþingis að menn koma hér í ræðustól og fullyrða að lögbrot hafi verið framið og nefna um það ákveðin dæmi og beina því til ráðh., en það gerist ekki neitt. Ráðh. segja eins og sagt var í umr. hér um kapalkerfið fyrir tveimur eða þremur árum er hæstv. þáv. dómsmrh. sagði: Það hefur enginn talað við rn. Hér komu þá a.m.k. tveir þm., sá sem þetta mælir og hv. þm. Haraldur Ólafsson, og töluðu um þessi lögbrot vítt og breitt, en það gerði enginn neitt. Ráðh. hlustuðu ekki. Mér sýnist sama vera að gerast hér núna og þetta er mjög merkilegt fyrirbæri. Og þá sagði hæstv. núv. iðnrh. Sverrir Hermannsson sem kom inn í umr. fyrir tveimur eða þremur árum: Hér gerast undur og stórmerki. Menn koma hér hver á fætur öðrum og lýsa lögbrotum. — Hann var þá andstæðingur þeirrar ríkisstj. þó að flokksbróðir hans væri ráðh. Og hann sagði: Ef ég væri stuðningsmaður þessarar hv. ríkisstj. hefði ég fyrir löngu gengið úr þessum sal og hengt mig. — Menn geta flett því upp í þingtíðindum að hér er rétt með farið.

En hvað er að gerast hér þegar fullyrt er um lögbrot eins og hv. 12. þm. Reykv. hefur gert á mörgum sviðum og ráðh. koma hér og segja: Þetta er ekki mín deild, þetta er ekki mitt borð? Það held ég að hljóti að verða alvarlegt umhugsunarefni fyrir okkur.